Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 30.11.2010. Efnisflokkur: Blekkingar, Skuldamál heimilanna
Fyrirsögn fréttarinnar er ekki í samræmi við innihaldið. Í könnuninni er spurt:
Hversu fylgjandi eða andvígur ert þú því að lífeyrissjóðir taki þátt í skuldaniðurfellingu húsnæðislána, þó það þýði að lífeyrisgreiðslur myndu mögulega skerðast?
Hér er líklegast verið að vísa til hugmynda Hagsmunasamtaka heimilanna um leiðréttingu á húsnæðislánum heimilanna. Við þetta er að athuga:
Ekki er gert ráð fyrir því í tillögum HH að lífeyrisgreiðslur skerðist hjá þeim sem eru byrjaðir að taka lífeyri eða hjá þeim sem eru í þann mund að taka lífeyri.
Það eru lífeyrisréttindi sem eiga að skerðast samkvæmt tillögum HH, en þau gera það hlutfallslega og eykst skerðingin eftir því sem lengra er í að viðkomandi taki lífeyri. Þetta þýðir að skerðingin hefði lent meira á þeim sem eru líklegir til að vera með hærri lán frá Íbúðalánasjóði.
Könnunin fjallar ekki um "almenna skuldaniðurfellingu" eins og fyrirsögnin bendir til heldur almenna skuldaleiðréttingu sem gæti mögulega skert lífeyrisgreiðslur. Á þessu tvennu er mikill munur.
Annars hefði vrið gaman, ef Landsamtök lífeyrissjóðanna hefðu spurt gagnrýnna spurninga um störf lífeyrissjóðanna, eins og:
Vilja félagsmenn að lífeyrissjóðirnir skili þeim hagnaði sem þeir fengu við kaupa á íbúðabréfum til skattgreiðenda eða húsnæðislántaka?
Vilja félagsmenn taka á skerðingu lífeyrisgreiðslna og/eða lífeyrisréttinda vegna gríðarlegra afskrifta sjóðanna sem afleiðingu af fjárfestingarstefnu sjóðanna?
Vilja félagsmenn að lífeyrissjóðirnir leggi peninga sjóðfélaga í rekstur félaga og fyrirtækja í samkeppnisrekstri, svo sem Vestia, Icelandair, Haga?
Vilja sjóðfélagar að skipt verði um stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum?
Vilja sjóðfélagar breyta fyrirkomulagi stjórnarkjörs lífeyrissjóðanna og gera það opið fyrir almenna sjóðfélaga að bjóða sig fram?
Vilja sjóðfélagar minnka vægi atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóðanna eða útiloka þá alveg frá stjórnarsetu?
Vafalaust mætti spyrja fleiri áhugaverðra spurninga.
Það skal tekið fram, að ég hef fulla samúð með lífeyrissjóðunum vegna hins mikla tjóns sem sjóðirnir urðu fyrir vegna að því virðist lögbrota stjórnenda og eigenda bankanna. Gleymum því aldrei, að það voru örfáir einstaklingar sem settu hagkerfið á hliðina. Þessa einstaklinga þarf að sækja til sakar og láta þá greiða fyrir það tjón sem þeir ollu. Sá tími á að vera liðinn að fjármálafyrirtæki og fjármagnseigendur geti hagað sér hvernig sem er til að hagnast um eina krónu, pund eða dollar í viðbót og þegar eitthvað misferst, þá sé reikningurinn sendur skattgreiðendum.
Færslan var skrifuð við fréttina: 43% á móti almennri skuldaniðurfellingu