Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.11.2010.
Hver hefði trúað því að örverpið sem sýnt var almenningi fyrir 25 árum yrði að því sem það er í dag? Ekkert fer á milli mála að Windowsstýrikerfið er vinsælasta stýrikerfið í dag. Útbreiðsla þess er gríðarleg og tungumálaútgáfur nánast óteljandi. En fyrstu skref þess lofuðu ekki góðu.
Ég hafði nýlokið námi mínu í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, þegar Windows kom á markað. Það keyrði ofan á DOS eins og við keyrum forrit í dag innan Windows. Þetta var sem sagt bara hvert annað forrit. Apple hafði sett Lísu (LISA) á markað tveimur árum fyrr og vakti hún að sjálfsögðu athygli okkar háskólanema. Fór menn í hálfgildings pílagrímsferðir upp í Radíóbúð á horni Skipholts og Nóatúns. Þar stóð Lísan á borði upp á 2. hæð og nálguðust menn hana eins og guðum líka veru.
Windows 1.0 og raunar allt fram að 3.0 var aftur eins og fyrirburi. Hafði ekki sömu burði og Lísan. En þegar forritin komu eitt af öðru þroskaðist Windows með. Gísli J. Johnsen í Kópavogi og Skrifstofuvélar á Hverfisgötunni höfðu á þessum tíma umboð fyrir Microsoft hugbúnað hér á landi. Fyrstu árin var eingöngu hægt að fá Windows hjá þeim, en svo fór kerfið að koma með vélum annarra framleiðenda. Sumarið 1987 fékk ég sumarstarf hjá tölvudeild Hans Petersen hf. sem var til húsa inn af ljósmyndavöruverslun fyrirtækisins í Austurveri við Háaleitisbraut. Þar seldum við Tandon tölvur, harða diska og jaðartæki. Tandon var mjög sérstakur karl og krafðist þess að með vélunum færi þeirra eigin útgafa af DOS. Með því fylgdi Windows, fyrst útgáfa 1.1 og síðan skyndilega útgáfa 1.3. Gallinn við þessar útgáfur, líkt og margt annað er varðaði tölvur á þessum tíma, var að ekkert af þessu skildi íslenska stafi. Mönnum hafði tekist að koma með viðbætur í DOS, en Windows birti bara engilssaxneska starfrófið.
Ég fékk það verkefni að breyta þessu, þ.e. fá Word, Notepad og önnur forrit til að nota íslenska stafi á réttan hátt. Útgáfa 1.3 varð fyrir valinu. Áður hafði ég patchað lykilborðsrútínur, minniskubba skjákorta og jafnvel prentara. Félagar mínir hjá tölvudeild HP, bræðurnir Hans Pétur og Sigurður Jónssynir, höfðu lært hvernig ætti að gera þetta, en þar sem það var svo leiðinleg vinna, þá var ég gerður að vinnudýri. Microsoft var ekki hrifið af því verið væri að patcha Microsoft forrit en lét það samt viðgangast með lágmarks stuðningi. Þegar Windows kom á markað var í reynd lagt blátt bann við slíkri pötchun, en þar sem við vorum með allt frá Tandon, þá litum við svo á að við hefðum meira frelsi.
Í nútíma tölvuumhverfi þá er næstum fáránlegt að tala um að forrit skilji ekki nýtt tungumál. En staðreyndin er að baki hverju tungumáli eru ólíkar reglur. Varðandi íslenskuna er það dauða komman á hástöfum, ý, þ og ð. Við vorum svo heppin að séríslenskir stafir komust strax inn í svo kallaða ASCII töflu. Þar deildum við að vísu sætum með nokkrum spænsku táknum og þar sem hinn spænskumælandi heimur er mun stærri en hinn íslenskumælandi, þá kom allur búnaður til landsins með n-tilda og fleiri slíkum táknum. Hér þurfti því að taka alla minniskubba skjákorta (PROM) og skipta þeim út fyrir endurforritaða minniskubba (EPROM). En það var ekki nóg. Segja þurfti tölvunni að þegar stutt var á dauða kommu, þá ætti bendillinn ekki að færast á skjánum heldur bíða eftir næsta innslætti. Loks þurfti að kenna tölvunni að sækja réttan staf í stafatöflu skjákortsins til að birta á skjánum, en áður en það var hægt varð að vera búið að breyta tákninu í viðeigandi íslenskan staf. Tölvunni sjálfri var alveg sama hvernig táknið leit út, þar sem allt var þetta vistað sem 0 og 1 á harða diskinn.
Windows var aðeins flóknara en DOSið, þar sem nú voru stafir ekki lengur sóttir í EPROM-ið. Í þetta verk réðst ég í ágúst 1987 og lauk því á tveimur dögum eða svo. Teiknaði íslenska stafi inn í stafatöflu Windows, fékk forritið til að skilja hvernig íslenskt lyklaborð hagaði sér og fékk það til að birta rétta stafi á skjánum. Þannig var það Tandon Windows sem varð fyrsta Windowsið til að skilja íslensku.
Microsoft komst fljótlega að því að Windows yrði að geta skilið alls konar tungumál, en ekki bara þau algengustu. Því var það í útgáfu 2.0 að tungumálareklar fylgdu með fyrir íslensku og önnur minni málsvæði.
Hausti 1991 byrjaði ég að skrifa um upplýsingatæknimál fyrir Morgunblaðið og fjallaði ég þá meðal annars um Windows 3.1 og Windows NT fljótlega eftir að þessi stýrikerfi komu út. Windows 3.0 kom út á vordögum 1990 og þótti ekki nógu gott. Gaf Microsoft eiginlega strax út yfirlýsingu um að útgáfa 3.1 myndi sjá dagsins ljós fljótlega. En Microsoft hefur sjaldan verið fyrir það að standa við tímasetningar og því dróst að útgáfa 3.1 kæmi. Í pistli eftir mig sem birtist í viðskiptablaði Morgunblaðsins 9. apríl 1992, er fjallað um 3.1, sem hafði verið kynnt á COMDEX tölvusýningunni í Las Vegas nokkrum dögum fyrr. Þar segir ég m.a.:
Windows umhverfið er fyrir löngu orðið staðall fyrir tölvur byggðar á Intel-örgjörvanum, þannig að nú er ekki lengur talað um IBM-samhæfðar tölvur heldur Windows samhæfðar tölvur.
Þegar Windows 3.0 kom út sögðu margir að nú hefði Microsoft loksins komið með notendaskil, sem gerðu gluggavinnslu jafn sjálfsagða á Pésum eins og hún er á Mökkum. Og það gekk eftir. Með Windows 3.0 ruddi Microsoft veginn fyrir hugbúnaðarfyrirtæki að koma með staðlað gluggaumhverfi. Umhverfi, sem allir gætu sætt sig við og vissu að mundi ná nægilegri útbreiðslu til að það borgaði sig að aðlaga hugbúnað sinn að. Nú er svo komið að allir helstu framleiðendur hugbúnaðar hafa annað hvort þegar komið með Windows-útgáfur af forritum sínum eða eru að koma með þær.
Einn stór munur var á Windows 3.0 og Windows 3.1 og um það segi ég í greininni:
Microsoft lætur ekki staðar numið þó Windows 3.1 sé komið á markaðinn. Næsta útgáfa, Windows 4.0, er væntanleg um mitt næsta ár og líka stýrikerfisútgáfa af forritinu, sem nefnd hefur verið Windows NT. Raunar er sú nýjung á Windows 3.1 pakkanum, að forritið er sagt vera stýrikerfi. Með þessu er Microsoft bara að staðfesta grun undirritaðs, að Windows32 (eldra þróunarnafn á Windows NT) væri ætlað að koma í staðinn fyrir gamla DOSið og fullkomna þar með færsluna úr stýrikerfi, sem notendur elskuðu að hata, yfir í kerfi sem jafnvel hörðustu gagnrýnendur PC-tölva geta verið ánægðir með.
Nú Windows 4.0 kom ekki ári síðar, heldur varð að bíða eftir Windows 95. Annað sem breytist heldur ekki, að DOSið hvarf ekki, heldur var það alltaf keyrt upp fyrst og síðan Windows ofan á. Windows Vista var fyrsta tilraunin til að losna við DOSið og sú breyting fullkomnuð með Windows 7.
Windows NT kom út mánuði síðar. Það merkilega við NT er að stýrikerfið var byggt á OS/2 3.0 stýrikerfinu sem Microsoft og IBM unnu að í sameiningu. Er þetta í eina skiptið svo ég viti til, sem Microsoft notaði vinnu IBM við þróun Windows. Ástæðan fyrir þessu er að slitnað hafði upp úr samstarfi fyrirtækjanna. IBM vildi að OS/2 væri þróað fyrir RISC örgjörva fyrirtækisins meðan Microsoft hélt tryggð við x86 arkitektúrinn. Vissulega ætlaði Microsoft að koma með útgáfu af NT fyrir önnur umhverfi, en það gekk aldrei almennilega upp.
En Bill Gates hafði þegar framtíðarsýn fyrir Windows og fjallaði ég lítillega um hana í sérblaði Morgunblaðsins um tölvur sunnudaginn 7. mars 1993. Þar segi ég m.a.:
Á starfsmannasamkomu í október síðastliðnum opinberaði Bill Gates, aðaleigandi Mircosoft, framtíðarsýn sína. Þar talaði hann um margmiðlun, textavarp með öflugum gagnabanka, hlutbundin stýrikerfi og veskistölvur (ekki reiknivélar heldur tölvur). Markmið hans var ekki að umbreyta Microsoft eða tölvuiðnaðinum, heldur hvernig fók nær í upplýsingar. Hluti af framtíðarsýn hans verður varla að veruleika fyrir en eftir einn til tvo áratugi. Þetta er það sem hann kallaði "Upplýsingar við fingurgómana" (Information at Your Fingertips)...
..Allt verður þetta byggt í kringum hugbúnað frá Microsoft. Windows verður notað í einu formi eða öðru í alls konar tækjum af öllum stærðum og gerðum; tölvur, sem skilja ritað mál og talað, lófatölvur, fistölvur, borðtölvur, sjónvarpstölvur og veggtölvur.
Óhætt er að segja að þessi framtíðarsýn Bill Gates hafi ræst. Alls konar tæki keyra núna á Windows. Símar eru orðnir af lófatölvum sem gera notandanum kleift að ekki bara nálgast upplýsingar, heldur vinna með þær. Ég hef séð ísskápa sem eru með Windows viðmót, öryggiskerfi sem keyra ofan á Windows og svona mætti lengi telja áfram. Nú textavarpið með gagnabanka er einfaldlega leitarvélar á internetinu.
Afmælisbarnið hefur náð þroska langt umfram það sem foreldrar áttu vona á, þegar króginn kom í heiminn. Ferðin með því í gegn um árin hefur ekki alltaf gengið vel og ennþá er það óútreiknanlegt í hegðun. Ófáar stundir hafa farið í að bölva því, endurræsingar, vírusar, enduruppsetningar, glötuð gögn og glataðar vinnustundir eftir system krass. Bláir skjáir með torkennilegum skýringum, restore points, hæggengar tölvur og allt þetta. En ekkert fer á milli mála, að Windows er ein merkasta afurð sem sett hefur verið á markað með fullri virðingu fyrir Apple. Ekkert forrit tengir eins marga um allan heim saman. Maður getur talað við Kínverja og hann skilur "Windows-málið", sama á við um Norðmanninn eða Þjóðverjann. Windowska, ef ég má nota það, er bæði tungutak og aðferðafræði sem hefur orðið til og mun bara ná sterkari tökum á heiminum eftir því sem tíminn líður.
Ég óska afmælisbarninu, þá sérstaklega foreldrunum, til hamingju með tímamótin og vona að því farnist vel í framtíðinni. Jafnframt vona ég að hegðun þess í framtíðinni taki mið af þroska sínum og það hætti unggæðingslegum kjenum og tiktúrum.