Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 8.12.2010.
Hvernig getur verið að menn séu að afskrifa kröfur á einstaklinga, þegar kröfurnar voru rangar samkvæmt lögum? Hér eru menn að fara í orðaleik til að fela sannleikann.
Höfum það alveg á hreinu, að eignaleigufyrirtækin buðu upp á ólöglega afurð. Af þeirri ástæðu kröfðu þeir viðskiptavini sína um of háa upphæð. Við það að leiðrétta kröfuupphæðina er EKKI verið að afskrifa kröfurnar á einstaklinga. Það er verið að leiðrétta kröfurnar í samræmi við bókstaf laganna.
Viðskiptavinurinn hafði ekkert með það að gera að afurðin stæðist ekki lög nr. 38/2001 um vexti og verðbætur. Það klúður er alfarið á ábyrgð eignaleigufyrirtækjanna. Að slá upp 27 milljörðum hvað þá 44,5 ma.kr. sem afskrift á einstaklinga er viðlíka vitlaust og kenna mótherja í fótbolta um að hafa tapað 3 - 0 eftir að leikur er dæmdur liði tapaður fyrir að vera með ólöglegan leikmann.
Maður getur ekki annað en vorkennt fjármálafyrirtækjunum að þurfa að fara í svona rökleysu. Nú eru sum þessara fyrirtækja greinilega að undirbúa eitthvað útspil sem koma mun á næstu dögum. Ætli það sé gjaldþrot Lýsingar eða SP-fjármögnunar eða einhliða breyting vaxta? Þau urðu náttúrulega fyrir áfalli í dag við lækkun stýrivaxta Seðlabankans, þar sem óverðtryggðir og verðtryggðir vextir munu lækka í beinu framhaldi af því. Mér sýnist rekstrargrunnur einhverra af þessum fyrirtækjum vera heldur veiku, svo ekki sé meira sagt.