Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 14.10.2010.
Ég tek heilshugar undir skilning forsætisráðuneytisins að umræður hafi verið hvassar í gærkvöldi. Einnig mætti tala um afneitun. Ég vona bara að þetta hafi verið mikilvægt skref til lausnar á þeim brýna vanda sem við búum við.
Í síðustu færslu minni, þá ræði ég tilgang tillagna Hagsmunasamtaka heimilanna. Mig langar að birta hana aftur hérna en í styttri útgáfu. Jafnframt hvet ég fólk til að kynna sér talnaefnið sem Steingrímur J. Sigfússon notaðist við í sínum inngangi.
Mér finnst gæta mikils misskilnings að markmið tillagna Hagsmunasamtaka heimilanna sé að bjarga þeim verst stöddu. Það er ekki markmið þeirra. Markmið tillagna samtakanna um leiðréttingu á höfuðstóli lána er að fækka í hópi þeirra sem þurfa á sértækum úrræðum að halda.
Skoðum nokkrar tölulegar staðreyndir:
Skuldsetning heimilanna hefur farið úr 25% af ársráðstöfunartekjum árið 1980 í um og yfir 300% í árslok 2008. Frá árslokum 2004 til ársloka 2008 fór skuldsetningin úr 877 milljörðum í 2014 milljarða, aukning upp á 130% á fjórum árum.
Samkvæmt tölum bankanna, sem birtast í skýrslu eftirlitsnefndar með úrlausnum fjármálafyrirtækja, kemur fram að mjög fáir hafa fengið úrlausn sinna mála í gegn um sértæka skuldaaðlögun og greiðsluaðlögun. Eins og staðan var samkvæmt álagningar skrá, þá voru 20.412 heimili í landinu með yfirveðsettar eignir miðað við fasteignamat. Alls nam yfirveðsetningin 125 milljörðum króna.
Samkvæmt tölum lífeyrissjóðanna hafa 49.000 manns nýtt sér að taka út séreignarlífeyrissparnað og samkvæmt tölum fjármálaráðuneytisins höfðu fyrr í ár 42 milljarðar verið teknir út.
Vanskil í fjármálakerfinu hefur aukist mikið. Samkvæmt upplýsingum í skýrslu AGS eru 65% lána að kröfuvirði óvirk (e. non-performing loans), þ.e. ekki er verið að greiða af þeim og hefur ekki verið gert síðustu 90 daga. Ef bókfært virði er notað, þá er hlutfallið 45%.
Hjá stóru bönkunum þremur eru milli 80 - 85% lána í skilum, sem þýðir að 15-20% lána eru 45% af bókfærðu virði og 65% af kröfuvirði. Hjá lífeyrissjóðunum munu vanskil vera "lítil" eða 10% (með frystingu).
Einn stóru bankanna sagðist "bara" hafa verið með 20 uppboð í síðustu viku. Nái hann þessum fjölda vikulega allt árið, þá gerir það "bara" 1040 uppboð.
Yfir 1.500 íbúðir eru þegar komnar í eigu fjármálafyrirtækja, þ.m.t. Íbúðalánasjóðs.
Á fundi 8. september um fátækt kom fram að árið 2009 gátu 36.900 fjölskyldur ekki mætt óvæntum útgjöldum. Þessi tala er núna komin vel yfir 40.000 fjölskyldur. 48.500 fjölskyldur voru sagðar eiga í vandræðum.
Nú vil ég spyrja hverjir eru verst staddir? Hvenær telst einstaklingur til þeirra verst stöddu?
Mér finnst mikilvægt að bjarga þeim verst stöddu, en tilgangur tillagna Hagsmunasamtaka heimilanna var ekki að koma með endanleg bjargræði fyrir hina verst stöddu. Samtökin telja að þau úrræði séu til staðar í formi t.d. greiðsluaðlögunar og sértækrar skuldaaðlögunar. Vissulega þurfi að skerpa á þeim úrræðum, draga úr skrifræði, flækjustigi og fækka hindrunum á vegi fólks. Það er lítill vandi að vísa til þess að ástandið hafi verið orðið slæmt hér í upphafi árs 2008. Það lagar ekki ástandið að segja að hrunið eitt verði ekki dregið til ábyrgðar. Staðreynd málsins er að bankakerfið vann skipulega að því frá 2004 að skuldsetja heimili landsins og það tókst.
Tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna eru ekki meitlaðar í stein. Þær eru hugsaðar sem viðræðugrundvöllur með mjög ákveðin undirtón. Á fundi hagsmunaaðila og stjórnmálamanna í gær komu fram hugmyndir að breytingum. Fleiri hugmyndir hafa komið fram sem er vert að skoða. Mest um vert er að menn komi ekki að borðinu með það hugarfar að eitthvað sé ekki hægt.
Nú skora ég á þá sem hafa með þessi mál að gera, að taka höndum saman við að finna lausn. Lausn sem telst sanngjörn og réttlát. Lausn sem mun gera almenningi kleift (og af vilja) að viðhalda sambandi sínu við viðskiptabankann sinn. Lausn sem mun koma hjólum hagkerfisins aftur í gang. Lausn sem mun hjálpa okkur að standa vörð um velferðarkerfið og þá ímynd sem við viljum að Ísland hafi. Lausn sem kemur í veg fyrir að hér sjóði allt upp úr.
Frétt mbl.is: Fólk á aldrinum 25-40 ára skuldar mest