Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.5.2010.
Ég velti því fyrir mér í nóvember og desember 2008 hvort gjaldeyrishöftin væru mistök. Hreinlega hættuleg efnahag þjóðarinnar. Rök mín fyrir því voru, og eru enn, að hér á landi er heilmikið fé bundið sem er í eigu erlendra aðila. Þetta er það sem Gylfi Magnússon hefur stundum kallað "óþolinmótt fé", þar sem eigendur þess vilja gjarnan koma því úr landi. Nú hefur það verið bundið hér í rúmlega eitt og hálft ár á alveg hinum bestu vöxtum allt meira og minna í boði okkar skattborgara. Það sem var 100 milljarðar í nóvember 2008 er orðið að 120 milljörðum, þó eingöngu sé miðað við sæmilega vexti af ríkisskuldabréfum.
Þetta fé mun fara úr landi. Spurningin er bara hvenær og á hvaða gengi. Ef við bíðum í tvö til þrjú ár eftir að hleypa þessu fé úr landi, þá mun það tæma gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Það gengi vissulega nærri honum núna og hefði líka gert það fyrir hálfu ári. Málið er að það hefðu farið mun færri evrur í að flytja 100 milljarða úr landi þegar evran var um 190 kr., en í dag þegar evran er um 165 kr. og að maður tali nú ekki um eftir tvö til þrjú ár, þegar evran er vonandi kominn niður í 125 kr. Munurinn er gríðarlegur. 100 milljarða kr. er 526 milljónir evra á genginu 190, 606 milljónir evra á genginu 165 og 800 milljónir evra á genginu 125. Það er því mun hagstæðara fyrir þjóðarbúið, að losna við "óþolinmóða féð" núna, en eftir 2 - 3 ár. Raunar er líklegt að ef við bíðum í þessi 2 - 3 ár, þá verði 100 milljarðarnir orðnir um 150 milljarðar, sem jafngildir 909 milljónum evra miðað við gengið 165 og 1.200 milljónum evra miðað við gengið 125 eða meira en tvöföld sú upphæð 100 milljarðarnir voru á genginu 190.
Miðað við þetta erum við að skjóta okkur í fótinn með að halda þessum peningum inni í landinu. Hversu grimmt sem það er, þá er hagstæðast fyrir þjóðarbúið að losna við þetta fé úr landi strax. Það eru örugglega til margar leiðir, svo sem gefa út ríkisskuldabréf í evrum með ásættanlegum vöxtum, stuðla að því að lífeyrissjóðirnir kaupi þessar inneignir, nota hluta gjaldeyrisforðans, o.s.frv. Ef við gerum þetta ekki, erum við að kalla yfir okkur mjög mikla og erfiða gjaldeyriskreppu í fyrirsjáanlegri framtíð. Gjaldeyriskreppu, sem gæti valdið öðru og jafnvel verra hruni, en það sem við erum núna að glíma við.