Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.11.2010. Efnisflokkur: Umræða, Hagsmunabarátta
Fyrirsögnin er tilvitnun í breskan biskup, sem var með sjálfstæða skoðun á konungsfjölskyldunni bresku og lét hana í ljós á facebook síðunni sinni. Þegar fjölmiðlar fóru heim til hans til þess að spyrja hann nánar út í þessi ummæli, þá sagðist hann ekki ætla að svara og sagði bara þessi fleygu orð: "Ef þið viljið skrifa ruslfrétt, þá skrifið þið ruslfrétt." Líklegast var blessaður biskupinn að vísa til þess að fjölmiðlar láta stundum ekki sannleikann koma í veg fyrir að skrifa það sem þeim dettur í hug. Við leiðsögumenn segjum oft, að standi valið á milli staðreynda og góðrar sögu, þá hefur sagan vinninginn.
Á síðustu dögum hef ég fengið að finna fyrir því að fjölmiðlar geta bitið hluti í sig. Menn kunni ekki að greina á milli mannsins og skoðana, umræðu og einkalífs. Hefur þetta valdið miklum óþægindum og hugarangri hjá heimilisfólki. Hvernig skýrir maður það fyrir barni að fjölmiðlar vilji slúðra um mann vegna þess að þeir þurfa að selja miðilinn sinn?
Ég fékk annað símtal í kvöld frá blaðamanni sem gat ekki gert greinarmun á mér sem baráttumanni fyrir réttlæti í þjóðfélaginu og mér sem fjölskyldumanni og heimilisföður sem allar þær skuldbindingar sem fylgir þeirri stöðu. Líkt og í síðustu viku, þá vildi blaðamaðurinn blóði væta góm án þess að sjá neitt athugavert að taka mig út einan allra sem standa í þessari baráttu. Og það skipti viðkomandi engu máli að ég væri hættur í stjórn HH.
Mér skilst að ástæðan fyrir því að skuldastaða mín sé svona spennandi umfjöllunarefni er að húsið sem við hjónin byrjuðum að byggja á haustmánuðum 2006 sé svo stórt. Glæpur minn er að húsið er stórt. Ástæðuna hef ég margoft gefið upp: Fjölskyldan er stór (6 manns), ég er með eigin rekstur heima hjá mér, konan mín hefur áhuga á að vera með sinn rekstur heima líka og kjallarinn bættist við vegna aðstæðna á staðnum. Annað atriði, sem gefið er upp, er að ég sé svo skuldsettur. Já, þegar fólk situr uppi með tvö hús, þá fylgir því að skuldir eru meiri en þegar maður er með eitt hús. Við hjónin gætum nýtt okkur lög um úrræði fyrir fólk með tvær eignir, en höfum ekki gert það ennþá vegna þess að við viljum freista þess að vinna úr þessu sjálf. Í þessu tilfelli er glæpur okkar að hafa ekki nýtt okkur lagaleg úrræði, vegna þess að við vonumst til að fá kaupanda. Kannski gerist það að til okkar kemur kaupandi sem er með nógu gott kauptilboð. Eins og staðan á fasteignamarkaðnum er, þá finnst mér ólíklegt að við fáum slíkt tilboð, en aldrei segja aldrei. Því auglýsi ég eftir áhugasömum aðila, sem vantar 207 fm raðhús á besta stað í Kópavogi og hefur góð fjárráð. Kannski væri ég minna spennandi umfjöllunarefni, ef okkur hefði tekist að selja fyrir löngu og tekið á okkur tap upp á 10 - 15 m.kr. En svo ég skýri það út af hverju við settum ekki á sölu fyrr, er að konan mín er með MS-sjúkdóminn. Vafstur í kringum flutninga reyna mikið á hana sem leiðir til ennþá skertari starfsorku, en hún býr þó við, í kannski nokkrar vikur eða mánuði. Þess vegna færðum við okkur ekki yfir í leiguhúsnæði tímabundið, heldur ætluðum bara að flytja einu sinni.
Þriðja atriðið sem borið er á mig, er að ég sé að skara eld að minni köku. Ég hef beðið menn um skilgreina þetta betur. Einatt er bent á að ég hljóti að njóta þess umfram aðra, ef fallist verið á kröfur HH. Nú vill svo til að þeir sem hringt hafa eru með veðbókarvottorð yfir húsin tvö í höndunum, en þeir hafa ekki haft fyrir því að skoða hlutina. Að vita hvað felst í kröfum HH væri góður byrjunarpunktur. Sú þekking hefur ekki verið til staðar. Næst væri ekki vitlaust að skoða hvaða áhrif dómar Hæstaréttar hafa á þau lán sem eru talin upp. (Tekið skal fram að ég skapaði mér ekki vinsældir innan stjórnar HH, þegar ég hvatti til þess eftir dómana 16. júní, að við héldum okkur við upprunalegar kröfur HH og sýndum fjármálafyrirtækjum sömu sanngirni og við höfðum óskað eftir frá þeim. Sanngirnin þyrfti að ganga í allar áttir.) Jafnvel mætti skoða hvaða áhrif aðrar tillögur hafa á lánin, t.d. 110% leiðin og sértæk skuldaaðlögun, en báðar þessar tillögur njóta stuðnings fjármálafyrirtækjanna. Við þetta má bæta að í sérfræðingahópnum sem ég var í, var sérstaklega skoðuð ný útfærsla af 110% leiðinni, svo kölluð 60-110% leið og naut hún líka stuðnings fjármálafyrirtækjanna. Vandamálið er að menn hafa ekki haft fyrir því að skoða eitt eða neitt. Það hlýtur bara að vera að ég sé að skara eld að minni köku. Ja, margur heldur mig sig.
Mér þykir það leitt að segja hnýsnum fjölmiðlamönnum það, en ég hef fyrst og fremst verið að vinna fyrir hagsmunum annarra. Það hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir blaðamenn að uppgötva, að ég er ekki þeir. Raunar hef ég bent þeim á að allur tími sem farið hefur í þetta brölt mitt hefur skaðað tekjuöflun mína. Ég er jú minn eigin herra, sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi, og því bitnar það á tekjuöflun rekstrar míns, ef tíminn fer í sjálfboðavinnu fyrir HH. Gróflega reiknað eru það á bilinu 3 til 5 milljónir sem þannig hafa ekki komið í kassann, ef ekki meira, á þessum rúmlega tveimur árum frá hruni. Það er tvö- til þrefaldur ávinningurinn, sem ég gæti haft af leiðréttingu verðtryggðu lána heimilisins. Æi, var ég að eyðileggja rökin ykkar fyrir því að ég væri að hagnast á þessu.
Það sem mér finnst grófast í öllu þessum stormi er að verið er að vega að grunni lýðræðisins. Lýðræðið fellst í því að allir eigi að hafa tækifæri til að taka þátt í opinberri umræðu og koma að mótun þess þjóðfélags sem við erum hluti af. Með því að virða ekki friðhelgi einkalífs þess sem þannig tekur þátt í lýðræðislegri umræðu, í þessu tilfelli hagsmunagæslu fyrir hóp heimila, er verið að koma þeim skilaboðum til þeirra, sem síðar koma, að gæta að sér að verða ekki of áberandi því þá gæti verið að viðkomandi verði gerður að skotskífu fjölmiðlanna. Já, fjórða valdið gerir það að glæp að vera of áberandi. Tekið skal fram, að enginn fjölmiðill hefur gert eina einustu tilraun til að fá að ræða við mig um mig sjálfan. Líklegast er það ekki nógu spennandi.
Vald fjölmiðlanna er mikið. Þeir geta nánast ráðið því hvaða mál komast í umræðuna. Þeir ráða líka nokkurn veginn hverjir komast í fjölmiðlana. Ég var "bara" meðstjórnandi í stjórn HH, en samt völdu fjölmiðlamenn að hafa samband við mig. Vissulega hefur nafn mitt verið á fréttatilkynningum samtakanna, en fréttatilkynningar þar sem nafn mitt eru undir hafa verið fáar og langt á milli að ég best veit. Nú er ég að líða fyrir að hafa verið almennilegur við fjölmiðlafólk og vera nánast alltaf tilbúinn að svara spurningum þeirra, koma í viðtöl og skýra út hlutina. Já, einn af mínum stærstu glæpum er líklegast að hafa verið of almennilegur við fjölmiðlafólk. Ef ég hefði vísað viðtölum frá mér og haldið mér í bakgrunni, þá væri ekki þessi gassagangur. Sjaldan launar kálfurinn ofeldið.
(Tekið skal fram, að allt sem kemur fram í þessari færslu um skuldamál mín og eignastöðu hefur verið birt áður á þessari síðu.)