Á óvenjulegum tímum duga engin venjuleg ráð

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.2.2009.

Í dag sendu Hagsmunasamtök heimilanna sendur frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

Á óvenjulegum tímum duga engin venjuleg ráð

Hagsmunasamtök heimilanna telja tillögur Framsóknarflokksins í efnahagsmálum, sem fela m.a. í sér almennar aðgerðir vegna skuldavanda þjóðarinnar, skref í rétta átt þó útfæra þurfi þær frekar.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt ríka áherslu á að gripið verði til almennra aðgerða þar sem jafnræði og jöfnun áhættu milli lánveitenda og lántakenda sé höfð að leiðarljósi.

Tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna eru m.a.:

Leiðrétting á gengistryggðum íbúðalánum
Lýsing: Gengistryggðum íbúðalánum verði breytt í verðtryggð krónulán.
Útfærsla: Boðið verði upp á að gengistryggð íbúðalán verði umreiknuð sem verðtryggð krónulán frá lántökudegi einstakra lána.

Leiðrétting á verðtryggðum íbúðarlánum
Lýsing: Verðbótaþáttur íbúðalána verði endurskoðaður frá og með 1. janúar 2008.
Útfærsla: Verðbótaþáttur, frá og með 1. Janúar 2008, takmarkist við efri mörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands, eða að hámarki 4%.  Aðgerð þessi er fyrsta skrefið í afnámi verðtryggingar.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja stjórnvöld til að afgreiða frumvörp laga um frestun fullnustuaðgerða og greiðsluaðlögun sem allra fyrst.

Ávinningur af aðgerðum þessum:

·         Fjöldagjaldþrotum heimilanna og stórfelldum landflótta afstýrt

·         Spornað við frekari hruni efnahagskerfisins

·         Jákvæð áhrif á stærðar- og rekstrarhagkvæmni þjóðarbúsins

·         Líkur aukast á að hjól atvinnulífsins og hagkerfisins haldi áfram að snúast þar sem fólk mun hafa ráðstöfunartekjur til annarra útgjalda en afborgana af lánum

·         Þjóðarsátt um vanda heimilanna vegna efnahagskreppunnar

·         Traust almennings í garð stjórnvalda og fjármálastofnanna eflist á ný

Hagsmunasamtök heimilanna skora á stjórnvöld að tilkynna nú þegar um þær aðgerðir sem stjórnvöld muni grípa til, hvernig þær aðgerðir verða útfærðar og hvenær þær komi til framkvæmda.

26. febrúar 2009

Hagsmunasamtök heimilanna

www.heimilin.is