Af hverju má ekki bara segja: Já, Samfylkingin beið afhroð.

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 30.5.2010.  Efnisflokkur:  Stjórnmál

Það er eitt sem er dagljóst með úrslit kosninga:  Formenn stjórnmálaflokka viðurkenna aldrei tap.  Í kvöld var Jóhanna Sigurðardóttir í sjónvarpssal og í hvert sinn sem hún komst nálægt því að viðurkenna tap Samfylkingarinnar, þá tengdi hún það alltaf við "fjórflokkinn".  Samt er það þannig, að Samfylkingin tapar miklu fylgi í fjórum stærstu sveitarfélögum landins, þ.e. Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Akureyri.  Miðað við stöðuna núna, þá tapar Samfylkingin 6 af þeim 18 bæjarfulltrúum sem þeir höfðu.  Það jafngildir þriðjungi bæjarfulltrúa.  Í þessum bæjarfélögum eru ríflega 132 þúsund kjósendur.  Hálmstrá Jóhönnu var að Samfylking hefði unnið stórsigur á Akranesi, sem er með 4.550 kjósendur og sigurinn vannst á 993 atkvæðum.  Ég held að kominn sé tími til að frú Jóhanna Sigurðardóttir vakni til veruleikans og viðurkenni þann gríðarlega skell sem Samfylkingin er að fá í þessum kosningum.  Nei, annars, hún má alveg mín vegna dvelja áfram í heimi afneitunarinnar.

Annar formaður í afneitun er Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.  Hann velur sér viðmiðun í alþingiskosningum á síðasta ári til að finna eitthvað jákvætt.  Málið er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf fengið umtalsvert meira fylgi í borgarstjórnarkosningum en landsmálakosningum.  Að fylgið núna sé heil 28,8% miðað við 23,5% í alþingiskosningunum er staðfesting á því að Sjálfstæðiflokkurinn sé að missa tök sín í höfuðborginni, ekki vísbending um að hann sé að rétta út kútnum.  Núna stefnir í að flokkurinn tapi þriðjungi fylgisins síns eða um 14% stigum, en í síðustu þingkosningum tapaði flokkurinn 16% stigum í öðru Reykjavíkurkjördæminu, en 15% stigum í hinu.  Mér finnst þessi munur á 14% og 15,5% vera innan skekkjumarka.  En Bjarni má alveg eins og Jóhanna halda áfram að dvelja í heimi afneitunarinnar.

Í mínum huga eru úrslit kosninganna í þessum fjórum sveitarfélögum ákall um ný vinnubrögð í sveitastjórnarmálum.  Ég hef áður skrifað um það og vil endurtaka það núna:

Sveitarstjórnarmál eiga ekki fara eftir flokkslínum landsmálaflokkanna.  Þau eiga vera byggð á samstarfi allra kjörinna fulltrúa, þvert á lista, til að byggja upp nærsamfélagið.  Raunar á að opna fyrir persónukjör til sveitastjórna sem gengur þá út á það, að kjósendur geta valið hvort þeir kjósi lista eða velji einstaklinga af þvert á lista.  Hvaða gagn er af því að vera með 7, 9, 11 eða 15 manns í stjórn sveitarfélagsins, ef aðeins rúmur helmingur er virkur í stjórnun sveitarfélagsins?  Þetta er löngu úrelt hugmyndafræði, sem á að leggja af.  Síðan verða þessir kjörnu fulltrúar að þekkja sín takmörk.  Sumt hafa þeir einfaldlega ekki vit á og þurfa þá að leita til sér vitrari manna eða kvenna.  Lýðræðið gefur ekki kjörnum fulltrúum leyfi til að haga sér hvernig sem er, eftir að þeir hafa náð kjöri.  Þeir eru ábyrgir fyrir gjörðum sínum og geta borið skaðabótaskyldu, þá á það hafi aldrei reynt.  Samstarf allra kjörinna fulltrúa um málefni mun gera sveitarfélögin sterkari, en til þess að slíkt samstarf geti komist á, þá verða menn að fara úr flokkspólitískum klæðum sínum og koma fram sem íbúar viðkomandi sveitarfélags.


Færslan var skrifuð við fréttina: „Endalok fjórflokkakerfisins“