Þetta heitir að byrja á öfugum enda

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 8.6.2010.  Efnisflokkur:  Stjórnvöld

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, á sér hliðar vekja sífellt furðu mína.  Hér er eitt atriði.  Opinberir starfsmenn eiga að sætta sig við launafrystingu til ársloka 2014.

Ég hélt að væri einhver maður með púlsinn á ástandinu í þjóðfélaginu, þá væri það Árni Páll.  Hefur hann ekki séð vanda heimilanna?  Fattar hann ekki hvað þessi vandi er umfangsmikill?  Ég segi að hann ætti að vita betur.

En skoðum samt þessa hugmynd og hvaða önnur skilyrði þyrftu að vera fyrir hendi til að hægt væri að framkvæma hana.  Í mínum huga er það eftirfarandi:

  1. Afturvirk lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána, þannig að á þau komi 4% þak á árlega verðbólgu frá 1.1.2008.

  2. Að verðbætur á lán verði afnumdar meðan launafrysting stendur yfir.

  3. Að Hæstiréttur komist að því að gengistrygging lána sé ólögleg og upphæð höfuðstóls þeirra fari niður í upprunalega lánsfjárhæð að frádregnum afborgunum síðan og ofteknum vöxtum.

  4. Að störfin í landinu verði varin.  Ekki verði neinar fjöldauppsagnir hjá hinu opinbera meðan launafrysting varir.

  5. Launafrystingin nái einnig til æðstu embættismanna og kjörinna fulltrúa.

  6. Engar hækkanir skatta verði á tímabilinu (viðbót við listann kl 11.05)

  7. Gjaldskrár hins opinbera verði frystar (viðbót við listann kl. 11.05)

Ég gæti vafalaust nefnt fleiri atriði, en læt þessi duga til að byrja með hvað sem síðar verður.

Allar hugmyndir eru umræðunnar virði.  Þessi jafnt sem aðrar.  Hún bara vekur furðu mína í ljósi stöðu heimilanna og hve stjórnvöldum hefur gengið illa að snúa þeirri stöðu við.


Færslan var skrifuð við fréttina: Vill þjóðarsátt um launafrystingu