Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.9.2009.
Þessi "ég elska þig, ég elska þig ekki" snúningur á því hvort mál Íslands verði tekið fyrir hjá stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er kannski til að sýna okkur að við komumst líklegast alveg af án þeirra. Ég get t.d. ekki séð að ástandið hafi versnað neitt verulega síðustu mánuði. Ástandið er jafnvel ívið skárra en það var í janúar og þá var það svipað og í lok október. Vandamálið er ekki hvort við fáum lán AGS og allra hinna, heldur hvort ríkisstjórn Íslands geti komið ýmsum hlutum í verk, sem hafa ekki komist á dagskrá.
Ég spyr bara: Af hverju ætti AGS að taka mál Íslands á dagskrá, þegar ekkert er að gerast í innri málum landsins? Þrátt fyrir lokalokalokafrest FME varðandi fjármögnun bankanna og útgáfu stofnefnahagsreiknings þeirra, þá er því ekki lokið. Þrátt fyrir kvalaróp heimilanna í landinu, þá er(að því ég best veit) ekki byrjað að ræða þau mál af neinu alvöru, nema í besta falli í einhverju bakherbergjum ráðuneytanna. Þrátt fyrir stigvaxandi og langvarandi atvinnuleysi, þá hefur ekki eitt einasta verkefni farið í gang sem gæti spornað gegn atvinnuleysi til skamms tíma. Og þrátt fyrir ítrekuð boð lífeyrissjóðanna um að koma með fjármagn til atvinnuskapandi verkefna, þá gerist ekkert. Hvernig væri að einhver læknir færi í heimsókn á stjórnarheimilið og athugaði með lífsmörk þeirra sem þar eru til húsa?
Ég hef nefnt það áður og vil koma því á framfæri einu sinni enn: Af hverju hafa ekki verið í gangi vinnuhópar sérfræðinga sem einblína hver á sitt viðfangsefnið? Þessum hópum var komið á fót í október, strax eftir hrunið, en svo gufuðu þeir upp. 6. nóvember birti ég eftirfarandi lista með hugmyndum að vinnuhópum. Listann birti ég aftur 24. nóvember og enn einu sinni í mars.
Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.
Bankahrunið og afleiðingar þess: Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða.
Atvinnumál: Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.
Húsnæðismál: Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.
Skuldir heimilanna: Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.
Ímynd Íslands: Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
Félagslegir þættir: Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.
Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs.
Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands [Þessu er lokið]
Gengismál: Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun.
Verðbólga og verðbætur: Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.
Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.
Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.
Því miður hefur lítið sem ekkert gerst í þessum málum, a.m.k. á yfirborðinu. Af hverju? Þora stjórnmálamenn ekki að hleypa einhverjum sem gætu haft góðar hugmyndir að umræðuborðinu? Eða halda menn að þeir fái einhverja pakkalausn frá AGS eða ESB? Austfirðingar biðu í 25 ár eftir stóriðju og var lítið annað gert í atvinnuuppbyggingu á svæðinu á meðan. Verður það sama upp á tengingunum núna, að Samfylkingin bíður og bíður í þeirri von að allt bjargist, þegar ESB björgunarsveitin mætir. Hvernig væri nú að taka sig saman í andlitinu, fara að kljást við viðfangsefnin og koma með hugmyndir að lausnum? Það þýðir ekki að draga sig inn í einhverja skel af því að viðfangsefnið sé stórt. Það leystist ekki nema unnið sé að lausninni með færustu sérfræðingum og hagsmunaaðilum. Mér liggur við að segja, að þeir einu sem mega missa sín eru stjórnmálamenn.