Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 23.6.2010. Efnisflokkur: Gengislánadómar, Stjórnvöld
Já, þetta er fróðleg upptalning á þeim sem sátu fund um áhrif dóms Hæstaréttar:
Viðskiptaráðherra, bankastjórar viðskiptabankanna, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja og aðrir aðilar sem dómar Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar lánasamninga sneru að..
Þarna var maðurinn sem vissi árið 2001 að ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 kæmi í veg fyrir að fjármálafyrirtæki gætu boðið upp á gengistryggð lán. Þarna voru bankastjórar viðskiptabankanna sem hafa undanfarin ár boðið upp á gengistryggð lán. Í orðanna hljóða virðast forstjórar bílalánafyrirtækjanna hafa verið þarna. En af hverju var ekki fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna þarna eða talsmaður neytenda?
Hvenær hefur það tíðkast að brotamaðurinn fái að ákveða hvernig hann tekur út refsingu sina? Ætla stjórnvöld aldrei að læra? Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent út áskorun á nefndarmenn í efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd að sett verði lög, ef ekki næst samkomulag milli fjármálafyrirtækja og hagsmunagæsluaðila neytenda um framkvæmd uppgjörs vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar. Reynslan sýnir að bjargráð stjórnvalda og fjármálafyrirtækja, sem hingað til hafa að mestu verið án aðkomu neytenda, hafa reynst bjarnargreiði. Hef ég litla trú á að það breytist í þessari umferð, ef viðhafa á sömu vitlausu vinnubrögðin.
Færslan var skrifuð við fréttina: Fundað um áhrif dóma og óvissu