Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 27.6.2010. Efnisflokkur: Stjórnmál
Ég var að lesa færslu á Silfrinu hans Egils og umræðuna sem þar kom upp. Ég var byrjaður að skrifa athugasemd, en hún eiginlega þróaðist út í þessar vangaveltur hér. Þær spunnust út frá því að Guðbjörn Guðbjörnsson sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum í kjölfar samþykktar flokksins um að draga til baka ESB umsókn. Hér eru vangaveltur mínar:
Fróðlegt að lesa þessa umræðu (þ.e. á Silfrinu) um þörf á flokki á mið-hægri væng. Furðuleg afmörkun, þegar vængirnir eru orðnir jafn þokukenndir og raun ber vitni. Eina stundina er Sjálfstæðisflokkurinn vinstra megin við Samfylkinguna í félagshyggju og aðra er VG hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn í frjálshyggju allt eftir því hvert málefnið er.
Ég held að það sem Ísland þarf er flokkur fyrir fólkið. Hvort að hann er vinstri hægri snú flokkur eða hægri vinstri snú flokkur skiptir ekki máli. Bara að hann beri hagsmuni almennings fyrir brjósti og leysi úr málum sínum á lýðræðislegan hátt. Hvað eru t.d. raunverulega margir á Íslandi sem vita hvort aðild að ESB er jákvæð eða neikvæð? Hvað felst í aðildinni, hvað við fáum og hverju við fórnum? Ég tel mig alveg þokkalega upplýstan mann, en ég get ekki sagt af eða á hvort ESB aðild er það sem hentar okkur, en ég veit fyrir víst, að við eigum að stefna að því að uppfylla öll skilyrði inngöngu og öll skilyrði fyrir upptöku evru óháð því hvort við förum í ESB eða tökum upp evru, vegna þess að það er alveg örugglega til hagsbóta fyrir almenning!
Gallinn við fjórflokkinn er sagan og þeir hlekkir sem hún lætur þá dragast með. Þetta er saga sérhagsmuna, spillingar, afneitunar, mistaka, óeiningar, efnahagsóstöðuleika, getuleysis, úrræðaleysis og svona gæti ég haldið lengra áfram. Nú segir einhver að VG eigi ekki slíka sögu. En dettur einhverjum heilvita manni í hug að skilja að sögu VG og Alþýðubandalagsins? Samfylkingin neitar ekki uppruna sínum í Alþýðuflokknum, þó hún sé löngu búin að gleyma út á hvað sá flokkur gekk. Þingstörf í vetur hafa sýnt okkur að Samfylkingin er orðin að hagsmunagæsluflokki fyrir fjármagnseigendur og VG hefur dregist inn í það. Öðru vísi mér áður brá að sósíalistar og sósíaldemókratar taki upp hanskann fyrir auðvaldið til að lemja niður almúgann! Og á sama tíma tekur flokkur atvinnurekenda upp hanskann fyrir almúgann (fyrirgefið mér þetta Sjálfstæðismenn, en hlekkir sögunnar segja að þið séuð hagsmunagæsluflokkur atvinnurekenda).
Það verður engin breyting í bráð hjá fjórflokknum. Í gær fékk Sjálfstæðisflokkurinn kjörið tækifæri til að breytast. Hann gat kosið almennan flokksmann í embætti varaformanns. Ólöf er örugglega fín. Kannast við hana af Nesinu, en hún er hluti af flokksverkinu - kerfinu. Auk þess er hún konan hans Tomma, sem rekur eitt stærsta fyrirtæki landsins. Áður var Þorgerður Katrín varaformaður, sem ég þekki líka frá gamalli tíð, metnaðarfull og klár kona, sem hafði unnið sig upp í efri stéttir þjóðfélagsins. Og það er punkturinn. Í gær gat Sjálfstæðisflokkurinn færst nær almúganum, en hann kastaði því tækifæri frá sér. Ég vil samt óska Ólöfu til hamingju. Það var þá loks að Seltirningur varð varaformaður flokksins. Gamla Gróttufólkið er farið að raða sér út um allt í þjóðfélaginu
Samfylkingin er ennþá að ákveða hvað hún ætlar að gera. Jóhanna sagðist ekkert vera á förum, en hefur greinilega misskilið hlutverk sitt sem forsætisráðherra. Í því embætti er einmitt gott að vera á ferðinni, þ.e. út á meðal almúgans. Hún getur það náttúrulega ekki, þar sem hún gæti lent í sömu klemmu og skoðanabróðir hennar hann hr. Brúnn sem lenti á konu með óheppilega skoðun. Jóhanna, hann Hrannar getur ekki verndað þig endalaust fyrir staðreyndum um stöðuna í þjóðfélaginu. Ennþá verra hjá Samfylkingunni er að allir innan hennar ganga í sama vitlausa múgsefjunartaktinum. Það er sama hvaða vitleysa kemur frá flokksforustunni, enginn þorir að víkja af línunni. Jábræðralagið skal standa þó ekkert vit sé í því. Síðan á Samfylking bara eitt svar við öllu: ESB, ESB, allt er betra í ESB. Þessi mantra er orðin svo vandræðaleg, að maður er farinn að óttast að fólkið gangi í dáleiðslu og fari sér að voða.
VG kettirnir eru frekar kindugir, því þeir rata alltaf í réttum fjölda heim, þó ekki séu alltaf þeir sömu heima! Þetta er eitt furðulegasta leikrit sem ég hef upplifað. Ein Lilja er alltaf með eigin skoðun meðan önnur Lilja fylgir formanninum. Þriðja Liljan hoppar á milli. Ég er ekki viss um að Eysteinn hafi kveðið um svona Liljur, því þá hefði kvæðið ekki orðið jafn fagurt og raun bar vitni. Hann hefði sífellt þurft að breyta bragarhættinum. Innan VG er furðulegt safn þingmanna og skil ég ekki hvernig Álfheiður Ingadóttir getur átt heima þarna. Hún hefur ekki í sér að taka afstöðu með almúganum. Á hinum endanum eru eins rauðir kommar og hægt er að hugsa sér. Takt þekkir flokkurinn ekki, en mér finnst það samt fela í sér vissan sjarma.
Svo er það Framsókn. Ég talaði á miðstjórnarfundi flokksins um daginn um stöðu heimilanna. Ég sagði þeim eitt og annað og hafði á tilfinningunni, að fyrir utan mesta lagi 10 manns í salnum, þá vissi þetta fólk ekki hvað var að gerast. Sorglegt. Sama gerðist raunar þegar ég hélt erindi hjá Sjálfstæðismönnum í fyrra. Afneitunin eða sambandsleysið við þjóðfélagið er átakanlegt. Tek þó fram að innan Framsóknar er alveg hörkudugleg kona, Eygló Þóra Harðardóttir. Stundum finnst mér kröftum hennar sóað innan flokksins. Sama á við um Unni Brá hjá Sjálfstæðisflokknum og ég skil alls ekki hvað Lilja Móses þolir lengi við í VG. Ég held í einlægni að Framsókn vilji vel, en hann hefur bara enga vigt. Það hlustar enginn á flokkinn, enda engin þörf á því. Tilvistarkreppa hans hlýtur því að vera svakaleg. Ekki bætir úr skák að hann hefur leitað í smiðju Einars Ágústssonar, en eins og þeir sem muna eftir þeim mæta manni vita, þá fékk hann viðurnefnið "já, já - nei, nei", af því að hann gat aldrei haft skoðun á neinu eða skipti um skoðun á milli viðtala.
Fjórflokkurinn er að grafa sína gröf. Það sýndu sveitastjórnarkosningarnar um daginn. Sjálfstæðisflokkurinn barði heldur betur í brestina í gær og nú er spurningin hvort hann hrökkvi í sundur. Ístöðuleysi flokksins er ótrúlegt. Hann tekur 180 gráðu beygjur þegar það hentar honum, þó það gangi stundum þvert á landsfundarsamþykktir. Maður hefur á tilfinningunni að skoðanakannanir ráði för. Þrátt fyrir þetta mun fjórflokkurinn lifa af meðan að fólk hefur ekki annan og traustan kost. Þökk sé Borgarahreyfingunni, þá verður ekki hægt að treysta að grasrótin geti komið sér saman um eitt eða neitt. Ég er ekki að taka afstöðu í því máli, bara segja að þessi uppákoma olli skaða. Ég hef rætt nokkrum sinnum við Margréti og Þór, en Birgittu varla svo heitið getur í nær 20 ár. Ég held samt ekki, að þau hrófli mikið við fjórflokknum. Hvað með Besta flokkinn og slík framboð? Mér finnst alveg fínt að hafa Jón Gnarr í Reykjavík og vil fá að fylgjast með honum úr fjarlægð áður en álit verður gefið út. Vona bara að hann verði betri stjórnandi en Georg Bjarnfreðarson.
Bara svo það sé á hreinu, þá er ég ekki að hugsa um uppreisn eða framboð gegn fjórflokknum. Ég held að pólitík sé mannskemmandi, a.m.k. eins og hún er stunduð í dag. Sjáum bara hvernig ráðherrastarfið hefur farið með ljúfan mann, eins og Gylfa Magnússon. Hann glataði sakleysi sínu, en það sem verra er, að mér sýnist hann hafa glatað hugsjónum sínum. Ég vona hans vegna að hann fái sem fyrst að snúa til fyrri starfa, því ég get ekki séð að honum líði vel í því sem hann er að gera. Ég held líka að Pétur Blöndal hafi alveg sagt satt þarna um daginn. Þetta er illa launað og ákaflega slítandi starf fyrir þá sem stunda það af einurð. Vinnutíminn er heilsuspillandi og álagið líka, þó svo að landsmenn sjái alltaf ofsjónum yfir þinghléum, þá kæmi mér ekki á óvart að árlegur vinnutími þeirra þingmanna sem mest leggja á sig sé langt yfir þessum 1.600 tímum sem hinn almenni launamaður á að skila. Ég er alveg handviss um að Alþingi brýtur oft mjög gróflega gegn lögum um hvíldartíma og um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað. Svo má ekki gleyma að hver sem er svo vitlaus að láta kjósa sig þarna inn, er búinn að gefa út opið skotleyfi á allt sem viðkomandi segir og skotin koma án tillits til þess hvort ummælin voru viturleg eða ekki. Er ég sko alls ekki saklaus af slíkri skothríð.
Því vil ég að lokum þakka öllum þingmönnum fyrir störf þeirra frá síðustu kosningum. Þó ég sé ekki sáttur við allt sem þið gerðuð, þá vona ég að þið hafið verið, í ykkar huga, að leggja ykkur fram fyrir þjóðina. Meira get ég ekki farið fram á. Nú ef þið eruð ekki sannfærð um að þið hafið verið að leggja ykkur fram, þá hafið þið líklegast þrjú ár til að bæta úr því.