Út í hött að verðtryggja lánin. Engin lausn að fara úr einum forsendubresti í annan.

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.6.2010.  Efnisflokkur:  Gengistrygging

Er línan frá Samfylkingunni núna að verða ljós?  Fyrst vildi Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, verðtryggja bílalánin með 15% refsingu og núna vill Mörður Árnason verðtryggja öll fyrrum gengistryggð lán.  Hafa þessi menn ekki lesið stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar?  Í henni er nefnilega talað um að draga úr vægi verðtryggingar.

Það kemur alls ekki til greina að auka vægi verðtryggingar.  Hún er það sem er að sliga íslensk heimili, nema náttúrulega þessi örfáu sem eiga einhverja upphæð inni á verðtryggðum bankareikningum eða í verðtryggðum skuldabréfum.  Verðtryggingin neytendalána er eitur sem sýkt hefur þjóðfélagið og við verðum að losa okkur við hana.  Það er ekkert sem segir að opinberir aðilar geti ekki gefið út verðtryggð bréf, en ég verðtryggingin neytendalána er rugl.

Einn stjórnarmaður Hagsmunasamtaka heimilanna bar íslenska verðtryggða lánasamninga undir sænska bankamenn.  Sá fyrsti las þá yfir og ákvað að kalla á yfirmann sinn. Hann skoðaði þá lengi og spurði hvort þetta væri grín.  Stjórnarmaðurinn hristi hausinn.  Eru þetta falsaðir pappírar?  Af var hausinn hristur og málin skýrð að þetta væru þau kjör sem íslenskum húsnæðiskaupendum byðust.  Yfirmaðurinn hristi þá hausinn og sagði að hann vissi af mönnum í Suður-Evrópu sem væru þekktir fyrir okur, en jafnvel þeir væru ekki svona grófir!

Það kemur ekki til greina að skipta einum forsendubresti út fyrir annan.  Það kemur ekki til greina að fara úr einu formi eignaupptöku í annað.  Höfum í huga að verðbólga síðustu 40 ára var  82.262% eða að jafnaði 19,9% á ári, síðustu 30 ár var verðbólgan 5.214% eða 16,3% að jafnað á ári, síðustu 20 ár var verðbólgan 154% með hógværari 5,1% árlega verðbólgu, síðustu 10 árin var verðbólgan 84,7% eða 6,3% að jafnaði árlega og skoðum loks síðustu 5 ár, þá eru tölunar 50,3% og 8,3%.

Nei, takk, Mörður.  Við þiggjum ekki nýju snöruna þína í staðinn fyrir þá gömlu.


Færslan var skrifuð við fréttina: Vill verðtryggingu á lánin