Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 30.1.2009.
Þetta er hátt hlutfall, en það má ekki gleymast að á Íslandi er eiginlega ekkert langtíma atvinnuleysi. Þegar Páll Pétursson var félagsmálaráðherra ákvað hann að færa alla sem höfðu verið atvinnulausir “of lengi” af atvinnuleysisskrá yfir í greiðslukerfi Tryggingastofnunar og á lífeyrissjóðina. Þannig að í staðinn fyrir að hafa t.d. hóp kvenna, sem gátu ekki farið í hvaða störf sem er, atvinnulausar, þá fengu þær alls konar örorkugreiningar sem ekki höfðu verið hafðar í hávegum fram að því. Við þetta fjölgaði gífurlega þeim sem þiggja örorkubætur, en atvinnulausum fækkaði. Þetta er hið dulda atvinnuleysi á Íslandi og er ekkert annað en fölsun á tölum.
Ókosturinn við þetta fyrirkomulag er að örorkugreiðslur eru ákaflega íþyngjandi á marga lífeyrissjóði. Þetta á sérstaklega við þá sjóði sem tengdir eru stórum kvennastéttum og síðan þá sem eru með sjómenn. Það er nefnilega staðreynd að þetta eru þeir hópar sem hverfa fyrst af vinnumarkaði. Þar sem langtímaatvinnuleysi er ekki viðurkennt á Íslandi, þá hefur fólk ekki um annað að velja, en að fara á örorkubætur. Eins og áður segir, greiða lífeyrissjóðirnir háar upphæðir í örorkubætur til sjóðfélaga sinna. Hefur þessi mikla fjölgun þeirra sem þiggja örorkugreiðslur m.a. leitt til þess að hækka hefur þurft iðgjald (þ.e. mótframlag launagreiðenda) til sjóðanna.
Spurningin er hvort sé betra að greiða hærra iðgjald til lífeyrissjóðanna og safna fólki á örorkubætur eða hækka greiðsluna í atvinnuleysistryggingasjóð og greiða fólki atvinnuleysisbætur. Munurinn gagnvart þeim sem þiggur greiðsluna, er að ef hann er öryrki, þá þarf hann ekki að vera virkur í atvinnuleit og nýtur alls konar réttinda/afslátta sem honum býðst annars ekki.
Þessu á núna að snúa við með tvennu móti. Fyrst á að hverfa frá örorkumati og taka upp starfsorkumat og gera þannig stórum hluta fólks kleift að vera í hlutastarfi án þess að missa allan rétt til örorkubóta. Hitt er að stofnaður hefur verið Starfsendurhæfingarsjóður sem á að aðstoða fólk við að efla starfsorku sína í kjölfar slysa eða veikinda, þannig að viðkomandi fer aftur út á vinnumarkaðinn í staðinn fyrir að fara á örorkubætur. Starfsendurhæfingarsjóður tók til starfa núna um áramótin og eru nokkur forverkefni komin í gang. Ég þekki þar aðeins til og verð að segja að þar er í gangi mjög metnaðarfull starfsemi undir stjórn Vigdísar Jónsdóttur hagfræðings.