Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 20.2.2009.
Greining Glitnis, nei, Íslandsbanka birtir áhugaverðar tölur um þróun skulda heimilanna. Gerður er samanburður við skuldastöðu heimila í öðrum löndum og er staða þeirra ekki jafn slæm. En þessi samanburður er ekki sanngjarn. Annars vegar eru skoðaðar skuldir sem eru með höfuðstól í mynt viðkomandi lands og bera ekkert annað en hreina vexti, en hins vegar eru skoðaðar skuldir sem breytast eftir stemmningu á gjaldeyrismarkaði þjóðarinnar og hversu vel Seðlabanka og ríkisstjórn tekst að halda jafnvægi.
Skoðum þessar skuldir íslenskra heimila, ef þær væru í samanburðarhæfum lánum. Ég geng út frá því að af þessum 2.017 milljörðum séu 1.500 milljarðar í verðtryggðum lánum, 400 milljarðar í gengistryggðum lánum og rúmlega 100 milljarðar í óverðtryggðum lánum. Skoðum nú hve háar þessar skuldir væru, ef hér væri hvorki verðtrygging né gengistrygging. Þá fáum við forvitnilega niðurstöðum.
Ég setti upp smá líkan, þar sem ég geri ráð fyrir ákveðinni dreifingu verðtryggðra lána eftir lántöku ári. Til að flækja málið ekki of mikið, þá geri ég ráð fyrir 20% verðtryggðra lána hafi verið tekinn fyrir árið 2000 og síðan 10% á ári eftir það, nema að nær ekkert hafi bæst í ný verðtryggð lán á síðasta ári. Þá kemur í ljós að upprunalegur höfuðstóll þessara lána er líklegast í mesta lagi í kringum 930 milljarðar, en verðbætur að lágmarki um 570 milljarðar eða um 38% af heildartölunni.
Nú gagnvart gengistryggðu lánunum, þá geri ég ráð fyrir að um 10% þeirra hafi verið tekin á síðasta ári, fjórðungur hafi verið tekinn árlega 2005 - 2007 og 15% 2004. Miðað er við gengisvísitölu um mitt ár á hverju ári og að öll lánin séu gengisvísitölulán. Til samanburðar er notuð gengisvísitala Glitnis frá 31.12.2008. Í ljós kemur að upprunalegur höfuðstóll lánanna er líklegast um 225 milljarðar eða tæp 57% af heildarupphæðinni.
Miðað við þessa útreikninga, sem eru frumstæðir og ónákvæmir en gefa vísbendingu um þróun, þá er upprunalegur höfuðstóll lána heimilanna nálægt því að vera 100 + 930 + 225 = 1255 milljarðar eða 169% af ráðstöfunartekjunum. Afgangurinn, þ.e. 760 milljarðar, eru skattar sem heimilin greiða fyrir ónýta peningamálastefnu, getuleysi Seðlabankans, óstöðugleika krónunnar, verðbólgu, glæfraskap bankamanna og menntunarkostnað fjármálakerfisins. Það væri örugglega hægt að hækka þessa tölu, þar sem ég tek ekki inn í greiðslur lántakenda á þessum árum, sem að stórum hluta voru verðbætur á höfuðstól og svo mesta snilldin, verðbætur á vexti!