Ávöxtunin sem ríkið býður er glæpur gegn þjóðinni

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 17.4.2009.

Ríkissjóður Íslands hefur ákveðið að leggja línur um vaxtakjör í landinu næstu 17 ár.  Ávöxtunarkrafan er sett á 8,82 - 9,98%!  Í mínum huga er þetta glæpur gegn þjóðinni.  Með þessu er ríkissjóður að endurspegla tiltrú sína á hagkerfið og endurreisnina, þ.e. verið er að lýsa frati á uppbygginguna.  Ef ríkið er að bjóða hátt í 10% ávöxtun hvernig á að vera hægt að lækka vaxtastigið í landinu.  Mér er alveg sama þó um óverðtryggða vexti sé að ræða.

Stjórnvöld eiga að ganga fram með góðu fordæmi og bjóða þá vexti, sem þau telja að hjálpi þjóðinni til langframa, en ekki horfa til skammtímasjónarmiða.  Ef ríkisstjórnin trúir því að efnahagsástandið eigi eftir að batna, þá verður það að endurspeglast í þeirri ávöxtun sem hún bíður fjárfestum.  Verðbólgumarkmið Seðlabankans eru 2,5%.  Hæfileg raunávöxtun á 17 ára láni er 2,5%.  Ríkið hefði því ekki átt að bjóða stiginu hærra en 5% vexti.  Ef það gengur ekki, þá verður bara að reyna síðar.

Ávöxtunin sem ríkissjóður bíður setur fyrirtæki og heimili í mikinn vanda.  Varla fá þessir aðilar betri kjör en ríkið!  Þetta er vel yfir væntanlegum hagvexti og þar með umfram væntanlega verðmæta aukningu í þjóðfélaginu.  Það getur ekki þýtt neitt annað en að gert er ráð fyrir verulegri verðbólgu á líftíma þessara skuldabréfa, þar sem öðru vísi geta heimilin og atvinnulífið ekki aflað nægilegra tekna til að greiða 12 - 14% nafnvexti (miðað við að vaxtaálag þeirra sé minnst 3-4% ofan á kjör ríkisins).  Ég spyr bara, er ekki í lagi hjá þeim sem ákveða þetta?  Meðan ríkisstjórnir í nágrannalöndum eru að selja ríkisskuldabréf með ávöxtunarkröfu sem er nálægt því að vera 0%, þá gefur hið gjaldþrota Ísland kost á allt að 10%.  Það er naumast að við erum rík.


Skuldabréf seld fyrir 15 milljarða