Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.8.2010.
Seðlabanki Íslands hefur birt lögfræðiálit LEX lögmannsstofu og minnisblað Sigríðar Logadóttur, aðallögfræðings bankans. Á bankinn þakkir skyldar fyrir það.
Við lestur álits LEX vekur athygli hversu afdráttarlaust það er. Sérstaklega vil ég vekja athygli á niðurlagi kafla III, þar sem segir:
Af þessu er ljóst að það var beinlínis tilgangur laga nr. 38/2001 að taka af skarið um það að verðtrygging á lánum í íslenskum krónum væri aðeins heimil ef grundvöllur verðtryggingarinnar er vísitala neysluverðs. Þar með var lagt bann við því að verðtryggja skuldbindingar í íslenskum krónum á grundvelli gengis erlendra gjaldmiðla. Ekki var hins vegar með þessu verið að banna lántökur í erlendri mynt.
Ég held að afdráttarlausari niðurstöðu sé ekki hægt að ná.
LEX tekur fram að fyrirtækið hafi ekki skoðað lánasamninga sem voru í gangi, en varar við að í "ljósi aðstæðna og yfirvofandi/hótaðra málsókna vegna erlendra lánveitinga íslensku bankanna" sé rétt fyrir Seðlabankann að vanda sig.
Þegar síðan er litið á minnisblað Sigríðar Logadóttur, þá er hún ekkert að draga neitt úr sinni skoðun. Hún segir m.a.:
Í lögfræðiáliti sem unnið var fyrir Seðlabankann er dregin sú ályktun að það hafi verið beinlínis tilgangur laga nr. 38/2001 að taka af skarið um það að verðtrygging á lánum í íslenskum krónum væri aðeins heimil ef grundvöllur verðtryggingarinnar er vísitala neysluverðs. Þar með var lagt bann við því að verðtryggja skuldbindingar í íslenskum krónum á grundvelli gengis erlendra gjaldmiðla. Hins vegar var með þessu ekki verið að banna lántökur í erlendri mynt.
Þarna dregur hún skýrt fram helstu niðurstöðurnar. Ekki bara það, í framhaldinu vitnar hún í Eyvind G. Gunnarsson (nokkuð sem LEX gerir ekki) og segir:
Þá má geta hér að í grein Eyvindar G. Gunnarssonar, “Meginatriði laga um vexti og verðtryggingu” sem birtist í afmælisriti Jónatans Þórmundssonar lagaprófessors frá árinu 2007 segir á bls. 169: “Þá er óheimilt skv. 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. vxl að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla, en við setningu laganna þótti rétt að taka af allan vafa um það”.
Sigríður gengur því lengra en LEX í að rökstyðja mál sitt.
Hvorugur aðili nefnir eitt einasta lagalegt atriði sem dregið gæti úr því hve afdráttarlausar niðurstöður þeirra eru. Sigríður enda að vísu sitt minnisblað um "að ekki eru allir lögfræðingar sammála um þessa túlkun", en hún gefur þar ekkert í skyn að hún taki undir það sjónarmið.
Það kemur mér ekkert á óvart, að álit LEX og minnisblað Sigríðar eru samhljóma niðurstöðu Hæstaréttar. Lögin eru mjög skýr. En það er einmitt þess vegna sem æskilegt hefði verið að Seðlabankinn hefði vakið athygli á þessari niðurstöðu Sigríðar Logadóttur. Þar með hefðu fjármálafyrirtækin þurft að hugsa sína stöðu upp á nýtt og staða lántaka (jafnt fyrirtækja sem einstaklinga) hefði breyst frá því að vera óþægilegur kláði fyrir fjármálafyrirtækin í það að hafa í höndunum álit æðsta lögfræðings fjármálakerfisins um að hugsanlega hafi verið brotið á rétti þeirra.