Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 23.12.2010.
Fyrir rúmum tveimur árum varð hér hrun. Það hafði áhrif á allt í þessu landi og ekki minnst á stöðu ríkissjóðs annars vegar og heimilanna í landinu hins vegar. Ólíkt heimilunum þá hefur ríkissjóður þann möguleika að skattleggja allt og alla til að koma sér út úr vandanum, hann hefur möguleika á útgáfu ríkisskuldabréfa, á lántöku frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og erlendum ríkjum og ekki síst hefur hann möguleika á niðurskurði. Sem fjármálaráðherra hefur Steingrímur J. Sigfússon nýtt sér alla þessa möguleika. Skattheimtan hefur þyngst svo um munar og er fyrir löngu komin upp fyrir þolmörk hins vinnandi manns. Niðurskurðurinn hefur verið heiftarlegur þegar kemur að þeim sem minnst mega sín, þ.e. þeim sem þiggja lífeyri úr almannatryggingakerfinu, og velferðarkerfið hefur tekið á sig mikinn skell. Ef það er að velta steinum í götu ríkisstjórnarinnar, að andmæla skattahækkunum á þegar skattpíndan almenning og niðurskurði í velferðarkerfinu, þá bið ég um fleiri slíka steina.
Hafi einhverjum steinum verið velt í götu ríkisstjórnarinnar, þá eru þeir í formi tregðu fjármálafyrirtækja að veita afslætti sem þau fengu frá eldri kennitölum sínum til þeirra sem tóku lánin. Þá er það í form tregðu lífeyrissjóðanna að slá af vaxtakröfu sinni og leiðrétta lán sjóðfélaga. Þá er það í skilningsleysi þeirrar sömu ríkisstjórnar að bæta þarf stöðu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Þá er það í getuleysi ríkisstjórnarinnar til að hugsa út fyrir kassann í leit að lausnum.
Mér finnst það ómaklegt af Steingrími J. Sigfússyni að kenna þeim um sem vilja hugsa í öðrum lausnum en hann. Við skulum ekki gleyma því að fyrir rétt um 99 vikum sat hann við hlið Jóhönnu Sigurðardóttur á blaðamannafundi í Iðnó, þar sem hann lýsti því yfir að slá ætti skjaldborg um heimilin í landinu. Við vitum öll hvernig fór fyrir þeirri skjaldborg. Hún var slegin um fjármálafyrirtækin.
Því miður hefur margt í starfi núverandi ríkisstjórnar og þeirrar sem á undan henni fór einkennst af því að verja þá sem keyrðu allt í kaf og sjá til þess að fórnarlömb hrunsins tækju á sig nær allar byrðarnar. Um 40.000 fjölskyldur hafa tapað öllu eiginfé sínu í húsnæði og aðrar 32.000 hafa orðið fyrir mikilli skerðingu. Um 50.000 heimili í landinu hafa tekið út sparnað sem átti að gera þeim lífið léttbærara á efri árum til að greiða í botnlausa hít bankanna eða til að mæta tekju missi og/eða skattahækkunum ríkisstjórnarinnar. Svo ótrúlegt sem það er, þá finnst Steingrími J. hið besta mál að skattleggja séreignarsparnað sem tekinn er út, en vill frekar loka nærþjónustu í heilbrigðiskerfinu en að skattleggja þann séreignarsparnað sem ekki hefur verið tekinn út.
Ég hef ekki heyrt önnur rök fyrir því að ekki megi skattleggja séreignarsparnað, en að Sjálfstæðismenn hafi átt hugmyndina og fyrr detti Steingrímur J. dauður niður en að nýta hugmynd frá þeim. Vissulega hafa lífeyrissjóðirnir eitthvað maldað í móinn, en málið er að þeir eiga ekki peninginn. Þetta heitir séreignarsparnaður vegna þess að hann er séreign hvers og eins. Þeir hafa því ekkert með það að segja hvort þetta sé gert eða ekki.
Frá hruni hefur verið ljóst að eina leiðin út úr hruninu væri í formi atvinnuuppbyggingar. Á þeim vettvangi hefur ríkisstjórnin frekar unnið að því að gera fyrirtækjum lífið leitt. Rekstrarumhverfi flestra fyrirtækja er mun lakara í dag, en það var fyrir réttum tveimur árum. Vissulega hafa vextir loksins náðst ofan úr himna hæðum, en fyrir marga er það um seinan. Fyrirtæki hafa þess fyrir utan mátt búa við innheimtuaðgerðir frá fjármálafyrirtækjum sem brutu lög fram og til baka í lánveitingum sínum. Ekki í eitt einasta skipti tóku stjórnvöld stöðu með fórnarlömbum fjármálafyrirtækjanna. Nei, þau flykktu sér í hvert einasta skipti í lið með gerendunum. Nýleg lög um gengisbundin lán er ein birtingarmynd þess.
Ekki ætla ég að gera lítið úr því verkefni sem Steingrímur J. hefur þurft að takast á við. Ég held aftur að hann hafi oft gert sér verkið erfiðara en nauðsynlegt var með því að hlusta ekki á og leita liðsinnis félaga sinna innan VG. Framtíðin á ein eftir að leiða í ljós hvorir voru í raun og veru að velta steinum, Lilja Mósesdóttir, Ásmundur Einar og Atli Gíslason eða þá hinir sem ekki töldu sig þurfa að hlusta.