Umræða á villigötum

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 23.6.2010.

Pétur H. Blöndal verður seint sakaður um að tala ekki skýrt.  Vandinn við hann er einstrengingsleg afstaða hans til hlutanna, sérstaklega þegar kemur að verðtryggingunni.  Morgunblaðið birtir í dag ítarlegt viðtal við Pétur og er það á margan hátt mjög fróðlegt, en því miður uppfullt af þeim dæmigerðum ranghugmyndum og rangfærslum sem þingmaðurinn hefur haldið fram í fleiri áratugi.  Þegar þessu er síðan pakkað svona saman í eitt viðtal, þá get ég ekki annað en brugðist við málflutningi hans og ekki í fyrsta skipti.

1.  Þeir sem tóku gengistryggð lán fóru óvarlega með fé:  Þetta er svo arfa vitlaus staðhæfing að með ólíkindum er að hún komi frá jafn greindum manni og Pétur er.  Að einhver hafi kosið að taka gengistryggt lán frekar en óverðtryggt á 15% vöxtum eða verðtryggt á 9% vöxtum hefur ekkert með það að gera hvernig menn fóru með fé sitt.  Það eru engin orsakatengsl á milli tegundar lánsins og hvernig farið er með féð sem fengið var að láni.  Þetta er rökyrðing sem ekki gengur upp.  Mér virðist Pétur taka hér tvær yrðingar og tengja þær á rangan hátt til að búa til þá þriðju. Fyrsta yrðingin er:  Sumir lántakar tóku gengistryggð lán.  Önnur er:  Sumir lántakar fóru óvarlega með fé.  Og úr varð sú þriðja:  Þeir sem tóku gengistryggð lán fóru óvarlega með fé.  Í staðinn fyrir:  Sumir lántakar sem tóku gengistryggð lán fóru óvarlega með fé.

2.  Þeir sem tóku gengistryggð lán tóku meiri áhættu:  Önnur alveg staðhæfulaus fullyrðing.  Þingmaðurinn veit betur, enda tryggingastærðfræðingur að mennt og hefur langa reynslu af störfum innan fjármálageirans.  Staðreyndin er sú, að þrátt fyrir hrun íslensku krónunnar 2008 og 2009, þá hefur vísitala neysluverðs hækkað meira undanfarin tuttugu ár, en sem nemur veikingu krónunnar á sama tímabili. Förum lengra aftur og þá fáum við að frá janúar 1980 hefur vísitala neysluverðs hækkað að jafnaði um 16,3% á ári og alls um 5.252% (fram til maí í ár).  Þetta jafngildir ríflega 52 földun vísitölunnar á tímabili sem er dæmigert fyrir lánstíma húsnæðisláns.  Setjum þetta inn í lánareikni Arion banka og þá fáum við að endurgreiðsla af 10 milljón kr. láni væri 455,8 milljónir kr. (30 ára verðtryggt lán með 4,5% vöxtum.)  Hver er nú áhættan?  Hafa skal í huga, að hrun íslensku krónunnar er tilkomið samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vegna víðtækrar og mjög grófrar markaðsmisnotkunar og stöðutöku stærstu fjármálafyrirtækja landsins á árunum fyrir hrun.  Nokkuð sem enginn lántaki gat látið sér detta í hug.  Þessi stöðutaka og aðrar ákvarðanir sem teknar hafa verið af misvitrum bankamönnum hafa verulega til þeirrar yfir 50% hækkunar vísitölu neysluverðs sem orðið hefur undanfarin 5 ár eða svo.

3.  Mikilvægi verðtryggingarinnar fyrir lífeyrissjóði:  Pétri er tíðrætt um mikilvægi verðtryggingarinnar fyrir lífeyrissjóðina.  Ég hef marg oft vikið að þessari mítu, því þessi fullyrðing Péturs er ekkert annað.   Ávöxtun lífeyrissjóðanna árin fyrir hrun jókst gríðarlega vegna ávöxtunar óverðtryggðra eigna sjóðanna.  Ég hef lesið allt það efni sem ég hef komist yfir um áhrif verðtryggingar á afkomu lífeyrissjóða, m.a. skýrslu sem kollegi Péturs, Tryggvi Þór Herbertsson, skrifaði um efnið fyrir lífeyrissjóðina 2004 og nú síðast stórfurðulega skýrslu Askar Capital um verðtrygginguna ritaða að beiðni efnahags- og viðskiptaráðuneytis.  Í flestum þessum skýrslum og greinum er sett fram fullyrðing um að verðtrygging sé lífeyrissjóðunum mikilvæg en síðan vantar alltaf að koma með haldgóðar sannanir fyrir fullyrðingunni.  Það er eins og menn haldi, að með því að endurtaka fullyrðinguna nógu oft, þá verði hún að sönnunarfærslu.

4.  Óverðtryggðir innlánsreikningar bera neikvæða vexti:  Gott og vel, það er rétt.  En samkvæmt tölvupósti sem ég fékk í gær, þá eru innlánsvextir Danske Bank á innstæðum upp að DKK 25.000 0,125% og 0,250% á upphæðum umfram DKK 25.000.  Verðbólga í Danmörku er um 2%.  Um allan heim gerist það, að óverðtryggðir innlánsreikningar bera neikvæða vexti.  Það er ekkert nýtt og þarf ekki að vera neitt hættulegt, þó vissulega væri gott fyrir innlánseigendur að geta fengið betri ávöxtun.

5.  Niðurstaða Hæstaréttar umbunar þeim sem sýndu ekki ráðdeild:  Þessi fullyrðing er í anda liðs nr. 1 og er algjört bull og vitleysa.  Í fyrsta lagi snýst niðurstaða Hæstaréttar ekki um að umbuna einum eða neinum heldur ógilda ólögmætan gjörning.  Höfum eitt alveg á hreinu, að sá sem tók gengistryggt lán hann reiknaði með lágum vöxtum og hann hefur greitt lága vexti allan samningstímann.  Hvað kemur það ráðdeild við hvort fólk tók gengistryggt lán eða ekki?  Hér er þingmaðurinn að slá um sig með frösum í tilraun til að blekkja auðtrúa einstaklinga.  Ég held að hann ætti að rifja aðeins upp námsefni sitt í rökfræði sem ég efast ekki um að var hluti af stærðfræðinámi hans.  Það eru engin orsakatengsl á milli tegundarláns og meðferðar þess, sbr. rökyrðingar mínar í lið 1.  Ég veit um fullt af fólki sem hafði sýnt öfgakennda "ráðdeild" alla sína ævi í fjármálum og ákvað að taka gengistryggt lán að atbeina þjónustufulltrúa síns.  Að slá um sig með svona ódýrum frösum er þingmanninum ekki sæmandi.

6.  Dómur Hæstaréttar er eins og blaut tuska í andlit sparifjáreigenda:  Hér er annar kunnulegur og innistæðulaus frasi frá þingmanninum.  Hvað kemur þessi dómur sparifjáreigendum við?  Af hverju eru aðgerðir sem gagnast lántökum aðför að sparifjáreigendum?  Dómurinn "verðlaunar þá sem tóku áhættu..og voru óvarkárir í fjármálum".  Fyrirgefðu, Pétur minn, voru sparifjáreigendur sem áttu yfir 3 m.kr. á einum reikningi í hrunbönkunum ekki "óvarkárir í fjármálum"?  Hver er munurinn á þeirra stöðu og stöðu lántakans?  Af hverju var öllum innstæðum "óvarkára" sparifjáreigandans bjargað, en lántakar máttu éta það sem úti fraus?  Nei, höfum það á hreinu.  Dómur Hæstaréttar leiðrétti gangvart lántökum gengistryggðra lána, það óréttlæti sem fólst í því að neyðarlögin björguðu sumum en ekki öðrum.  Ef sparifjáreigendur ætla að vera með öfund eða ólund út í þá sem njóta niðurstöðu Hæstaréttar, þá vil ég biðja þá hina sömu að gefa eftir það sem neyðarlögin gáfu þeim.  Mér þykir sem sparifjáreigandinn Pétur H. Blöndal kasti steini úr glerhúsi.  Hafi einhverjir fengið gjafagjörning af hálfu íslenskra stjórnvalda, þá eru það sparifjáreigendur sem áttu háar upphæðir inni á ótryggðum innstæðureikningum við setningu neyðarlaganna.  Ég tek það fram, að mér fannst þá og finnst en hið besta mál að verja þessar innstæður, en verndina átti að takmarka við stöðu reikninganna eins og hún var 31.12.2007 að teknu tilliti til úttekta og innlagna á árinu.  Verndin átti ekki að ná til áfallinna vaxta og verðbóta á árinu 2008.  Það var gjafagjörningur.

7. Skilja ekki efnahagslögmálin:  "Pétur telur að margir málshefjendur virðist ekki skilja efnahagslögmálin sem hér séu að baki," þegar talað er um að verðtrygging sé böl sem ber að bæta.  það er stórfurðulegt hvað efnahagslögmálin virka allt öðruvísi hér á landi en annars staðar í heiminum.  Ísland er eitt fárra landa í heiminum, þar sem boðið er upp á verðtryggð neytendalán og svo erum það við sem viljum takmarka notkun verðtryggingarinnar sem skiljum ekki efnahagslögmálin.  Þetta er svo ótrúleg staðhæfing hjá þingmanninum, að það liggur við að hún sé ekki svara verð.  Málið er að fæstir sem hingað koma og fjalla um íslenskt efnahagslíf skilja verðtrygginguna.  Ég átti fund með Mark Flanagan, frá AGS, og hann sem á að heita sérfræðingur sjóðsins í málefnum Íslands, hann skildi ekki hvernig verðtryggingin virkaði á grundvallar hagstærðir.  Málið með verðtrygginguna hún er heima tilbúið böl og á hana verður að koma böndum.  Frá því að verðtryggingin var innleidd með Ólafslögum 1979 hefur hún ítrekað leitt yfir okkur kollsteypur.  Hún hefur ekki komið í veg fyrir að lífeyrir hafi verið skertur, hún hefur ekki aukið á hagsæld eða jafnað lífskjör.  Hún hefur að því virðist einn tilgang, sem kom skýrt fram í hinni dæmalausu skýrslu Askar Capital.  Hún á að tryggja fjárfestum og sparifjáreigendum áhættulausa ávöxtun.  Þetta er eina efnahagslögmálið sem skilja þarf varðandi verðtrygginguna og ég skil það mjög vel.  Þetta efnahagslögmál er bara rugl, þar sem það er ekkert til sem er áhættulaust.

8. Mjög óheppilegur dómur, þar sem lánin munu brenna upp eins og yfir 1980:  Þetta er enn ein stoðlausa fullyrðing þingmannsins.  Í fyrsta lagi, þá grípur hann í klisju sem Þórólfur Matthíasson notar oft:  "Munið þið hvernig þetta var fyrir 1980?"  Já, ég man hvernig þetta var fyrir 1980, en mig langar að lauma að þingmanninum nýlegri tölum.  Á síðustu 20 árum hefur verðbólga frá janúar til janúar verði 10 sinnum undir 4% og það ellefta var verðbólgan 4%.  Af þeim 9 árum sem þá eru eftir eru 6 á þessari öld eftir að krónan var sett á flot, verðbólgumarkmið tekin upp og bankarnir einkavæddir að hluta eða öllu leiti.

9.  Dómurinn hefur slæm áhrif á stöðu bankakerfisins:  Pétur H. Blöndal býr yfir miklum upplýsingum um stöðu bankakerfisins og þá á ég við fjárhagslega stöðu þess.  Hann veit betur en flestir landsmenn að lánasöfna gömlu bankanna voru færð með verulegum afslætti til þeirra nýju.  Pétur hefur raunar fengið í trúnaði nákvæmar upplýsingar um það hver þessi afsláttur var.  Ég get bara vísað í októberskýrslu AGS, en það kemur fram að lánasöfn heimilanna voru flutt yfir með 45% afslætti og lánsöfn fyrirtækja með allt að 70% afslætti.  Svo merkilegt sem það er, þá ætlast AGS til þess að bankarnir skili þessum afslætti til lántaka sinna krónu fyrir krónu.  Allur afslátturinn skal ganga til lántakanna eða notaður til að greiða fyrir dýrari fjármögnun lánanna.  Nú er það þannig að gengistryggð lán heimilanna voru nokkuð nærri 30% af lánasöfnum bankanna.  Lækkum þessa tölu um helming og þá lækkar verðmæti lánasafnanna um 15%.  Þá eru ennþá 30% eftir til að takast á við önnur vandamál og hærri fjármögnunarkostnað (sem ég held að sé lélegt yfirskin).  Þá má benda á, að AGS bannaði (samkvæmt frétt Íslandsbanka) bönkunum að færa gengishagnað vegna veikingu krónunnar á fyrri helmingi árs 2009 til eigna eða tekna, heldur urðu bankarnir að færa hana sem varúðarfærslu sem kröfu sem líklegast yrði ekki innheimt.  Um þriðjungur, ef ekki meira af veikingu krónunnar varð einmitt á fyrri helmingi síðasta árs, þannig að höfuðstólshækkun lánanna vegna veikingar krónunnar er skráð með tvennum hætti í bókum bankanna.  Annars vegar hefur krafan á lántakann hækkað og hefur innheimt að fullu samkvæmt því, en hins vegar er hún færð á varúðarreikning sem líklegast töpuð krafa.  Nú vil ég gjarnan að tryggingastærðfræðingurinn Pétur H. Blöndal skýri það út fyrir fávísum lesendum Morgunblaðsins hvernig afnám gengistryggingarinnar getur haft áhrif á stöðu bankanna, sem þegar er búið að gera ráð fyrir að stór hluti af stökkbreytingu höfuðstóls lánanna innheimtist ekki og afgangur var gefinn bankanum við yfirfærslu lánasafnanna frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.

10. Landið þarf eftir sem áður einhverjar bankastofnanir:  Þetta er rétt, en bankastofnanir þurfa viðskiptavini.  Eins og staðan er í dag, þá virðist mér sem það sé einbeittur vilji allt of margra fjármálafyrirtækja að hrekja sem flesta viðskiptavini frá sér.  Ég er sannfærður um það, að opni ný fjármálastofnun afgreiðslu á höfuðborgarsvæðinu, þá muni mjög stór hluti íbúa á svæðinu huga að því að færa viðskipti sín til hinnar nýju stofnunar.  Sparisjóður Suður-Þingeyinga á Laugum, sem álitin er hrein mey þegar kemur að öllum ruglinu sem viðgekkst í íslensku fjármálalífi, hefur t.d. átt í megnustu vandræðum vegna hins mikla fjölda viðskiptavina sem þangað hafa snúið sér með peningana sína.  Getur fólk bara ímyndað sér hver atgangurinn verður þurfi fólk ekki að leggja á sig ferðalag norður á Laugar til að geta hafið viðskipti.  Vilji viðskiptabankarnir lifa af, þá þurfa þeir að huga mun meira að viðskiptavinum sínum og ég legg áherslu á viðskeytið "vinur".  Stjórnendur fjármálafyrirtækja verða að skoða mun betur en áður hvernig hægt er að leysa skuldavanda heimila og fyrirtækja með viðskiptavininum og á forsendum sem hann getur sætt sig við.  Ef það gerist ekki, þá fer fólk með viðskiptin sín annað um leið og færi gefst.

Ég læt þetta duga, en gæti tekið á fleiri atriðum og gert þessum betri skil.  Ég tek það fram að ég dáist oft af því hvað Pétur H. Blöndal getur verið hugmyndaríkur, en hugmyndafræðilega er ég mjög oft ósammála því sem hann segir í opinberri umræðu.  Á bak við lokaðar dyr á nefndasviði Alþingis eða á fundum með þingflokki Sjálfstæðisflokksins hafa á mótið komið frá honum fjölmörg atriði sem ég hef getað tekið undir, þó önnur séu í anda þess sem ég fjalla um að ofan.


Bruðlurum bjargað