Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 25.2.2009.
Nú eru menn farnir að rífast um það hvort hægt sé að færa niður lán heimilanna um 20% eins og Framsókn gerir tillögu að. Forsætisráðherra segir slíkt setja Íbúðalánasjóð á hausinn og Henny Hinz hjá ASÍ telur þær of kostnaðarsamar. Mér finnst hvorugur aðili líta á heildarmyndina. Þessi 20% sem Framsókn stingur upp á er u.þ.b. 20% af þeim afskriftum sem Kaupþing og Landsbanki hafa þegar boðað að verði afskrifað af innlendum útlánum bankanna. Þessi 20% eru svipuð tala og ætlunin er að nota til að bjarga Seðlabankanum. Þessi 20% eru vel innan við þá upphæð sem ríkissjóður ætlar að leggja bönkunum til í nýtt eigið fé.
Ég skil svo sem áhyggjur fólks af því að þetta sé há upphæð ein og sér, en mig langar að skoða leiðir til að framkvæma þetta án þess að það kosti ríkið eða skattgreiðendur of mikið til viðbótar við það sem þegar hefur verið ákveðið. Fyrir þessu eru fyrst og fremst tvær ástæður:
A. Gömlu bankarnir eru þegar búnir að ákveða að færa niður lánasöfnin sem færð verða inn í nýju bankana. Fram kemur í gögnum frá Kaupþingi að heildar niðurfærsla lánasafna Nýja Kaupþings muni nema 935 milljörðum til viðbótar þeim 19 milljörðum sem þegar höfðu verið færð á afskriftarreikning. Landsbankinn ætlar að færa sín lánasöfn niður um 1.452 milljarða, auk þess sem "[l]ánasöfnin sem voru færð yfir í nýja bankann hafa líka verið færð heilmikið niður", eins og Morgunblaðið hefur eftir Lárusi Finnbogasyni formanni skilanefndar bankans. Það er svo sem ekki skilgreint hve mikið lánasöfn NBI hafa verið færð niður, en "heilmikið" hlýtur að vera mælt í tugum prósenta.
B. Ríkissjóður ætlar að "kaupa" eitruð skuldabréf að andvirði 345 milljarða af Seðlabankanum fyrir 270 milljarða. Skuldabréfin voru lögð fram af smærri fjármálafyrirtækjum sem trygging vegna lána þeirra hjá Seðlabankanum. Þau eru flest, ef ekki öll gefin út af stóru bönkunum þremur og geng ég út frá því í máli mínu hér á eftir. Ríkissjóður áætlar að afskrifa þessi skuldabréf þegar um 220 milljarða.
Ég legg til að eftirfarandi leið verði farin:
Ríkissjóður kaupi skuldabréfin af Seðlabankanum eins og fyrirhugað er, en afskrifi þau ekki.
Ríkissjóður skipti á skuldabréfunum fyrir lán heimilanna hjá smærri fjármálafyrirtækjum að andvirði 345 milljarða í réttu hlutfalli við hlutdeild útlána hvers fjármálafyrirtækis fyrir sig til heimilanna. Verðmæti lánanna fyrir ríkissjóð er 270 milljarðar. Helmingurinn af þessum 270 milljörðum verði afskrifaður, ásamt þessum 75 milljörðum sem fékkst í afslátt. Afgangurinn, 135 milljarðar, verði frystir í 5 til 10 ár á 3% óverðtryggðum vöxtum, en komi þá til innheimtu samkvæmt reglum sem um þetta verða settar. Einnig mætti hugsa sér að þessi upphæð verði afskrifuð smátt og smátt á löngum tíma. Fjármálafyrirtækin eignast skuldabréf frá gömlu bönkunum.
Nýju bankarnir greiða smærri fjármálafyrirtækjunum upp skuldir sínar, þ.e. greiða 345 milljarða og fá í staðinn skuldabréfin.
Nýju bankarnir draga úr fyrirhugðum afskriftum sínum sem nemur þessum 345 milljörðum (nemur líklegast um 12% af afskriftum nýju bankanna).
Næst geri ég ráð fyrir að bankarnir (bæði gömlu og nýju) eigi húsnæðisbréf gefin út af Íbúðalánasjóði. Lagt er til að bankarnir afskrifi hluta af þessum skuldum, t.d. aðra 345 milljarða, og nýti meðal annars þegar fram komnar tillögur um niðurfærslu á skuldum annarra lánastofnana við bankana.
Nýju bankarnir leyfa öllum lántakendum að njóta strax góðs af niðurfærslu lánasafna, sbr. það sem haft er eftir Lárusi Finnbogasyni að ofan.
Íbúðalánasjóður færi niður húsnæðislán um 345 milljarða.
Niðurstaðan:
1. Seðlabankinn fær 270 milljarða í nýtt "eigið fé", eins og hann hefði fengið eftir hugmyndum ríkisstjórnarinnar.
2. Breytingar á eignastöðu smærri fjármálafyrirtækja er á núlli. Þ.e. 345 milljarðar inn og 345 út í viðskiputm við ríkissjóð, síðan 345 milljarðar út og 345 inn í uppgjöri við bankana.
3. Breytingar á eignastöðu Íbúðalánasjóðs er á núlli, þ.e. 345 milljarðar í lækkun skulda hjá bönkunum og 345 milljarðar í lækkun útistandandi skulda.
4. Breytingar á eignastöðu nýju bankanna eru flóknari. Þeir hafa greitt 345 milljarða vegna skulda gömlu bankanna, en í staðinn voru fyrirhugaðar afskriftir lækkaðar um 345 milljarða. Þannig að það kemur út á núlli. Þá er spurningin um húsnæðisbréf gefin út af Íbúðalánasjóði. Þar er um að ræða 345 milljarða sem ýmist falla undir fyrirhugaðar afskriftir við fjármálafyrirtæki eða myndu draga lítillega úr afskriftum lána til viðskiptavina. Nettó breyting hjá þeim er því engin.
5. Breytingar á stöðu ríkissjóðs velta á því hve stór hluti af 135 milljörðunum fást greiddir saman borið við 50 milljarðana, sem ekki átti að afskrifa.
6. Skuldir heimilanna hafa verið lækkaðar um 555 milljarða, auk þess sem kemur út úr niðurfærlsu lánasafna bankanna. Það sem meira er þetta kostaði ríkissjóð, Íbúðalánasjóð og smærri fjármálafyrirtæki ekki neitt aukalega og bankarnir hafa eingöngu nýtt hluta af þegar ákveðnum afskriftum. Þessu til viðbótar eru talsverðar líkur á að ríkissjóður geti innheimt stærri hluta af skuldabréfum heimilanna, en gert var ráð fyrir að hægt væri að innheimta af skuldabréfum bankanna.
Ég er viss um að nú koma einhverjir fortölumenn og segja að ekki eigi að bjarga þeim sem fóru of geyst í lántökum eða ekki þarf að bjarga. Ég hef nokkur mótrök við því:
Flestir sem tóku lán gerðu það í ljósi þeirra spáa sem komu frá fjármálafyrirtækjunum og fjármálaráðuneytinu. Allir þessir aðilar gáfu út spár um nokkuð stöðugt verðlag og að þó svo að gengið væri eitthvað ofmetið, þá væri væntanleg lækkun þess ekki meiri en 10%.
Það verður ekki öllum bjargað með þessum aðgerðum, en þetta mun duga fyrir mjög marga.
Öllum innistæðueigendum var bjargað, þó svo að ljóst var að einhverjir hefðu þolað talsverðan skell. Áður en neyðarlögin voru sett, þá voru tryggingar þeirra bara upp á um 3 milljónir en allt var bætt. Með þessu var sparnaðarformum mismunað.
Verði skuldabyrðin ekki minnkuð, þá mun stór hluti skuldara fara í gjaldþrot og eignir þeirra á nauðungaruppboð. Eftir uppboðin munu kröfuhafar þurfa að afskrifa háar upphæðir sem verða ekki bættar nema hægt verði að elta skuldara til eilífðarnóns.
Fjölskyldur munu fara á vergang eða eiga þann einn kost að fara á leigumarkaðinn, þar sem eigið fé þess er uppurið. Það mun taka fjölskyldur mörg ár að safna nægilegu eigin fé til að geta fjárfest aftur í hentugu húsnæði. Þetta mun hrekja fólk úr landi í stórum stíl.
Veltan í hagkerfinu mun minnka, þar sem þeir sem ennþá halda heimilum sínum, þurfa að nota sífellt stærri hluta tekna sinna til að greiða af lánum sínum. Minnkandi velta mun hafa áhrif á stöðu fyrirtækja, atvinnustig og samneysluna. Staða ríkissjóðs mun versna og brestir koma í velferðarkerfið. Kreppan mun dýpka.
Ég geri mér grein fyrir að tillögur mínar þarfnast frekari útfærslu, en tel þær jafnvel í þessari einfölduðu mynd hafa mikla yfirburði yfir aðra kosti.