Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.2.2009.
Það er komin ný ríkisstjórn og það örlar á breytingum, enda tími til kominn. Um þessar mundir er tæpt ár frá því að efnahagslífið tók sína fyrstu skörpu dýfu sem endaði í hruninu í haust. Það var nefnilega í mars á síðasta ári sem krónan féll og verðbólgan fór verulega á skrið. Samt er verið að telja okkur trú um að fyrst og fremst þurfi að leysa vandann vegna hruns bankanna. Það er bara ekki satt. Vissuð þið að verðbólga frá janúar fram í maí í fyrra var meiri en á jafn mörgum mánuðum frá september í haust fram í janúar á þessu ári. Það munar umtalsverðu. Svo segja menn að það þurfi ekki að leysa vandann sem skapaðist fyrir hrunið. Ég heyri fólk meira að segja kvarta yfir því verið sé að bjarga þeim sem lentu í vanda áður en bankarnir hrundu. Þeim hafi bara verið nær að passa sig ekki betur.
Ég sit í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna. Stjórnarskiptin um daginn eru ekki endalok baráttu okkar fyrir hagsmunum heimilanna. Við erum rétt byrjuð. En við getum það ekki nema með ykkar hjálp og því vil ég hvetja alla, sem ekki hafa gert það, að ganga í samtökin með því að skrá sig á heimsíðum samtakanna. Við ætlum ekki að hætta baráttu okkar fyrr en búið er að slá skjaldborg um heimilin og verja það verðmætasta sem til er í samfélaginu, fjölskylduna og þá fyrst og fremst börnin, fyrir ágangi kröfuhafa. Þessara sömu kröfuhafa, sem keyrðu allt í kaf og ætla nú að nota húsnæðið OKKAR til að bjarga sjálfum sér. Þeir eiga ekkert inni hjá okkur. Það erum við sem eigum heilmikið inni hjá þeim. Til dæmis væri einföld beiðni um fyrirgefningu gott fyrsta skref í staðinn fyrir að segja „Ég ber ekki ábyrgð“. Við vitum alveg, að þetta átti ekki að enda svona. En ælan er samt út um allt.
Við eigum kröfu um að þeir komi að borðinu með alla sína peninga, líka þá sem geymdir eru á leynireikningum í skattaskjólum, og taki byrðarnar af almenningi. Við eigum kröfu um að þeir komi og þrífi æluna upp eftir sjálfa sig.
---
Ég skil vel að það þurfi að endurfjármagna bankakerfið. Ég skil vel að það hafi þurft að vernda innistæður á bankareikningum. Ég skil líka vel að rétta þurfi af Seðlabankann eftir að stjórnendur hans settu hann í þrot. En ég skil ekki af hverju það á að gera þetta allt með fasteignum landsmanna, fasteignunum okkar. Ég skil ekki af hverju ríkisbönkunum er sett sjálfdæmi um það hverjir fá að halda húsum sínum og hverjir ekki. Ég skil heldur ekki hvers vegna ekki var gengið strax í að stöðva aðfarir og nauðungarsölur. Og ég skil alls ekki, af hverju kröfuhafar geta keypt eignir á spottprís og síðan krafið þann sem var að missa húsið sitt, fyrir næstum ekki neitt, um afganginn af skuldinni. Hér er eitthvað stórvægilegt að. Þessu verður að breyta.
En hver er vandi heimilanna? Okkur er talið trú um að allt sé þetta hruni bankanna að kenna. En það er ekki rétt. Greiðslubyrði minna lána jókst löngu áður en bankarnir hrundu og löngu áður en krónan tók dýfu í mars 2008. Vissuð þið að hækkun vísitölu neysluverðs er yfir 65% frá því að Seðlabankinn tók upp verðbólgumarkmið í marslok árið 2001. Vissuð þið að á þeim 95 mánuðum sem Seðlabankinn hefur haft verðbólgumarkmið, hefur bankanum aðeins 17 sinnum tekist að halda verðbólgunni innan þeirra marka. (Það þætti nú ekki góð frammistaða á prófi.) Og vissuð þið að frá árinu 2000, þá hafa lán heimilanna hækkað um sem nemur 700 milljörðum vegna verðtryggingar og gengistryggingar. Já, þessir 700 milljarða hafa lagst á lánin okkar vegna verðbólgu og lækkunar á gengi krónunnar. Af 2.000 milljarða skuldum heimilanna um síðustu áramót voru yfir 700 milljarðar sem við tókum ekki einu sinni að láni, en eigum samt að borga.
Það er sagt að bankarnir hafi gert Ísland að risastórum vogunarsjóði, en vitið hvað: Ísland er búið að vera risastór vogunarsjóður frá því að verðtrygging lána var tekin upp. Verðtryggingin verður að hverfa og það sem fyrst.
Monopoly leik bankanna er lokið. Einn leikmaðurinn er eftir með nánast allt. Hinir eru gjaldþrota eða veðsettir upp fyrir haus. Hvaða afleiðingu hefur það? Tekjustreymið stoppar. Fólk hættir að geta greitt fyrir nauðþurftir, fyrirtæki leggja upp laupana og störf tapast, innviðir samfélagsins bogna eða jafnvel brotna. Meðan stærri og stærri hluti tekna heimila og fyrirtækja fer í að greiða bönkunum, þá hægist á hagkerfinu. Peningakerfið er blóðrás hagkerfisins og peningarnir blóðið. Ef einn hluti hagkerfisins sogar til sín allt blóðið, þá veslast aðrir hlutar upp og deyja. Þess vegna verðum við að breyta flæðinu. Við verðum að beina peningunum um allt hagkerfið. Þannig og aðeins þannig verndum við störfin. Og þannig og aðeins þannig sláum við skjaldborg um heimilin. Þetta verður ekki gert nema með því að fara í gríðarlega niðurfærslu skulda. Við getum sagt að bankakerfið þurfi að skila góssinu. Það þarf að gefa upp á nýtt.
Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna höfum sett fram kröfur um breytingar. Sumar þarf að uppfylla ekki seinna en strax. Aðrar eru lengri tíma markmið. En kröfur okkar eru skýrar, nauðsynlegar og réttlátar:
Við viljum tafarlausa tímabundna stöðvun fjárnáma og nauðungaruppboða heimila. Frumvarpið er komið fram, en þar til það hefur verið samþykkt halda aðfarir áfram.
Við viljum leiðréttingu á verðtryggðum lánum. Okkar hugmynd er að sett verði afturvirkt til 1. janúar 2008 þak á verðtryggingu, þannig að árleg verðtrygging geti hæst verið 4%.
Við viljum leiðréttingu á gengistryggðum lánum.
Við viljum að frumvarp til laga um greiðsluaðlögun verði afgreitt svo fljótt sem auðið er sem lög frá Alþingi
Við viljum afnám verðtryggingar innan fárra ára.
Við viljum jöfnun á áhættu milli lánveitenda og lántakenda með þaki á vexti.
Við viljum að ekki sé hægt að elta skuldara eftir að búið er að taka eign sem sett var að veði.
Síðan viljum við sjá samfélagslega ábyrgð fjármálafyrirtækja, þar sem hagsmunir þjóðarinnar skipta meira máli en stundargróði.
Ég vil einnig sjá að staðið sé vörð um störfin í landinu. Ég vil frekar að fyrirtækjum sé borgað fyrir að hafa fólk í vinnu, en fólki sé borgað fyrir að hafa ekki vinnu. Ég auglýsi eftir nýrri hugsun í atvinnusköpun og uppbyggingu. En fyrst og fremst þá þurfum við von. Við þurfum að sjá að landinu stjórni ríkisstjórn sem þorir, getur og vill.
Takk fyrir mig.