Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.12.2010.
Ég fékk þennan póst frá fasteignasala, sem segir farir sínar ekki sléttar gagnvart samkeppni frá bönkunum. Ég ákvað að taka út nöfn bankanna sem áttu í hlut.
Smá dæmi sem er ekkert smá dæmi..
Kona sem kom til okkar í lok seinustu viku og var að skoða íbúð í eigu einkaaðila með 100 % láni frá banka A sem henni líkaði það vel að hún lét okkur gera uppkast að tilboði sem hún fór með til að skoða með bankanum sínum sem er banki B sem er svo sem ekki í frásögu færandi.
En hún kemur aftur daginn eftir alveg í sjokki vegna þess að þjónustufulltrúinn sem hún talaði við í banka B sagði henni að vera ekkert að skoða þessa íbúð, banki A réði hver fengi að kaupa hana og gerði þjónustufulltrúinn í banka B allt tortryggilegt, t.d. að kaupverðið væri hærra en fasteignamat og fleira.
Þjónustufulltrúinn sagði henni að hún gæti útvegað henni íbúð á góðu verði sem banki B væri búinn að taka af einhverjum og hún ætti frekar að kaupa eina af þeim íbúðum og mundi hún láta hana hafa lista yfir þær íbúðir og þær íbúðir væru á miklu betra verði.
Konan sagði að ef hún hefði ekki sjálf átt íbúð sem hún ætlaði að fara að selja þá hefði ekki verið víst að hún hefði áttað sig á hve alvarlegt þetta væri, hún gæti t.d. lent í því að aðili sem væri áhugasamur um hennar íbúð væri boðið það sama af öðrum banka en hún væri í og salan fyrir henni mundi eyðileggjast.
Hef heyrt af svona dæmum áður, þ.e. að fólk hefur hringt aftur til okkar eftir að hafa skoðað íbúð hjá okkur sem því líkaði og sagst hætt við að kaupa hana því það hafi fengið íbúð á betra verði í gegnum bankann sinn en aldrei fengið það staðfest áður.
Ég býð ekki í fasteignamarkaðinn, ef það er svona sem bankarnir ætla að vinna. Ástandið er nógu erfitt hjá fólki sem gengur illa að selja, þó svo að bankarnir fari ekki í undirboð. Kannski finnst bönkunum íbúðaverð og þar með tryggingar þeirra ekki hafa lækkað nógu mikið. Þetta er að auki líklegast brot á samkeppnislögum, þar sem bankinn er að reyna að koma í veg fyrir samning milli tveggja aðila sér til hagsbóta.
Mér finnst mjög mikilvægt, að bankarnir raski ekki eðlilegri verðmyndun á markaði með undirboðum eins og þessi saga lýsir. Raunar held ég að það sé bönkunum til hagsbóta að halda að sér höndum á fasteignamarkaði.