Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 19.7.2010.
Merkilegt hvernig hægt er að snúa hlutunum sífellt á hvolf. Hæstiréttur er ekki sökudólgur í þessu máli. Útlánafyrirtækin eru þeir seku. Að halda einhverju öðru fram er aum tilraun til að þrýsta á Hæstarétt um að rétta hlut lögbrjótanna í næstu umferð. Ég spyr bara: Hverjum er það að kenna, ef ökumaður er tekinn á 150 km hraða, lögreglunni eða ökumanninum? Eða ef sett er stöðusekt á ráðherrabíla sem er lagt ólöglega, stöðumælaverðinum eða ráðherranum/ráðherrabílstjóranum?
Mér finnst líka merkilegt, að það virðist enginn tala um að hér hafi verið óstöðugleiki þegar þessi lán fóru upp úr þakinu vegna falls krónunnar. Það var vissulega talað um óstöðugleika vegna falls krónunnar, en óstöðugleikinn var ekki vegna hækkun lánanna. En minna er fjallað um að styrking krónunnar á undanförnum vikum hafi valdið óstöðugleika. Nei, styrkingin hefur valdið auknum stöðugleika.
Gengisvísitala stendur núna í 214 stigum. Hún fór hæst í um 250 stig, þannig að gengið hefur styrkst um 36 stig sem nemur 14,5%. Flest þessi lán voru tekin á frá ársbyrjun 2005 til febrúarloka 2008. Á þessum tíma var gengisvísitalan að meðaltali 116 stig. 116 er 46% af 214 og 214 er 84% hækkun umfram 116. Nú hefur Íslandsbanki lýst því yfir að bankinn hafi fengið 47% afslátt af öllum sínum lánum. Bara hluti lána Íslandsbanka falla undir dóma Hæstaréttar. Hjá Landsbankanum eru sambærilegar tölur 34% af nafnvirði (samkvæmt upplýsingum á heimasíðu bankans), en bara fyrir heimilin, og nú er spurningin hvað nafnverð var mikil lækkun frá raunverði. En gefum okkur að nafnverð og raunverð sé það sama (þó það eigi almennt ekki við), þá er lækkunin 34% af öllum lánum heimilanna. Arion banki fullyrðir að hann hafi gert versta samninginn, þrátt fyrir að upplýsingar í Creditors Report Kaupþings gefi annað í skyn, og bankinn hafi fengið 24% afslátt af öllum lánum heimilanna. Nú hefur komið fram í Morgunblaðinu (um miðjan mars 2010) að verðtryggð lán voru almennt tekin yfir með 8 - 12% afslætti. Samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabankans voru gengisbundin lán fyrirtækja hjá bankakerfinu (þ.e. bankarnir þrír og sparisjóðir) um 61% af lánum til fyrirtækja 31.3.2010, gengisbundin lán heimilanna námu um 23% af lánum heimilanna og þar af voru gengisbundin húsnæðislán 22,4% af húsnæðislánum bankakerfisins. Sjá meðfylgjandi töflu:
Já, takið vel eftir því, að gengisbundin lán heimilanna eru í bókum bankanna aðeins verðmetin á tæpa 117 milljarða samanborið við 273 milljarða í lok september 2008. Það þýðir að bókfært verðmæti gengistryggðra lána í lok mars var eingöngu 43% af bókfærðu verðmæti í lok september 2008. Á meðan er upphæð á niðurfærslureikningi lítið breytt, en hefur farið úr 105 milljörðum í 112 milljarða. Fram hefur komið að einhver hluti íbúðalána Kaupþing og Landsbankans varð eftir í gömlu bönkunum, þannig að ekki er hægt að vera með beinan samanburð.
En hvort sem tölurnar eru hárnákvæmar eða ekki, þá eru þetta opinberar upplýsingar. Samkvæmt þeim, þá er búið að færa lánasöfnin meira niður, en menn hafa reiknað út að áhrifin eru af dómum Hæstaréttar haldi samningsvextir. Hvað er þá í gangi? Af hverju valda dómarnir óstöðugleika, þegar þegar er búið að færa lánin verulega niður? Hver eru frétta- og blaðamenn? Af hverju spyrja þeir ekki þessara spurninga? Þora þeir því ekki eða hafa yfirmenn þeirra bannað þeim það? Lóa Pind virðist vera sú eina sem spyr.
Aftur að tölunum. Íslandsbanki fékk 47% afslátt af öllum lánum. Gefum okkur að það eigi líka við um lán heimilanna. Hluti lánasafnsins, þ.e. verðtryggð lán, fóru á mun lægri afslætti, segjum 20% til að vera í hærri kantinum, óverðtryggð lán og yfirdráttarlán fór samkvæmt tölum Seðlabankans með 40% afslætti, og þá kemur í ljós, að þó Íslandsbanki gefi 100% afslátt af gengisbundnum lánum heimilanna, þá hefði bankinn ekki einu sinni nýtt afsláttinn í botn. Sé afslátturinn á lánasöfnum heimilanna lægri en 47%, breytist lokaniðurstaðan, en bankinn er alltaf með nægt svigrúm til að standa af sér dóma Hæstaréttar gagnvart heimilunum. Landsbankinn fékk 34% afslátt af lánum heimilanna og fram hefur komið að afsláttur af verðtryggðum lánum var 8 - 12%. verðtryggð lán eru umtalsvert stærri hluti lána til heimilanna en gengistryggð og því er afslátturinn á þeim líklegast meiri en 34%. Það er því líkt með Landsbanka og Íslandsbanka, að bankinn er þegar búinn að fá meiri afslátt en nemur áhrifum af dómum Hæstaréttar á lán heimilanna. Arion banki er með versta samninginn og gæti því hugsanlega ekki verið með nægjanlegt svigrúm. Á móti kemur að stór hluti gengisbundinna fasteignalána heimilanna, sem tekin voru hjá Kaupþingi, eru núna í eigu lífeyrissjóðanna og þeir fengu lánin með góðum afslætti. Samkvæmt þessu, sé ég ekki að verið sé ógna einhverjum stöðugleika með dómum Hæstaréttar. Það er aftur klárlega verið að hafa af bönkunum framtíðartekjur, sem þeir ætluðu að fá með því að láta lántaka ekki njóta afsláttarins sem bankarnir fengu. Það er líka verið að hafa af kröfuhöfum hlutdeild í framtíðarhagnaði og það held ég að sé mergur málsins.