Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 27.6.2010.
Mér finnst einhvern veginn menn hafa gleymt því, að uppgjör milli nýju og gömlu bankanna eiga að koma til endurskoðunar 2012. Vissulega var hugmyndin að sú endurskoðun myndi leiða til þess að kröfuhafar fengju meira í sinn hlut, en hver segir að það sé meitlað í stein.
En það eru nokkur atriði sem ég held að litið sé framhjá:
1. Afslátturinn á gengistryggðu lánunum við yfirfærslu frá gömlu bönkunum til þeirra nýja var miðaður við gengi 30.9.2008 eða þar um bil. Hafi lánasöfnin farið á milli með segjum 45% afslætti, þá eru þau að fara á gengisvísitölu innan við 110.
2. Bankarnir hafa ekki fært upp í bókum sínum gengishagnað vegna veikingar krónunnar. AGS bannaði það, eins og kemur upp í ársuppgjöri Íslandsbanka.
3. Mörg gengistryggðu lánanna eru til langs tíma og það er út í hött að reikna með veikri krónu allan þann tíma. Styrking krónunnar myndi hafa sambærileg áhrif og afnám gengistryggingar til langframa að teknu tilliti til verðlagsbreytinga á lánstímanum. Dómur Hæstaréttar er því hraðvirk núvirðing lánanna fyrir utan að færa lánin að bókfærðu verði þeirra.
4. Þó svo að búið sé að skilja á milli gömlu og nýju bankanna, þá er endanlegu uppgjöri ekki lokið. Það á að fara fram 2012, a.m.k. í sumum tilfellum. Nú er staðreyndin að kröfuhafar munu líklegast fá minna en tölur Deloitte gerðu ráð fyrir og ég verð bara að segja, hvað með það!
Svo má náttúrulega velta fyrir sér af hverju menn reiknuðu ekki með þeim möguleika að Hæstiréttur myndi dæma gengistrygginguna ólögmæta. Það voru fjölmargir aðilar búnir að vara við því að gengistryggingin væri ekki í samræmi við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 og benda á orðalagið í athugasemdum með frumvarpinu að með þeim ákvæðum væri verið að taka af allan vafa um að óheimilt væri að binda lán í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Af hverju tóku menn þetta ekki alvarlega við uppgjörið? Af hverju var að minnsta kosti ekki gerður fyrirvari? Gunnar Tómasson og Björn Þorri Viktorsson sendu öllum hlutaðeigandi og öllum þingmönnum bréf þar sem varað var við þessu. Ég er búinn að vera að hamra á þessu hér á þessari síðu og Hagsmunasamtök heimilanna í útsendu efni. Að ekki hafi verið gerður fyrirvari við þetta eru hrein og klár afglöp þeirra sem komu að uppgjörinu fyrir hönd nýju bankanna og þar með stjórnvalda.
En nú erum við í þeirri stöðu að Hæstiréttur hefur fellt sinn dóm. Fjármálafyrirtækin munu eftir fremsta megni reyna að draga úr tjóni sínu, alveg eins og lántakar voru að reyna að draga úr skaða sínum. Fjármálafyrirtækin gera það ekki með því að reyna að fara framhjá dómi Hæstaréttar. Þau gera það ekki með frjálslegri túlkun sinni á dómnum. Þau geta eingöngu gert það með því að nýta ákvæði samninganna og það verður að gera innan marka 36. gr. laga nr. 7/1936. Ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001 eiga bara við þegar lánveitendur þurfa að endurgreiða ólöglega vexti og þar með ólöglega gengistryggingu. Það virkar ekki í hina átti. Ákvæði 36. gr. verndar neytandann fyrir breytingum á samningi lántaka í óhag. Mér sýnist sem fjármálafyrirtækin séu einfaldlega mát eða þvingað mát sé í stöðunni.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt fram tillögu um hvernig farið skuli með uppgjör vegna lánanna. Samtökin fengu lögfræðing til að fara yfir þær, áður en þær voru lagðar fram og talsmaður neytenda hefur einnig skoðað þær og leist "mjög vel á málsmeðferð", eins og hann sagði í tölvupósti til mín. Nú er komið að fjármálafyrirtækjunum að ákveða hvað þau vilja gera, en hvað sem þau gera, þá geta þau ekki rukkað meira en upphafleg greiðsluáætlun segir til um og þau verða að hætta að rukka þá sem eru búnir að greiða meira en samtala greiðsluáætlunar segir til um.