Ekki benda á mig segir FME

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.6.2010.  Efnisflokkur:  Gengislánadómar, Stjórnvöld

Nú er komin í gang áhugaverður leikur sem heitir "Ekki benda á mig".  Pressan sendi fyrirspurn á forstjóra FME varðandi gengistryggðu lánin sem fóru framhjá stofnuninni.  Í svarinu segir m.a.:

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.

Ég spyr bara: Teljast lög nr. 38/2001 um vexti og verðbætur ekki til laga "sem um starfsemina gilda"?  Getur verið að enginn aðili hafi átt að gæta þess að afurðir fjármálafyrirtækja væru í samræmi við lög?  Til hvers þurfum við þá eftirlitsaðila?

Hún er heldur döpur niðurstaðan FME, þar sem stofnunin lýsir því yfir að hún hafi ekki getað gert neitt og vísar svo sökinni yfir á Neytendastofu:

Jafnframt er athygli vakin á því að samkvæmt lögum nr. 57/2005 er Neytendastofu falið eftirlit með samningsskilmálum gagnvart neytendum. 

Er það ekki dæmigert að kenna öðrum um eigin mistök.  Annað hvort hefur FME eftirlit með fjármálafyrirtækjum og gætir þess að eftirlitsskyldir aðilar fari að lögum eða þá að brotalöm er í eftirlitinu.  Það er aumt að kenna öðrum um.

Share