Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 1.5.2010.
Það er merkilegt að lesa þessi ummæli Kjartans Georgs Gunnarssonar. Auðvitað getur hann sætt sig við 20 - 35% lækkun, þegar Héraðsdómur Reykjavíkur er rétt búinn að dæma að lækka eigi höfuðstól láns um tæp 60%. Nei, Kjartan, þú fékkst tilboð frá almenningi og það tók þig of langan tíma að svara, auk þess sem í millitíðinni hefur þú borið vitni fyrir þessum sama héraðsdómi, þar sem þú staðfestir að fyrirtæki þitt hafi marg ítrekað brotið gegn starfsleyfi þess. Þú fékkst þitt tækifæri, en féllst á tíma. Nú þarft þú og Árni Páll að fara aftur að teikniborðinu. Það er komið mun betra tilboð frá Héraðsdómi Reykjavíkur.
Ég held að fjármálafyrirtæki ættu að taka dóm héraðsdóm alvarlega. Hæstiréttur dæmir líklega í málinu innan tveggja vikna, þar sem um gjaldþrotamál er að ræða. Samkvæmt rannsóknaskýrslu nokkurra lögfræðinema frá Bifröst, sem ég hef undir höndum, þá munu lántakar eiga skaðabótarétt á hendur fjármálafyrirtækjunum.
Nú SP-fjármögnun er alveg sérdæmi, þar sem fyrirtækið hafði ekki, samkvæmt starfsleyfi gefnu út af Fjármálaeftirlitinu, heimild til flestra þeirra viðskipta og fjármálafærslna sem Kjartan Georg Gunnarsson bar í aðilaskýrslu fyrir dómi, að fyrirtækið legði stund á. Mér skilst að það mál hafi verið sent eða sé á leið [viðbót kl. 09:54] til efnahagsbrotadeilda ríkislögreglustjóra, sérstaks saksóknara og Fjármálaeftirlits enda liggur refsing við þeim brotum sem Kjartan Georg Gunnarsson viðurkennir í aðilaskýrslunni að hafa framið. Hér má sjá upplýsingar um starfsleyfi eins og þau voru skráð á vef FME í maí 2007og hér eru upplýsingar um breytingar á starfsleyfum frá 1. júlí 2007. Takið sérstaklega eftir hvað vantar inn hjá SP-fjármögnun og Avant.