Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.4.2009.
Séu einhverjir hér á landi, sem sáu ekki fyrir mikinn samdrátt í einkaneyslu, þá held ég að það sé rétt að vekja þá. Hávaxtastefna Seðlabankans, hrun krónunnar og mikil verðbólga hafa gert það að verkum að sífellt stærri hluti ráðstöfunartekna heimilanna fer beint til bankanna. Meðan ekkert er gert til að létta greiðslubyrðina, þá mun þetta ekki breytast. Það er sorglegt til þess að vita, að í 13 mánuði hefur almenningur í landinu mátt taka á sig sífellt auknar byrðar vegna efnahagsóstjórnar undanfarinna ára, vegna handónýttrar peningastefnu Seðlabankans og síðast en ekki síst vegna fjárhættuspils og svikastarfsemi bankanna og eigenda þeirra.
Afleiðingarnar af glannaskapnum er að koma í ljós. 16,6% samdráttur veltu dagvöruverslana, 21,6% samdráttur hjá fataverslunum, 54,7% í húsgagnaverslun og 50,6% í raftækjaverslun. Þetta endar ekki nema á einn veg. Fyrirtækin leggja upp laupana og störf tapast. Þá tekur við ennþá meiri samdráttur og svona heldur spírallinn áfram niður á við.
Í hagfræði er til hugtakið sokkinn kostnaður. Á Vísindavefnum er sokkinn kostnaður útskýrður á eftirfarandi hátt:
Sokkinn kostnaður er allur kostnaður sem fallið hefur til vegna kaupa á vöru eða þjónustu sem ekki er hægt að selja aftur og ekki er hægt að nýta til annars en upphaflega var ætlað. Slíkur kostnaður ætti ekki að hafa áhrif á ákvarðanir í framtíðinni.
Vissulega er ekki hægt að nota hugtakið "sokkinn kostnaður" beint um lán heimila og fyrirtækja, en það má gera það óbeint. Staðreyndin er nefnilega sú, að stór hluti útlána er tapaður. Það er því ekki rétt hjá fjármálafyrirtækjum að tala um þann hluta sem eign eða eitthvað sem er endurheimtanlegt. Upphæð þess hluta lánanna, sem er tapaður, ætti því ekki að hafa áhrif á ákvarðanir í framtíðinni. Fjármálafyrirtækin þurfa að setja alla sína orku í að verja þann hluta sem er ekki tapaður. Það gera þau best með því að gera núverandi skuldurum kleift að halda áfram að borga af lánunum með því að afskrifa þann hluta sem er í raun tapaður.
Það skiptir ekki máli hvaða leið fjármálafyrirtækin fara, þ.e. gjaldþrotaleiðina eða afskriftaleiðina, svo og svo stór hluti útlána mun ekki innheimtast! Þetta gerðu menn sér grein fyrir, þegar gert var frummat á innlendum útlánum þríburanna. Gert var ráð fyrir að lánasafn Kaupþings rýrnaði um 954 milljarða, lánasöfn Landsbankans um 1.100 milljarða og nýjustu tölur eru að lánasöfn Glitnis verði færð niður um 1.000 milljarða. Samtals eru þetta rúmlega 3.000 milljarðar. Ef litið er á þessa 3.000 milljarða sem sokkinn kostnað, þá eiga ákvarðanir bankanna að snúast um að verja hinn hluta lánasafna sinna. Það verður ekki gert með því að ganga fram af hörku og mergsjúga heimilin í landinu. Nei, það verður best gert með því að hjálpa heimilunum við að auka neysluna sína. Með aukinni neyslu eykst geta fyrirtækja til að standa í skilum og að halda uppi atvinnu. Meiri tekjur einstaklinga og fyrirtækja skila sér í hærri skatttekjum ríkissjóðs og sveitafélaga. Það er sama hvernig litið er á þetta. Það er allra hagur að létt sé á greiðslubyrði heimilanna.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til að sett verði 4% þak á verðbætur frá 1. janúar 2008. Við köllum þetta sanngjarna leiðréttingu, þar sem það voru fjármálastofnanir þessa lands sem komu okkur í þessa stöðu. Við höfum einnig lagt til að boðið verði upp á að breyta upphaflegri lánsfjárhæð gengistryggðra lána yfir í verðtryggð lán frá útgáfudegi. Þau beri óskerta verðtryggingu til 1. janúar 2008, en færist undir 4% þakið eftir það. Við viljum einnig að 4% þakið haldi áfram út árið 2010 og verði eftir það lækkað í 2,5%. Við teljum, að verði ekki fljótlega gripið til róttækra aðgerða til að auka við neyslu heimilanna, þá munum við hverfa ofan í hyldýpið.