Sjálfstæðisflokkurinn í afneitun

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 18.4.2009.

Hún er frábær afneitun Guðlaugs Þórs:

"ástæðan fyrir því að vinstri flokkarnir boðuðu til kosninga á þessum tíma væri að þannig gætu þeir valdið Sjálfstæðisflokknum mestum skaða.
Það eina sem sameinaði vinstri flokkana væri andstaða við sjálfstæðismenn."


Nei, Guðlaugur Þór.  Ástæðan fyrir því að boðað er til kosninga núna er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur VALDIÐ ÞJÓÐINNI svo miklum SKAÐA að það varð að gefa ÞJÓÐINNI færi á að SEGJA HUG SINN.  Sjálfstæðisflokkurinn er einfær um að valda sjálfum sér skaða með einkavinastjórnun og að því virðist múturþægni. 

Hvað er búið að vera stærsta mál Sjálfstæðisflokksins síðan að bankarnir hrundu?  Koma í veg fyrir breytingar stjórnarskránni!!! Hvar eru tillögur til uppbyggingar?  Það mátti ekki koma með neina tillögu um endurreisn atvinnulífsins eða heimilanna fyrstu fjóra mánuðina eftir bankahrunið vegna þess að það átti að bíða eftir landsfundi í lok janúar.  Hvers konar bull er þetta? Og upplýsingum um slæma stöðu bankanna var haldið LEYNDUM fyrir ÞJÓÐINNI svo hún GAT EKKI VARIÐ SIG.  Voru þetta verk VG?

Flokkurinn var í 17 ár samfleytt í ríkisstjórn og vissulega kom tímabil hagsældar.  Málið er að þá var bara verið að safna eldiviði á bálköstinn sem brennur ennþá glatt 13 og hálfum mánuði eftir að kveikt var í honum.  Ég held að það sé kominn tími til að Sjálfstæðisflokkurinn SKAMMIST SÍN fyrir frammistöðu sína undanfarin ár, frekar en að vera að skammast út í aðra.  Flokkurinn hefur ekki ennþá beðið ÞJÓÐINA AFSÖKUNAR á einu eða neinu, þó Geir hafi beðið landsfundinn afsökunar.

Það er um tvennt að velja fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  Að koma fram og viðurkenna og axla ábyrgð sína á því sem gerðist eða skríða aftur ofan í afneitunarholuna og láta ekki sjá sig næstu árin.  Það er ömurlegt að heyra fyrrverandi ráðherra væla yfir því að aðrir séu að benda honum á að HANN var FANTURINN Á SKÓLALÓÐINNI.  Það var hann sem leyfði hinum FÖNTUNUM (þ.e. fjármálalífinu) að NÍÐAST Á ÞJÓÐINNI.  Og það er Sjálfstæðisflokknum að kenna að þjóðin stefnir í GJALDÞROT.

Innan Sjálfstæðisflokksins er margt hið mætasta fólk.  Ekki er vafi um það.  En á listum flokksins er líka fólk sem er atað upp fyrir haus í aur eftir atgang síðustu ára.  Ekki vegna þess að aurnum hafi verið kastað í það, heldur vegna þess að það óð hann sjálfviljugt.  Guðlaugur Þór hefur mátt sæta mikilli gagnrýni út af styrkjamálinu.  60 milljónir fóru í sjóði flokksins.  En hvað með milljarða tugina sem fóru í Sjóð 9 þar sem Illugi Gunnarsson stýrði málum!  Eru búið að þagga það hneyksli niður.  Mér er tjáð að talan sé komin í 24,5 milljarða, sem farið hafa í að bjarga andliti hans.  Svo er verið að elta Guðlaug út af 60 milljónum.  Hvernig stendur á því að hópur stjórnenda hjá Kaupþingi og nokkrir vinir þeirra völdu að færa allar eignir og skuldir yfir í einkahlutafélög í febrúar og mars á síðasta ári um svipað leiti og Seðlabankamenn fóru til London? Sjálfstæðisflokkurinn verður bara að sætta sig við, að hann er á kafi í skítnum og þar til að hann gerir hreint fyrir sínum dyrum, þá nýtur hann ekki trausts þjóðarinnar.  Það er ekki nóg að Geir H. Haarde taki á sig einhverja sök eða Guðlaugi Þór verði fórnað.  Flokkurinn þarf að viðra allan sinn óhreina þvott.  (Sem á náttúrulega við um aðra flokka líka og fyrrverandi stjórnendur og eigendur bankanna.)


Þarf að vinna litla sigra á hverjum degi