Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 17.8.2010.
Jæja, þá er næsta stig afneitunarinnar í gangi. Fyrsta stigið er að segja ekki frá, næsta stig að segja það ekki sitt hlutverk að greina frá, þriðja að gera lítið úr aðallögfræðingi sínum og núna að gera lítið úr álitinu/minnisblaðinu almennt. Hvenær ætla menn að átta sig á því að það að birta ekki minnisblað aðallögfræðings Seðlabanka Íslands er meiriháttar klúður og hefur mögulega raskað verulega fjármálastöðugleika í landinu? Seðlabankinn og FME hafa haldið því fram að í svörtustu sviðsmynd gætu 350 milljarðar króna fallið á veikburða fjármálafyrirtæki vegna þess að ekki var, að því virðist að þeirra áliti, tekið nægilega tillit til niðurstöðu minnisblaðs Sigríðar Logadóttur við uppgjör milli gjaldþrotahluta fjármálakerfisins og þess sem reist var úr rústunum. Nei, nei, minnisblað Sigríðar skipti ekki sköpum og þess síður nöfnu hennar Rafnar Pétursdóttur hjá viðskiptaráðuneytinu.
Ef álit Seðlabankans skipti ekki sköpum, af hverju fóru fjármálafyrirtækin þá ekki eftir áliti Gísla Tryggvasonar og Björns Þorra Viktorssonar? Jú, vegna þess að þau álit voru léttvæg fundin. Þau höfðu ekki vigt. Álit frá Seðlabankanum eða minnisblað hefur allt annað vægi. Fjármálafyrirtækin hefðu ekki getað hunsað slíkt skjal. Það hefði virkað eins og flóðvarnargarður við erfiða á meðan álit Gísla og Björns voru meira eins og ábending um að reisa þyrfti slíkan garð.
Annars er Seðlabankinn með tvískinnungshátt í þessu máli. Hann treysti sér ekki til að koma fram með álitið, þegar það gat komið lántökum til góða vegna þess að alltaf þurfi að bíða eftir niðurstöðu dómstóla, en þegar eitthvað ógna aumingja fjármálafyrirtækjunum, þá tvínónar bankinn ekki við að grípa til aðgerða byggðar á lagatúlkun bankans. Er bankinn að reyna að rústa því litla trausti sem almenningur ber til hans? Hvers vegna getur bankinn túlkað lög hægri-vinstri og gripið fram fyrir hendur dómstóla, þegar verja þarf fjármálafyrirtækin fyrir hinum ógnvænlegu lántökum, en þegir þunnu hljóði þegar bankinn kemst að þeirri niðurstöðu að þessi sömu fjármálafyrirtæki og sumum tilfellum undanfarar þeirra brutu lög?
En hvað með það. Þetta er búið og gert og lántakar eiga víst að borga reikninginn, einu sinni sem oftar. Mig langar bara að benda lántökum gengistryggðra lána á, að þeim ber nákvæmlega engin skilda til að greiða af lánum sínum í samræmi við tilmæli Seðlabanka Íslands og FME. Tilmælunum var beint til fjármálafyrirtækjanna og hafa nákvæmlega engin áhrif á samning þriðja aðila við fjármálafyrirtækin. Vilji þau semja við lántaka upp á nýtt, þá er það hið best mál, en þar til dómar falla fyrir Hæstarétti í fordæmisgefandi málum, þá eru lántakar eingöngu bundnir af því að greiða samkvæmt greiðsluáætlun meðan það er skoðun lántaka að hann hafi ekki nú þegar greitt meira en greiðsluáætlun segir til um. Lántaka hjá Avant fóru illa út úr því að treysta orðum fyrirtækisins og eru líklega búnir að tapa einhverju af því sem þeir greiddu af lánum sínum síðustu mánuði. Ég spyr bara, hvers vegna eiga aðrir lántakar að taka sömu áhættu? Höfum líka í huga, að SÍ hylmdi yfir með lögbrjótum í rúma 13 mánuði áður en tilmæli voru gefin út. Að hylma yfir lögbroti er lögbrot út af fyrir sig. Hverju svarar Seðlabankinn því?