Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 17.2.2009.
Mér sýnist sem fjármálageirinn Vestanhafs vilji blóðmjólka ríkissjóðs Bandaríkjanna eins og frekast er kostur. Það er þegar búið að dæla yfir 1.000 milljörðum dala inn í kerfið og nú á að bæta 787 milljörðum við, en samt er það ekki nóg. Er það ekki bara vegna þess, að hinir gírugu bankamenn ætla að sjá hve mikið þeir geta sogið upp úr ríkiskassanum?
Þetta er alveg dæmigert fyrir menn sem hafa allt niður um sig. Þeir eru búnir að rýja fyrirtæki sín inn að skinni með röngum ákvörðunum, pýramídasvindli og ofurlaunum. Og í staðinn fyrir að vinda sjálfir ofan af dellunni, þá á ríkissjóður að borga. Þeir bera sjálfir enga ábyrgð. Við skulum hafa í huga, að þetta eru sömu menn og keyptu hagstætt mat á skuldabréfavafningum frá matsfyrirtækjunum, bjuggu til svikamyllu með húsnæðislán, fundu upp skuldatryggingar og afleiður til að losna undan eftirliti bandaríska fjármálaeftirlitsins, stofnuðu 12.000 gervifyrirtæki í einni og sömu byggingunni á Bresku jómfrúreyjum og svona mætti lengi telja. Og hafa þeir flutt peningana til baka? Nei. Þeir eru búnir að koma þeim í öruggt skjól, þar sem bandaríski skatturinn nær ekki til þeirra.
Vandi Bandaríkjanna er að því leiti til meiri en hér á landi, að dalurinn er gjaldgengur hvar sem er í heiminum. Hér getum við gengið út á að flest allar krónur sem gefnar hafa verið út séu því í umferð hér á landi. Það ætti því að vera auðvelt að finna peningana. Þetta á ekki við um Bandaríkjadal. Peningar sem settir hafa verið í umferð í Bandaríkjunum geta verið hvar sem er. Og það sem meira er, að stór hluti þeirra er í Kína. Það er jú þangað sem stærsti hluti framleiðslunnar er kominn. Á leiðinni til Bandaríkjanna kemur reikningurinn við í einhverju skúffufyrirtæki á eyju í Kyrrahafi eða Karabískahafinu og síðan er annar gefinn út sem er 100% hærri. Mismuninum er stungið undan skatti. Þetta er það sem við þekktum í gamla daga sem "hækkun í hafi".
En aftur að fjármálageiranum. Menn fengu létt lost í haust, þegar Lehman Brothers var látinn falla. Nú treysta menn á að það gerist ekki aftur. Nýjasta innspýtingin hefur fallið í grýttan jarðveg, eins og sú fyrsta. Ástæðan er fyrst og fremst sú, að fjármálageirinn vill fá að ákveða sjálfur hvert peningarnir fara. (Sem er sama vandamál og hér.) Ég skil alveg tregðu stjórnvalda til þess, þar sem ekki gæfi ég manni, sem er búinn að sólunda peningum af glannaskap í bölvaða vitleysu og krefst ofurauna fyrir að hafa gert, meiri pening til að halda vitleysunni áfram. En markaðurinn hefur sínar leiðir og nú eins og áður fellur verð hlutabréfa. Ég tæki þessu ekki alvarlega, þar sem menn jafna sig á vonbrigðunum.
Líkt og hér, þá verður málum ekki bjargað með því að dæla peningum inn í fjármálafyrirtækin. Lausnin felst í því að bjarga heimilunum og framleiðslufyrirtækjunum. Bankarnir jafna sig á einhverjum mánuðum eða árum. Síðan eiga að gilda sömu lögmál um banka og aðra atvinnustarfsemi. Standi hún ekki á eigin fótum, þá á bara að loka. Það verður að vingsa út þá sem geta staðið sig og láta hina flakka. Þeir sem tapa á þroti fjármálafyrirtækjanna eru fyrst og fremst þeir sem hafa verið iðnastir að beita öllum tiltækum ráðum til að skara eld að sinni könnu. Þetta er aðilarnir sem hafa eignast allt í krafti áhrifa sinna innan fjármálageirans og alþjóðlegu auðhringanna. Þetta eru þeir sem sogið hafa til sín allt fjármagn í stærstu svikamylla allra tíma. Segir ekki: "Sek bítur sekan" eða á ensku "That goes around, comes around". Mér sýnist sem komið sé að skuldaskilum og fjármálageiranum í Bandaríkjunum verði ekki bjargað nema menn þar samþykki að fara í stærstu afskriftir og skuldajafnanir sem sögur fara af. Það voru ekki múhameðstrúarmenn frá Mið-austurlöndum sem felldu bandaríska hagkerfið. Nei, það voru hvítir, miðaldra, bandarískir fjármálakarlar sem séu um það og gerðu það með stæl.