Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.1.2010. Efnisflokkur: Bankahrun
Það er alltaf að koma betur og betur í ljós, að eitthvað stórvægilegt fór úrskeiðis í rekstri Landsbanka Íslands, þ.e. "gamla" Landsbankans. Icesave reikningurinn stefnir í að vera ekki lægri en 100 milljarðar og hafa menn reiknað hann upp í 1.000 milljarða í versta falli. Til að komast hjá hinu versta verður að hafna lögum nr. 1/2010 í þjóðaratkvæðagreiðslu og sannfæra Breta og Hollendinga um að fyrirvarar í lögum nr. 96/2009 sé það lengsta sem við Íslendingar getum teygt okkur. Ég hef sagt það áður og endurtek hér, að við eigum að setja það sem ófrávíkjanlegt skilyrði, að endurgreiðslur frá Landsbankanum renni fyrst upp í ábyrgð íslenska tryggingasjóðsins áður en króna/pund/evra kemur í hlut hinna tryggingasjóðanna. Við skulum samþykkja að íslenska ríkið greiði vexti af ógreiddum hluta ábyrgðarinnar og að þeir vextir verði greiddir jafnóðum.
Samtals eru kröfurnar á íslenska tryggingasjóðinn vegna Icesave upp á um 704 milljarða króna miðað við gengi í dag (GBP 2,35 * 200 kr./GBP + EUR 1,3 * 180 kr./EUR). En þetta eru ekki einu innistæðurnar sem eignir Landsbankans þurfa að duga fyrir. Þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde ákvað að vernda allar innistæður í íslenskum bönkum (um 1.100 milljarðar króna) reyndust hátt í helmingur þeirra vera í Landsbankanum. Núna þegar rykið hefur sest, kemur í ljós að ríkið þarf að leggja bankanum til um 280 milljarðar í eiginfjárframlag. Það helgast af því að eignir Landsbankans reyndast vera ónógar til að uppfylla skilyrði um 8% eigið fé. Ef innistæður hefðu EKKI verið færðar til í kröfuröð og gerðar að forgangskröfum og jafnframt tryggðar upp í topp, þá hefði ríkið EKKI þurft að leggja bankanum til þetta eiginfjárframlag. 280 milljarðarnir eru því í reynd skattpeningar sem notaðir eru til að borga innstæðueigendum innistæður sínar að fullu. Þetta er sama tala og ríkissjóður lagði Seðlabankanum til. Hvar er nú fólkið, sem hélt því fram að það hefði ekki kostað skattgreiðendur neitt að tryggja innistæðurnar í topp? Þetta er hærri upphæð en myndi kosta að leiðrétta öll húsnæðislán landsmanna samkvæmt kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna.
Kostnaður skattgreiðenda af falli Landsbankans verður því á bilinu 380 til 1.280 milljarðar króna. Við þetta má svo bæta, að erlendir kröfuhafar munu síðan bera um 1.220 milljarða króna til viðbótar vegna innlenda hluta bankans. Hvert tap kröfuhafa er vegna erlenda hluta starfseminnar er ómögulegt að segja á þessari stundu, en það hleypur á þúsundum milljarða. Já, dýr verður Landsbankinn allur eða á ég að segja: Dýr verður Sigurjón allur.
Færslan var skrifuð við fréttina: Eðlilegt að undirbúa viðræður