Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 8.9.2009.
Samkvæmt frétt í Fréttablaðinu virðist Steingrímur J. Sigfússon ekki hafa mikla áhyggjur af skuldastöðu þjóðarinnar. Í fréttinni segir:
Steingrímur segir að þarna séu birtar heildartölur þar sem staða bankanna sé reiknuð inn í stöðu þjóðarbúsins. Þegar hagur ríkisins sé metinn sé eðlilegra að horfa á hreina stöðu án bankanna. Þar sé staðan neikvæð, en ekki nema um 600 milljarða, sem sé vel innan þeirra marka sem búist hafi verið við.
„Þetta eru vissulega þungar og miklar skuldir, það er alveg ljóst. En það þarf að hafa í huga hvaða verðmætasköpun stendur þar að baki, og hvaða hlutfall af þjóðartekjum er útflutningur. Þar stöndum við vel að vígi og erum með hlutfallslega fremur kraftmikinn útflutning. Það lagar stöðuna, eftir því sem útflutningstekjur eru hærra hlutfall af veltu hagkerfisins ræður landið við hærra skuldahlutfall," segir Steingrímur.
Nú er Steingrímur í talnaleik og auk þess fer hann með rangt mál. Staðreyndin er að skuldirnar sem við ætlum að borga sjálfviljug eru 233% af þjóðarframleiðslu. Já, skuldirnar sem ætlum að borga eða að minnsta kosti viljum gera allt sem við getum til að borga. Heildarskuldir þjóðarbúsins við útlönd (utan gömlu bankanna) voru 3.320 milljarðar. Þetta er talsvert hærri tala en kom fram í minnisblaði Seðlabankans til fjárlaganefndar vegna Icesave umræðunnar.
Það er blekking að undanskilja skuldir gömlu bankanna, þar sem hluti þeirra verður greiddur. Skuldir þeirra voru metnar á 11.000 milljarða og það á að greiða 10-30% af því jafnvel meira. Gerir það 1.100 - 3.300 milljarða hið minnsta eða 78-230% af þjóðarframleiðslu. Af hverju tekur Steingrímur þetta ekki með? Það er talnaleikur að tala síðan um að munurinn á skuldum og eignum sé bara 600 milljarðar. Talnaleikur sem er þessu gjörsamlega óviðkomandi. Þeir sem eiga eignirnar eru nefnilega í flestum tilfellum aðrir en þeir sem skulda. Því verður aldrei hægt að treysta á að eignirnar verði seldar og peningarnir fluttir til Íslands svo hægt sé að borga skuldirnar.
Hver er tilgangurinn hjá Steingrími með þessari blekkingu veit ég ekki? Vandinn hverfur ekkert þó hausnum sé troðið ofan í sandinn.