350 milljarðar vegna lán heimilanna orðnir að innan við 12 milljörðum

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.8.2010.

Már Guðmundsson svaraði flestum spurningum spyrjanda að stakri prýði í Kastljósinu í kvöld.  Jafnvel betur en hann gerði sér grein fyrir og kannski betur en hann ætlaði sér.  Í einu svarinu viðurkenndi hann, að hræðsluáróðurinn sem var hér uppi eftir dóma Hæstaréttar og fram yfir dóm héraðsdóms hafi bara verið tómt bull.  Man fólk eftir þessu?  Það áttu 350 milljarðar að falla á ríkissjóð og skattgreiðendur vegna þess að Hæstiréttur dæmdi gengistrygginguna ólögmæta. 

Steingrímur J. Sigfússon gekk lengst í Í bítið á Bylgjunni 6. júlí, þegar hann hélt því fram að færa þyrfti 8-900 milljarða "útlánastabba" sem fælist í gengisbundnum lánum fyrirtækja niður um 40 - 60%, þ.e. 320 - 540 milljarða (sjá Orðaleikir Steingríms J og Landsbankans). 

Tveimur dögum síðar eru menn aðeins farnir að slá á tölurnar og sagt er að 350 milljarða högg komi á fjármálafyrirtæki og þar af 100 milljarðar á skattgreiðendur (sjá Mistök embættismanna og ráðherra kosta skattgreiðendur hugsanlega 100 milljarða - Lán heimilanna eru ekki ástæðan). 

13. júlí birtir greining Arion banka aftur sína útreikninga og þar eru lán heimilanna aftur orðin að miklum sökudólgi.  Greiningadeildin segir:

Ef miðað er við að öll gengistryggð lán til heimila séu ólögleg en miðað sé við Seðlabankavexti (þ.e. líkt og tilmæli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans sögðu til um) gæti leiðrétting lánanna numið um 100 mö.kr. (gróft áætlað).  Verði hins vegar miðað við samningsvexti gæti upphæðin numið 200-250 mö.kr. (gróft áætlað).

Ég hef aldrei getað skilið hvernig 120 milljarða lán heimilanna geta valdið svona miklu tjóni.

14. júlí var Bloomberg fréttaveitan búin að ná tali af  Steingrími og talan var aftur komin upp í 540 milljarða. (sjá Íslenska fjármálakerfið í sviðljósinu á ný)

En hvað var það sem Már sagði, eftir allan þennan inngang.  Jú, hann sagði að höggið á eigið fé fjármálafyrirtækjanna gæti orðið 348 milljarðar í allra svörtustu sviðsmyndinni, þegar dómurinn er talinn ná til allra lána.  Þar af gæti 100 milljarðar fallið á ríkissjóð.  Nú gefum okkur að 100 milljarðar falli á ríkissjóð og þar með skattgreiðendur, þá hefur FME reiknað út að heildaráhrifin vegna lána fyrirtækjanna sé 250 milljarðar og um 96 milljarðar vegna lána heimilanna (skil ekki þá hundalógík að 185 milljarðar lækki um 96 milljarða meðan 841 milljarður á að lækka um 250 milljarða).  Þetta þýðir að áhrifin vegna fyrirtækjanna eru 72% og hlutur heimilanna er 28%.  Þá er sem sagt hlutur heimilanna í reikningnum sem ríkisjóður fær í mesta lagi 28 milljarðar.  En það er meira að segja of há tala.  Af 96 milljarða áhrifum vegna lána heimilanna eru 53,7 vegna bílalána sem eru að mestu hjá einkafyrirtækjum og það fellur ekki á ríkissjóð síðast þegar ég vissi.  Þetta þýðir að "kostnaðurinn" sem ríkið hefur af heimilunum er í versta falli miðað við tölur FME 42/348 * 100 = 12 milljarðar.   Já, það virðist vera allt og sumt sem gæti hugsanlega fallið á ríkissjóð vegna gengisbundinna lána heimilanna.

Höfum svo næst í huga að þetta er allra svartasta sviðsmynd FME og Seðlabankans.  Ef við horfum á jákvæðari sviðsmyndir, sem eru mun líklegri, þá lækkra talan ennþá meira.

Ég gæti svo sem bætt við að gengisbundin lán heimilanna hjá fjármálakerfinu eru sögð 120 milljarðar í gögnum Seðlabankans, ekki 185 milljarðar eins og FME heldur fram.  Þetta munar 65 milljörðum.  En ég læt vera að lækka töluna úr 350 milljörðum niður í 12 milljarða.  Nú hluta af þessum 12 milljörðum fær ríkið hugsanlega til baka vegna ofgreiddra vaxtabóta!

Hér eru síðan nokkrar fréttir mbl.is, sem ég bloggaði við um þessi mál:

Almenningur fengi reikninginn

Afnám gengistryggingar kostar 100 milljarða

350 milljarða tilfærsla

Íslenska fjármálakerfið í sviðsljósið á ný

Dómar Hæstaréttar ógna stöðugleika


Búin að ná botninum