Ég skýrði leikreglur samfélagsins en hótaði engu

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.11.2010.  Efnisflokkur:  Umræðan

Nokkrir bloggarar og dálkahöfundar hafa farið mikinn varðandi það, að ég hafi reynt að ritskoða fjölmiðla landsins í dag.  Eyjan hefur verið dugleg við að setja linka inn með vísan í helst alla sem tala gegn mér og Pressan sló því upp að ég hefði hótað fjölmiðlum siðanefnd BÍ.

Hvernig getur það verið tilraun til ritskoðunar að ætla að vísa máli til siðanefndar BÍ?  Sá sem segir það, er ekki að hugsa rétt.  Ef blaðamenn líta svo á að ekkert sé að hræðast við það að máli sé vísað til siðanefndar, þá halda þeir áfram að birta fréttirnar sem um ræðir.  Ef þeir hræðast vísun málsins til siðanefndarinnar, þá vita þeir upp á sig skömmina.  Þarna er ekki um nema þessa tvo kosti að ræða.  Hvorugur felur í sér ritskoðun.  Annar felur í sér að ég hef rangt fyrir mér að þeirra mati.  Hinn felur í sér að ég hef rétt fyrir mér að þeirra mati.  Ég hef ekkert ritskoðunarvald, heldur eingöngu tilvísu í réttlætiskennd.

Ef menn vilja tala um ritskoðun, þá ættir þeir frekar að líta á dóma héraðsdóms í vændiskaupamálinu.  Það er ritskoðun, þar sem fjölmiðlum er hreinlega óheimilt að nefna mennina á nafn, þó nöfn þeirra séu alveg örugglega á vitorði þeirra allra.

Það sem mönnum sést yfir í þessu máli er kúgunin sem felst í birtingu DV á einkaréttarlegum málefnum mínum.  Sú kúgun hefur haldið áfram hjá a.m.k. einum fjölmiðli í viðbót (þó það sé kannski full fínt að kalla amx fjölmiðil).  Þessi kúgun snýst um berja niður óæskilega aðila í lýðræðisumræðunni.  Að fjölmiðill getur ákveðið að leggja fæð á einhvern einstakling bara af því að hann var orðinn of áberandi.  Ættu fjölmiðlar ekki að hafa áhyggjur af því?  Nei, þeir hafa að áliti þessara penna áhyggjur af því, að ég telji á mér brotið og tilkynni fjölmiðlum að ég muni ekki líða það, þá sé það ritskoðun.

Friðhelgi einkalífs míns er varið af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar.  Þetta friðhelgi var rofið af DV í dag.  Stjórnarskrár varinn réttur minn var brotinn og menn tala um mig sem hinn brotlega, þegar ég vara aðra fjölmiðla við að brjóta líka á mér.  Til hvers er stjórnarskráin, ef fjölmiðlar mega vaða yfir hana á skítugum skónum, þegar þeim sýnist.

Ég mótmæli þeirri túlkun að ég hafi hótað einum eða öðrum.  Ég setti leikreglu hvað mig varðar og gekk þar í smiðju stjórnarskrárinnar.  Sú leikregla var, að hver sá fjölmiðill sem hnýsist í mín einkamál, sem eru varin af friðhelgisákvæði stjórnarskrárinnar, yrði kærður til siðanefndar BÍ.  Þetta er nákvæmlega, eins og fólk hefur rétt til að kæra hvern þann sem fer inn á þeirra einkalóð fyrir átroðning og hvern þann sem kemur óboðinn inn í húsnæði þess fyrir húsbrot.  Er það ritskoðun á fjölmiðli, ef ég kæri hann fyrir átroðning á minni einkalóð?  Er það ritskoðun á fjölmiðli, ef ég kæri hann fyrir húsbrot ryðjist hann óboðinn inn í húsið mitt? Nei, og það er ekki heldur ritskoðun, ef ég kæri fjölmiðil fyrir að brjóta á stjórnarskrárvörðum rétti mínum til friðhelgi einkalífs og læt aðra fjölmiðla vita að þeirra bíði sama hlutskipti, ef þeir endurtaka friðhelgisbrotin.  Ég var að benda þeim á hverjar leikreglur samfélagsins eru og að ég ætlaði mér að fylgja þeim.  Ég skýrði fyrir þeim leikreglur samfélagsins,en hótaði þeim engu.