Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.4.2010.
Ég tók eftir því í umfjöllun RÚV um Skýrsluna, að þar var ótrúleg rangfærsla um áhrif breytinga á húsnæðislánakerfi Íbúðalánasjóðs á íslenska hagkerfið. Þarna létu menn greinilega mata sig af röngum upplýsingum og má spyrja sig af hverju það var gert. Hvernig getur forstöðumaður hagfræðisviðs Seðlabanka Íslands komið með svona rugl eins og hann gerir, vekur furðu mína. Hallur Magnússon hefur margoft hrakið öll þessi rök aftur til föðurhúsanna og ég sé að hann var fljótur til í dag.
Þórarinn G. Pétursson hefði betur skoðað tölulegar staðreyndir sem birtar eru í töflum Seðlabankans. Þar kemur nefnilega fram, að útlán Íbúðalánasjóðs drógust saman frá 2004 til 2008. Hvernig getur samdráttur í útlánum ÍLS leitt til þenslu? Mér er gjörsamlega ómögulegt að skilja þetta. Á sama tíma jukust húsnæðislán bankanna um meira en tvöfalda þá tölu sem lán ÍLS drógust saman um.
Ég er svo sem ekki búinn að lesa mikið í Skýrslunni, en ég hef ekkert heyrst minnst á áhrif Basel II regluverksins á útlánaþenslu bankanna. Hver sem vill getur séð, að útlán bankanna byrjuðu að aukast um leið og Basel II reglurnar tóku gildi hér á landi og samhliða því að bindiskylda bankanna var minnkuð um helming árið 2003. Kannski er þetta skoðað, ég bara veit það ekki enn, en fyrst ekki hefur verið minnst á það í skýringum, þá hefur nefndin líklegast ekki tekið á áhrifum Basel II. Reglurnar koma nefnilega aftur við sögu í mars 2007. Ég heyrði einn nefndarmann gagnrýna skattalækkun til heimilanna 1. mars 2007, en ekki nefna einu orði breytinguna á Basel II reglunum daginn eftir. Þenslan sem varð um sumarið 2007 varð vegna aukinna útlána bankanna, þar sem útlánageta þeirra var aukin um 42% 2. mars 2007. Að heimilin hafi haft 3% meira umleikis skýrir ekki 14% verðbólgu í ágúst/september 2007. Sá sem heldur því fram að 3% lækkun matarverðs hafi meiri áhrif en 42% aukningu á útlánagetu, þarf að skerpa á stærðfræðikunnáttunni.
Viðbót 13.4.2010 kl. 11:00
Hér fyrir neðan er línurit sem sýnir útlánaþróun í lánakerfinu frá aldamótum fram til hruns bankanna. Efsta línan er heildarútlán, þá eru það útlán til atvinnuveganna, heimilanna (er skipt í lán frá Íbúðalánasjóði og lán frá öðrum frá og með 3. ársfjórðungi 2003; ÍLS er appelsínugula línan (neðri)) og loks lán til opinberra aðila. Á þessu línuriti sést að útlán ÍLS til heimilanna stendur nánast í stað á þessu tímabili. Raunar eru útlán ÍLS til heimilanna 444 milljarðar kr. í lok 2. ársfjórðungs 2004 og standa í 455 milljörðum kr. í lok 3. ársfjórðungs 2008. Í millitíðinni voru útlánin ALLTAF vel fyrir neðan þessar tölur og fóru lægst í 342 milljarða kr. í lok 1. ársfjórðungs 2006. Líklegast má rekja hluta "útlánaaukningarinnar" frá þeim tíma til verðbóta á lán, en ekki svo mikið til nýrra lána.
Nú vilja örugglega einhverjir halda því fram að tilkynning ÍLS um að fara í 90% lán sé það sem skiptir máli. Tölurnar segja annað. Það var fyrst og fremst innleiðing FME á Basel II reglunum sem orsökuðu þensluna og algjör dómgreindarskortur Seðlabankans að bregðast ekki við hinni auknu útlánagetu sem í því fólst með mótvægisaðgerðum, eins og t.d. að auka á bindiskylduna í staðinn fyrir að draga úr henni, að hækka stýrivexti verulega eða bara eitthvað annað en að lækka bindiskyldu. Hagstjórnarmistök Seðlabankans eru því æpandi í þessu máli og er bara eðlilegt að núverandi yfirhagfræðingur bankans reyni að beina umræðunni í annan farveg.