Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.1.2010.
Nú þegar mesti stormurinn er genginn hjá eftir höfnun forsetans, virðist mér sem fleiri og fleiri séu farnir að átta sig á því að ákvörðunin var rétt. Hún var rétt vegna þess, að hún túlkar lýðræðislegan vilja þjóðarinnar. Hún er rétt vegna þess, að almenningur á ekki að borga skuldir einkafyrirtækis. Hún er rétt vegna þess, að samningurinn í heild er nauðungarsamningur hvað sem viðaukanum frá því í október viðkemur.
Ákvörðun forsetans segir ekkert til um það hvort greiða eigi til baka fyrir Icesave eða ekki, enda er það ekki hlutverk þjóðarinnar heldur er það hlutverk þrotabús Landsbankans. Með neyðarlögunum gerði þáverandi ríkisstjórn gríðarlega mikið fyrir breska og hollenska innstæðueigendur. Hún færð innistæður í forgangskröfur án tillits til upphæðar. Áður voru eingöngu innistæður upp að EUR 20.887 tryggðar, núna eiga innstæðueigendur möguleika á mun hærri endurheimtur innistæðna sinna. Það á að duga að Icesave samningurinn fjalli um það hvernig eignum Landsbankans verði best komið í verð og að þrotabúið verji eigum sínum í að greiða innstæðueigendum. Hafa skal í huga, að þegar neyðarlögin voru sett, þá vissu menn ekki betur en að eignir Landsbankans myndu duga ríflega fyrir öllu Icesave skuldbindingu. Hvernig það endar vitum við ekki fyrr en búið er að gera upp bankann.
Hvar sem við stöndum í þessu máli, þá skulum við hafa í huga, að bresk og hollensk stjórnvöld ákváðu sjálf, án þess að spyrja, að greiða út innistæður á Icesave reikningunum annars vegar upp að 50.000 pundum og hins vegar 100.000 evrum. Þessar upphæðir á Landsbankinn að greiða til baka eins og efni standa til og íslenski tryggingasjóðurinn á að ábyrgjast töluna upp að EUR 20.887. Hafi bresk og hollensk stjórnvöld fjármagnað útborgun sína með lánum (sem ég efast um), þá er sjálfsagt að koma til móts við þau með greiðslu vaxta fyrir lágmarksupphæðinni (EUR 20.887), en ekki það sem umfram er og eingöngu þá vexti sem þessi stjórnvöld þurfa að greiða. Við eigum ekki að greiða eitthvað vaxtaálag. Annars er þetta eins og með íslensku bankana og lækkun höfuðstóls sem sótt er til baka með hækkun vaxta.
Eignir Landsbankans ættu að duga vel fyrir fyrstu EUR 20.887 og því sem þessi tvenn stjórnvöld greiddu aukalega og talsverðu af því sem umfram er. En það sem er mikilvægast af öllu fyrir okkur Íslendinga er að endurgreiðsla fari fram í rökréttri röð, þ.e. borgað sé sama upphæð inn á alla reikninga uns annað tveggja gerist að krafa er að fullu endurgreidd eða peningarnir búnir. Það á ekki að gera það eins og Bretar og Hollendingar kröfðust, að greitt væri jöfnum höndum tvöfalt inn á innistæður umfram EUR 20.887. Það er gegn öllum hefðum, þegar kemur að greiðslur úr þrotabúi upp í kröfur. Eins og áður hefur komið fram, var það ákvörðun þessara tveggja ríkisstjórna að greiða meira en ESB tilskipunin kveður úr um. Þær verða því að axla ábyrgð á þeim reikningi hér eftir sem hingað til. Einfaldasta lausnin væri líklegast að þessar tvær ríkisstjórnir eignist einfaldlega gamla Landsbankann með húð og hár og reyndu sjálfar að gera sem mest mat úr eignum hans, en þá væri íslenski tryggingasjóðurinn laus allra mála. Það gæti auk þess skapað nokkur hundruð störf í þessum löndum á kostnað íslenskra bankastarfsmanna.
Á þessari stundu er mikilvægast af öllu að íslensk stjórnvöld hætti að bölsótast út í allt og alla sem vilja verja hagsmuni þjóðarinnar, þó þau séu ekki sammála leiðinni. Hætti þessu svartnættistali og heimsendaspám. Það er að koma í ljós, að umheimurinn hefur ekki bara skilning á málstað okkar, hann hreinlega styður hann. Það eru allir orðir yfir sig þreyttir á því að einkavæða hagnað en þjóðnýta tapið. Ríkisstjórnin á að nýta höfnun forsetans sem vopn í baráttunni fyrir betri samningi í staðinn fyrir að skríða afsakandi fyrir fætur lénsherranna. Hún á að standa keik, en ekki beygð. Ég held að þegar upp verður staðið, þá fáum við betri samning fyrir vikið.