Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 29.9.2010.
Ég skil ekki þetta væl um pólitískar ofsóknir, flokkadrætti og þess háttar varnir gegn því að Alþingi hafi ákveðið að kæra Geir Hilmar Haarde fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar fyrir landsdómi. Með fullri virðingu, þá var hann á vakt þegar allt hrundi. Hann var líka á vakt, þegar ákveðið var að endurreisa bankana á fasteignum heimilanna og eignum fyrirtækjanna. Hann var á vakt, þegar afþökkuð var aðstoð og ráðgjöf erlendra aðila á fyrri hluta árs 2008. Hann var á vakt, þegar farið var í söluherferð fyrir bankana bæði 2006 og aftur 2008. Hann var á vakt, þegar Seðlabankinn fór á hausinn og dró með sér a.m.k. 6 önnur fjármálafyrirtæki. Hann var á vakt, þegar krónan hrundi í mars, í september og síðan í nóvember. Það getur vel verið að hann hefði ekki getað komið í veg fyrir allt sem gerðist, en er einhver hér sem getur fullyrt að hann og hans ráðuneyti hafi gert sitt besta til að koma í veg fyrir það sem gerðist.
Ég stakk upp á því í nóvember 2008 að stofnuð yrði sannleiksnefnd að suður-afrískri fyrirmynd. Ég taldi þá einsýnt og tel enn, að enginn yrði nokkru sinni dreginn til ábyrgðar vegna þess sem gerðist hér á landi á vakt Geirs H. Haarde á árunum 2006 - 2008. (Byrjaði raunar á vakt Davíðs Oddssonar 1999 - 2004 og hélt áfram á vakt Halldórs Ásgrímssonar 2004 - 2006.) Með sannleiksnefndinni taldi ég (og tel enn) að hægt væri að fá alla leikendur hrunsins til að koma fram og segja sannleikann um hvað gerðist. Í staðinn höfum við sérstakan saksóknara, rannsóknarnefnd Alþingis, nefnd Alþingis um skýrslu rannsóknarnefndarinnar, landsdóm og síðar dómstólana. Verið er að grafa allt klúðrið og mistökin í bákni skriffinnsku og dómsmála. Þetta er svo vitlaus stefna, að maður veltir fyrir sér hver er master mændið bak við þetta.
Hvað hefur komið út úr þessu hingað til? Jú, skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sem segir heilmargt, en sleppir því bitastæðasta og mikilvægasta. (Fyrir utan að vera með allt of mikið af hálfsögðum sögum og hreinum rangfærslum.) Sérstakur saksóknari (sem er góður vinur minn) vinnur af kappi og eljusemi, en virðist mjög víða rekast á veggi. Vinnan gengur hægt, en vonandi bítandi, en erfiðasti hjallinn er eftir, sem er vanbúið dómskerfi landsins. Mér kæmi verulega á óvart að hér verði nokkur maður dæmdur til fangelsisvistar. Hingað til hafa héraðsdómar og Hæstiréttur ekki talið að nein brot hafi verið framin varðandi stökkbreytt lán heimila og fyrirtækja, af hverju ætti eitthvað annað að hafa verið ólöglegt? Nú sú tillaga að kæra Geir, Ingibjörgu, Árna og Björgvin fyrir landsdóm fyllti marga vandlætingu, ekki vegna þess að þeir vilja ekki heyra sannleikann. Nei, vegna þess að þetta er allt svo gott fólk og það getur ekki verið að það hafi gert eitthvað af sér. Staðreyndin er sú, að þetta fólk hefur ekki tjáð sig um gjörðir sínar á meðan það var ráðherrar. Ég veit ekki hvað það gerði eða hvaða ákvarðanir það tók. Eins og hlutirnir litu við mér, þá voru Geir og Björgvin í losti í 3 mánuði eftir hrun bankakerfisins. Mér kæmi bara ekkert á óvart að veikindi Ingibjargar megi rekja til þess álags sem hafði verið á henni síðasta heila árið á undan. Þegar fólk er á kafi í afneitun í langan tíma, þá bilar heilsan. Svo einfalt er það.
Hrun hagkerfisins varð ekki bara. Það er afleiðing af fífldirfsku, svikum, lögbrotum, græðgi, lygum, vanhæfni, meðvirkni, undirlægjuhætti, auðtrú, einfeldni, heimsku, aulaháttar og ég veit ekki hvað æðstu stjórnenda bankanna, eigenda bankanna, stærstu viðskiptajöfra landsins og landsstjórnarinnar og þeirra stofnana ríkisins sem áttu að fylgjast með fjármálakerfinu og fjármálamörkuðum. Hvað ætla stjórnmálamenn, þ.m.t. alþingismenn, að grafa hausinn langt niður í sandinn? Það getur vel verið að Geir Hilmar Haarde hafi ekki getað komið í veg fyrir hrunið vegna þess að það var logið að honum á allar hliðar. En hvers vegna var það gert? Hvaða bankamanni dettur í hug að ljúga að hagfræðimenntuðum forsætisráðherra um stöðu þjóðhagsstærða eða efnahag bankanna, nema vegna þess að hann vissi að hann kæmist upp með það? Ég man ekki eftir því í eitt einasta skipti á árunum fyrir hrun, að Geir setti hnefann í borðið eða teldi eitthvað að hér. Nei, hér var alltaf allt í lukkunnar velstandi. Vandamál, sem síðar hefur komið í ljós að voru óyfirstíganleg, voru smámál sem vart tók því að tala um. Varnarorð erlendra sérfræðinga voru byggð á misskilningi eða öfund eða eða eða. Það voru til einfaldar skýringar á öllu, en þegar litið er í baksýnisspegilinn, þá voru skýringarnar hluti af gengdarlausri meðvirkni eða einfeldni Geirs og hans fólks. Kannski er ekki hægt að nota meðvirkni og einfeldni sem rök fyrir landsdómi, en ef það væri hægt, þá væru þau öll sek. Seðlabankinn og FME líka.
Líklegast ollu utanaðkomandi aðstæður því að hrunið varð árið 2008, en það voru bankarnir og stjórnvöld sem stilltu upp leikmyndinni og sköpuðu aðstæðurnar. Litla kreppan 2006 var mun alvarlegri en nokkur maður gerir sér í hugarlund. Menn héldu virkilega þá, að bankarnir myndu hrynja. Þá var Geir fjármálaráðherra og Árni sjávarútvegsráðherra. Drógu menn engan lærdóm af þeirri stöðu sem kom upp 2006? Sekt Geirs um aðgerðarleysi er ljósust út frá því. Spyrjið Bjarna Benediktsson eða kannski betra að spyrja Benedikt Sveinsson: Hversu nálægt voru bankarnir því að falla vorið 2006? Mér er sagt að eina helgi vorið 2006 hafi verið sólarhringsvakt í Seðlabankanum, þar sem menn bjuggust við hinu versta. Hvers vegna bannaði ekki ríkisstjórn Geirs H. Haarde hin fyrri Landsbankanum um að opna Icesave reikningana á ábyrgð íslenska tryggingasjóðsins? Mér er sagt að stjórnendur bæði Kaupþings og Glitnis hafi látið í ljós miklar áhyggjur af þessu við ráðherra í ríkisstjórn GHH og við hann líka. Icesave orsakaði svo sem ekki hrunið, en gerði allt mun viðkvæmara. Hvers vegna tóku ríkisstjórnir GHH ekki á krosseignatengslum, aflandsviðskiptum, skattsvikum og að maður tali ekki um hinni gríðarlegu skuldsetningu sem blasti við að væri í gangi? Voru umfjallanir fjölmiðla um þetta ekki nógu margar og skýrar? Nei, það var ekki hægt að gera neitt út af meðvirkni, einfeldni, auðtrú o.s.frv. Staðreyndin er sú, að fjármálafyrirtækin stjórnuðu landinu á þessum tíma og stjórnmálamennirnir stóðu og sátu eftir því sem þeim var sagt og gera það enn.
Þau eru svo mörg atriðin sem fóru úrskeiðis í forsætisráðherratíð Geir H. Haarde, að bara það réttlætir að hann þurfi að greina satt og rétt frá öllu fyrir landsdómi. Það er kominn tími til þess, að Geir Hilmar Haarde segi þjóðinni sannleikann og hætti að slá úr og í eða hreint út sagt ljúga að fólkinu í landinu.