Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.12.2010.
Stundum sést stjórnmálamönnum ekki fyrir í asanum. Það er mín skoðun, að lögin um meðferð gengistryggðra lána sé dæmi um slíkt. Með þessum lögum er verið að bjarga því klúðri Gylfa Magnússonar, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, og Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, þegar þessir herramenn ákváðu að hunsa þann möguleika að gengistrygging lána væri í andstöðu við 13. og 14 gr. laga nr. 38/2001 um vextir og verðbætur. Leiddi það til þess, að nýju bankarnir voru stofnaðir á röngum forsendum sem nam fleiri hundruð milljörðum.
Menn hafa bent á alls konar mistök sem gerð voru í undanfara hrunsins. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki síður gert sig seka um mistök í eftirleik hrunsins. Icesave samningarnir tveir frá síðasta ári eru mjög góð dæmi, skortur á uppbyggingu atvinnulífsins er eitt til viðbótar, en dýrasta og, mér liggur við að segja, aumingjalegasta var þetta með að hunsa aðvaranir um að gengistryggingin kynni að vera ólögleg.
Til þess að bjarga stjórnmálamönnunum út úr klípunni, þá gáfu Fjármálaeftirlit og Seðlabanki Íslands fyrst tilmæli um meðferð gengistryggðra lána, þar sem brotið var á skýran hátt á neytendavernd lántaka. Hæstiréttur lagði sig í líma við að finna lagarök til að bakka tilmæli FME og SÍ og nú hefur núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra bitið höfuðið af skömminni og sett lög, þar sem neytendavernd er fótum troðin.
Ég var í hópi þeirra sem kom fyrir efnahags- og skattanefnd. Í mínu máli skorðaði ég á nefndina að leita eftir áliti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á þessu máli. Áleit ég mikilvægt að fá álit stofnunarinnar á þessu máli, þar sem það snerti rétt neytenda og ekki síður heimild löggjafans og dómstóla til að grípa inn í samninga mörg ár aftur í tímann. Er ég ennþá þeirrar skoðunar, að það sé skýrt brot á neytendarétti að endurreikna lán allt að 7 - 8 ár aftur í tímann og breyta forsendum greiðslu lántaka í óhag vegna þess að lánveitandinn braut lög.
Með þessum lögum er sett mjög hættulegt fordæmi. Í þeim fellst í raun, að neytandi getur ekki verið öruggur með samning sem hann hefur gert. Jafnvel þó samningurinn hafi verið uppgerður í samræmi við greiðsluseðla, innheimtutilkynningar og greiðslufyrirmæli sem samþykkt voru af báðum aðilum samningsins, þá getur neytandinn átt von á því að löggjafinn gjörbreyti samningnum með geðþótta ákvörðun.
Alvarlegasti hlutinn varðandi þessi lög er að eignaupptakan sem fellst í stökkbreytingu lána vegna fjárglæfra stjórnenda og eigenda hrunbankanna er staðfest. Stjórnvöld hafa ákveðið að slá skjaldborg um fjármálakerfið og bjarga því á kostnað stórs hluta lántaka. Sumir koma vissulega mjög vel út úr þessu, en sá hópur er fámennur. Flestir sitja uppi með stökkbreytta greiðslubyrði lána sinna sem er auk þess umtalsvert umfram greiðslugetu. Séu lögin síðan skoðuð í samhengi með samkomulagi stjórnvalda og lánveitenda frá því í nóvember, þá kemur í ljós að verið er að tryggja að fjármálafyrirtækin fái allt til baka sem þau hugsanlega veita í afslátt til lántaka. Svo dæmi sé tekið af 10 m.kr. láni tekið í mars 2004 til 30 ára, þá væru heildargreiðslur af því, samkvæmt upprunalega lánasamningnum með ólöglegu gengistryggingunni, kr. 29,6 m.kr., væri lánið óverðtryggt með að meðaltali 6,75% vöxtum út lánstímann, þá er heildargreiðslan 40,0 m.kr., en 51,2 m.kr. miðað við 4,8% verðtryggða vexti og um 3,5% ársverðbólgu það sem eftirlifir lánstímann. Upprunalega greiðsluáætlun hljóðaði upp á 16,7 m.kr. Vissulega getur lántaki valið að halda láninu í erlendri mynt, en munurinn á 16,7 m.kr. og 29,6 m.kr. er 77,2%. Stjórnvöld ætlast sem sagt til að lánþegi taki kinnhestinum sem hrunverjar fjármálakerfisins veittu honum. Nú vilji hann ekki sætta sig við 77,2% hækkun, þá býðst honum náðarsamlegast að fá 140% hækkun heildargreiðslubyrði eða 207% hækkun heildargreiðslubyrði. Lánþeginn getur sem sagt valið hvaða leið hann fer í eignarupptökuna. Þessi lög eru ljótur hrekkur og ekkert annað.
Ég get ekki farið frá þessum dæmalausu lögum án þess að minnast á upphafsorð fréttarinnar:
Lánastofnanir hafa nú 60 daga frest til útreikninga á ólögmætum gengisbundnum bíla- og fasteignveðlánum.
Og hvað ef lánastofnanir virða ekki þessi tímamörk? Fellur lánið þá niður, þurfa þær að greiða sektir eða skiptir þetta kannski engu máli? Samkvæmt mínum skilningi, þá skiptir þessi frestur engu máli. Takist fjármálafyrirtæki ekki að endurútreikna lán innan tímafrests, þá segja lögin ekkert til hvað skuli gert. Hins vegar segja lögin, að fjármálafyrirtæki megi einhliða ákveða frest fyrir lántaka til að ákveða hvort hann samþykkir útreikningana og hvaða leið hann velur. Einnig er tilgreint að lántaki hafi síðan í mesta lagi 30 daga til að ákveða að gera lánið að annars konar stökkbreyttu láni, nú með löglegri gengisbindingu.
Þessi lög eru fáránleg og þeim er ekki ætlað neitt annað en að yfirfæra eignir lántaka til fjármálafyrirtækja sem ýmist tóku þátt í ruglinu eða eru afsprengi fjármálafyrirtækja sem tóku þátt í því. Ekki er gerð nein tilraun til að leiðrétta það ranglæti sem riðið hefur yfir lántaka. Í lögunum ásamt og með hækkun verðtryggðra lána felst stærsta eignarupptaka Íslandssögunnar, tilfærsla eigna heimilanna til fjármálafyrirtækja á grundvelli einhverrar grófustu og svæsnustu markaðsmisnotkunar sem átt hefur sér stað hér á landi. Og þetta er gert í skjóli stjórnvalda og Alþingis. Sé ævarandi skömm þeirra 27 þingmanna sem greiddu þessum lögum atkvæði sitt.