Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.6.2009.
Þá er niðurstaðan komin og hún er eins og menn bjuggust við í gær. Aðeins er búið að lyfta hulunni af stöðunni þannig að við vitum betur um hvað þetta snerist. Innistæður á Icesave í Bretlandi reyndust 4,6 milljarðar punda. Af þeim falla 2,2 milljarðar á íslenskar innistæðutrygginga. Innistæðurnar í Hollandi voru 1,6 milljarðar, þar falla 1,2 milljarðar á íslenskar innistæðutryggingar.
Samkvæmt samkomulaginu ábyrgist ríkissjóður skuldabréf sem Tryggingasjóður innistæðueigenda mun gefa út árið 2016. Þar er því ríkið að taka á sig ábyrgð umfram íslensk lög. Strangt til tekið, skv. íslensku lögunum, eru það þær innlánastofnanir sem eru aðilar að tryggingasjóðnum sem eru ábyrgar fyrir greiðslum sjóðsins. Þar sem yfirgnæfandi hluti innlána er hjá innlánastofnunum sem eru í eigu ríkisins (eins og málin horfa við núna), þá er ábyrgðin í raun ríkisins, þannig að þessu má líkja við orðaleik. Samkvæmt tilskipun ESB, þá ber ríkissjóður aftur beina ábyrgð á innistæðitryggingunum. Þessi munur er líklegast það sem deilan (og lausnin) snýst um að hluta.
Er einhver munur á því að innlánastofnanir í eigu ríkisins taki ábyrgðina eða að ríkið taki ábyrgðina? Viljum við frekar leggja allt innlánakerfi undir og eiga hættu á öðru hruni eftir 7 ár eða fara þessa leið sem var valin? Við skulum hafa það í huga að Bretar og Hollendingar eru bara að fara fram á að farið sé að lögum. Síðan mun Landsbankinn hafa 7 ár til að safna nægilegum eignum til að greiða skuldina. 650 milljarðar eru innan þriðjungur af erlendum eignum Landsbankans í lok september, en samkvæmt frétt Morgunblaðsins 7. október námu erlendar eignir alls um 2.460 milljörðum um mitt ár 2008 (sjá Miklar eignir í útlöndum). Ef við horfum til þess að gengið núna er umtalsvert lægra en þá, má reikna með að þrátt fyrir einhverjar afskriftir, þá séu eignirnar umtalsvert umfram þá 650 milljarða sem eru hér að veði. Það getur svo vel verið að tilteknar eignir séu eyrnamerktar til greiðslu Icesave og verðmæti þeirra sé bara 75-95% af kröfunni.
Að lögin séu gölluð eða að menn hafi ekki nýtt sér heimildir í ESB tilskipuninni til að takmarka ábyrgðir er klúður íslenskra stjórnvalda. Það er líka klúður íslenskra stjórnvalda, að Landsbankinn hafi komist upp með að opna Icesave-reikningana með íslenskri ábyrgð. Og eitt stærsta klúður stjórnvalda var að vera ekki betur vakandi fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem skapaðist hjá bankakerfinu á síðasta ári. En líklegast var stærsta klúður stjórnvalda að taka sér ekki lengri tíma áður en íslenska hagkerfið var fellt í tengslum við Glitnismálið 29. september sl. Icesave-reikningurinn er líklegast afleiðing af óðagotinu þá, þó svo að við fáum aldrei að vita það. Við skulum hafa í huga að líklegast vantaði Landsbankann bara örfáa daga til að koma Icesave í breska lögsögu.
Það getur vel verið að bankarnir hafi skapað aðstæðurnar sem felldu íslenska hagkerfið, en Seðlabankinn og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar verða taka á sig sinn skerf af sökinni. Stefnuleysi, úrræðaleysi, óðagot, einþykkja og einræðislegir stjórnhættir eru allt hugtök sem koma upp í hugann. Seðlabankinn greip til aðgerða sem ætlað var að bjarga bönkunum, en setti sjálfan sig og mörg minni fjármálafyrirtæki í þrot. Seðlabankastjóri vildi ekki veð í lánasafni Glitnis (sem hann kallaði ástarbréf), en hafði áður tekið við "ástarbréfum" upp á fleiri hundruð milljarða í gegnum Icebank, SPRON og fleiri minni aðila. Ég hvet fólk til að muna vel eftir klúðrinu hjá Seðlabanka Íslands og þeim sem þar stjórnuðu. Icesave málið er ekki síður þeim að kenna, en stjórnendum og eigendum Landsbankans og er ég með þessu EKKI að bera blak af Landsbankamönnum.