Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.5.2010. Efnisflokkur: Icesave
Ef þessi niðurstaða ESA er að koma einhverjum á óvart, þá hefur sá hinn sami ekki fylgst mikið með Icesave umræðunni. Eins og ég skil Icesave samningana, þá hefur Ísland alltaf viðurkennt að það þurfi að greiða lágmarkstrygginguna. Deilan hefur ekki snúið um það. Hún hefur snúið um hvernig endurgreiðsla frá Landsbankanum fari fram, þ.e. hvort fyrst skal greiða inn á skuldbindingu íslenska tryggingasjóðsins og síðan hinna landanna eða hvort greiða eigi jafnt inn á alla, hvaða vexti á að greiða af lánum Breta og Hollendinga og hvort Ísland eigi að greiða eitthvað umfram lágmarkstrygginguna. Vissulega hafa menn viljað vera vissir um þessa greiðsluskyldu, en hún hefur ekki verið neitt að trufla viðræðurnar.
Ég hef ekki lesið áminningu ESA og veit því ekki hvort hún tekur á upphæðum umfram lágmarkið, en ef marka má frétt mbl.is, þá nær úrskurður ESA bara til lágmarkstryggingarinnar. Því má segja að ESA taki undir þau sjónarmið Íslands, að við berum ekki ábyrgð á neinu umfram lágmarkstrygginguna. Þá er einn liður afgreiddur af þeim þremur, sem ég nefndi að ofan. Eftir standa tveir: 1) í hvaða röð renna greiðslur frá Landsbankanum til tryggingasjóðanna þriggja; og 2) hvað þarf Ísland að greiða háavexti af lánum Breta og Hollendinga til íslenska tryggingasjóðsins. Í mínum huga skiptir fyrra atriðið öllu í þessari deilu og takist að landa því þannig að Landsbankinn geri fyrst upp við íslenska tryggingasjóðinn áður en greiðslur renna til hinna, þá sitjum við skattgreiðendur bara uppi með vaxtagreiðsluna.
Líta má á, að úrskurður ESA lækki hámarksupphæðina sem getur fallið á íslenska skattborgara, en hann segir ekkert til um hvert lágmarkið verður. Úrskurðurinn kveður einnig úr um, að þeir sem áttu mest inni á Icesave reikningum, þ.e. umfram tryggingar Breta og Hollendinga, verða að sækja sitt tjón til Landsbankans.
Færslan var skrifuð við fréttina: Ísland braut gegn tilskipun