Gott fyrsta skref - ábendingar til bóta

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 17.2.2009.

Það er ánægjulegt að ríkisstjórnin er að hlusta á ábendingar þeirra sem standa í fararbroddi fyrir því að verja hagsmuni heimilanna.  Þarna koma fram þrjú mikilvæg atriði í baráttunni, en mér sýnist tvö þeirra mætti bæta örlítið, til að gera gott mál ennþá betra.

1. Ekki er nóg að breyta lögum um gjaldþrot þannig að kröfur fyrnist á 2 árum, heldur þarf einnig að taka fyrir að endalaust sé hægt að halda kröfum á lífi með því endurlýsa kröfum áður en fyrningarfrestur rennur út.  Í því felst helsti galli núverandi fyrirkomulags, þ.e. hægt er að halda fólki í lífstíðarskuldafangelsi með því að kröfur eru endurnýjaðar út í það endalausa.

2. Betra er að stöðva nauðungarsölur lengur, en til 1. ágúst.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til 1. nóvember.  Ástæður fyrir þeirri dagsetningu eru nokkrar:  Alþingi hefur hafið störf aftur eftir sitt venjubundna aukna sumarleyfi og getur því skoðað árangur af aðgerðinni áður en hún fellur úr gildi eða  tekið ákvörðun um að framlengja bannið við nauðungarsölum.  Í annan stað gefst lengri tími til að koma með úrræði.  Nú fer í gang kosningabarátta og því mun verða hálfgerður biðtími eða leikhlé í þjóðfélaginu 1 - 2 mánuði af þessum 6 mánuðum.  Í þriðja lagi eru sumarleyfi hjá dómstólum við lok þessa tímabils og því tefjast mál sjálfkrafa af þeim sökum.


Kröfur fyrnast á tveimur árum