Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 30.1.2009.
Það er svo merkilegt með Sjálfstæðisflokkinn, að hann fer ekki að vinna skipulega fyrr en hann missir völdin. Hér er flokkurinn að setja á fót endurreisnarnefnd, sem mjög gott framtak. Málið er að ég hef það á tilfinningunni að hún eigi frekar að vera pólitískt tæki í kosningabaráttunni til að tryggja flokknum fylgi, en að raunveruleg alvara liggi þarna að baki.
Ásmundur Stefánsson stjórnaði neyðarnefndum á vegum ríkisstjórnarinnar í vikunum eftir hrun bankanna. Þar voru starfandi margir góðir hópar sem unnu í mikilli upplýsingaöflun. Þegar menn ætluðu að koma með einhverjar tillögur, þá var (að sögn heimildarmanns míns) slegið á fingurna og sagt að þetta mætti, þetta væri ómögulegt og þetta væri ekki hægt. Á þá að taka það alvarlega, að Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn að fara að skoða endurreisn atvinnulífsins, þegar búið er að koma flokknum frá völdum. Hvers konar brandari er þetta? Í fjóra mánuði meðan Sjálfstæðisflokkurinn hafði tök á að koma einhverju endurreisnarstarfi í framkvæmd, er nánast ekkert gert í þá veru, en daginn sem honum er skipt út af, þá verður hann skyndilega alvitur. Af hverju fóru þessi 4 mánuðir í súginn? Er það ekki ljóst að það er betra að hann sitji á hliðarlínunni, þar sem þá þorir hann að koma með hugmyndir?
Málið er að hjá Sjálfstæðisflokknum snýst allt um eigin hag flokksins. Það snýst um að leiðtoginn geti komið inn á landsfund sem hinn stóri sterki. Forsætisráðherrann ráðalausi og kraftlausi óx ásmegin og hugmyndaflug daginn sem kærastan sparkaði honum. Sjávarútvegsráðherrann, sem hafði hafnað hugmyndum um atvinnuhvalveiðar í haust, skreið úr holunni sinni og tilkynnti stórpólitíska ákvörðun daginn eftir að pólitískt vald hans þvarr.
Ég er ekki að kvarta undan því að Sjálfstæðisflokkurinn sé að vakna til lífsins. Ég hefði bara gjarnan viljað að hann hefði verið svona vakandi síðustu 4 mánuði, en ekki bara síðustu 4 daga.
Nú bíð ég bara spenntur eftir fleiri góðum hlutum frá flokknum, t.d. að hann átti sig á neyð heimilanna, fáránleika peningamálastefnu Seðlabankans, hvernig þjóðin hefur verið kúguð til samninga af AGS og erlendum þjóðum og spillingunni sem hefur verið innan flokksins í tengslum við útrásina og fall bankanna.