Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 17.6.2010.
Ég vona innilega að í eftirfarandi tilvitnun í frétt mbl.is sé eitthvað rangt haft eftir viðmælanda:
„Þessi dómur snýr aðallega um formsatriði málsins þannig að það er vafasamt að það sé hægt að draga af honum víðtækar ályktanir. Ég held að það detti engum í hug að álykta sem svo að menn sleppi frá skuldum sínum,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, um dóm Hæstaréttar um gengislán.
Í fyrsta lagi, þá er það ekki rétt að dómur Hæstaréttar snúist um formsatriði. Hann snýst um grundvallaratriði. Grundvallaratriði getur aldrei verið formsatriði. Þetta grundvallaratriði er að íslensk lán má ekki binda við gengi erlendra gjaldmiðla. Hvernig getur Andrési Magnússyni dottið í hug að nota "formsatriði" um það. Þetta er þvílíkt grundvallaratriði, að mönnum þótti eðlilegt að geta þess tvisvar í athugasemdum við frumvarpi að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur. Í öðru lagi, þá hefur aldrei neinn óskað eftir því að kröfurnar falli niður í heild, eingöngu hina ólöglegu viðbót við útreikninga fjármálafyrirtækjanna á eftirstöðvum lánanna. Lántakar hafa óskað eftir sanngirni og réttlæti og voru tilbúnir að koma til samninga við fjármálafyrirtækin um lausn málanna. Því boði var ekki tekið og þess vegna kom til afskipta Hæstaréttar.
Andrés heldur áfram:
Hæstiréttur lætur því ósvarað hvað kemur í staðinn. Það er engin varakrafa höfð uppi í málinu. Er það vísitölubinding og vextir? Þessu er ekki svarað og ályktunin sem maður hlýtur að draga er að stjórnvöld verði að höggva á hnútinn og það er það sem ég er að kalla eftir.
Af hverju á eitthvað að koma í staðinn? Ég get ekki séð að neitt komi í staðinn afturvirkt. Fjármálafyrirtækin fengu kjaftshögg og þau verða bara að sitja uppi með það. Framvirkt, þá hafa fjármálafyrirtækin nokkra möguleika og löggjafinn líka. Eðlilegasta næsta skref er fyrir þessa aðila að setjast niður með hagsmunaaðilum á neytendahliðinni og sjá hvað líklegt er að neytendur eru tilbúnir að sætta sig við. Varla vilja þau fá annað högg, því reikna má með því að það verði rothögg. En hvað gæti komið í staðinn? Hagsmunasamtök heimilanna hafa oftar en einu sinni viðrað þá hugmynd að framtíðarlánakerfi innihaldi hvað varðar íbúðarlán, þak á verðbætur og þak á vexti, hvort heldur verðtryggða eða óverðtryggða. Það kemur t.d. ekki til greina, að í stað gengistryggingar komi verðtrygging nema að hún sé með þaki á árlegar verðbætur og raunvextir séu svipaðir og þeir sem Íbúðalánasjóður býður í dag. Varðandi óverðtryggða vexti, þá eru samtökin sátt við þá vexti, sem fjármálafyrirtækin eru að bjóða í dag. Hér er ég bara að greina frá því sem komið hefur fram opinberlega frá samtökunum og ætti því ekki að koma neinum á óvart.
Komi stjórnvöld með eitthvað inngrip, sem verður í óþökk hagsmunasamtaka lánþega, þá kalla þau yfir sig átök. Það er því algjört grundvallaratriði að haft sé samráð við þessa aðila, hvort þeir eru talsmaður neytenda, Hagsmunasamtök heimilanna, Neytendasamtökin, Samtök lánþega eða hverjir aðrir það eru sem hafa barist fyrir hagsmunum lánþega og neytenda. Því miður hafa stjórnvöld ekki verið í þeim hópi í því mæli sem æskilegt hefur verið.
En aftur að Andrési Magnússyni. Hann hamrar á því að ekki hafi verið um efnisdóma að ræða. Það er bara ekki rétt. Hæstiréttur tók á afgerandi hátt á efnisatriðum, eins og málsaðilar lögðu þá fyrir dóminn. Það er ekki við Hæstarétt að sakast, að fjármálafyrirtækin klikkuðu á leikjafræðinni. Þau lögðu allt undir og töpuðu.
Ég þekki aðeins til leikjafræðinnar og veit að hún snýst um að hámarka afrakstur sinn að teknu tilliti til aðgerða mótaðilans. Með því að sleppa varakröfum, þá léku fjármálafyrirtækin af sér. Ekki er hægt að líta á þennan afleik á neinn annan hátt en fyrirtækin hafi verið full örugg með sig. Hið ólöglega athæfi hafði fengið að viðgangast svo lengi, að ekki kom til greina að Hæstiréttur færi að fetta fingur út í það. Á vissan hátt má segja að niðurstaðan hafi verið mátuleg á fyrirtækin vegna hroka þeirra.
Í mínum huga er niðurstaða Hæstaréttar alveg hrein og skýr: Gengistrygging íslenskra lána er óheimil og hún skal falla niður. Ekkert kemur í staðinn frá lántökudegi þar til samningur um annað hefur náðst milli lántaka og lánveitenda.
En það er meira: Fjármálafyrirtækin hafa mjög líklega skapað sér bótaskyldu gagnvart lántökum. Þá er ég ekki bara að vísa til þess augljósa vegna ofgreiðslu afborgana og vaxta. Nei, ég er líka að tala um fjárhagslegan skaða sem lántakar hafa orðið fyrir vegna hinnar ólöglegu hækkunar höfuðstóls og greiðslna. Í mörgum tilfellum hafa lántakar þurft að taka ný og óhagstæð lán, selja eignir á fáránlegu verði, verið sviptir eignum sínum, verið settir í gjaldþrot eða þurft að leita úrræða á borð við sértækrar skuldaaðlögunar og greiðsluaðlögunar. Þetta hefur sundarð fjölskyldum, valdið heilsutjóni vegna álags og dæmi munu vera um að fólk hafi svipt sig lífi. Sumt verður ekki bætt og líklega verða fjármálafyrirtækin heldur ekki krafin um það. Annað munu lántakar sækja á hendur fyrirtækjunum. Síðan má mjög líklega draga fram alls konar efnahagsleg áhrif.