Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.6.2009.
Mig langar að birta hér bréf Hagsmunasamtaka heimilanna til eftirtalinna aðila:
Forsætisráðherra
Fjármálaráðherra
Viðskiptaráðherra
Dómsmálaráðherra
Félagsmálaráðherra
Allra þingmanna allra flokka
Ríkissáttasemjara
Stjórnar ASÍ
Stjórnar SA
Stjórnar SI
Allra helstu sambanda og félaga verkalýs og launþega
Sambands Íslenskra sveitarfélaga
Fjölmiðla
Samtökum, stofnunum og talsmanni neytenda
Sættir og málamiðlun í deilum eru lykilhugtök í friðarboðskap þeirra bóka sem skrifaðar voru á mestu ófriðartímum þjóðarinnar, þegar kristni var tekin upp á landinu árið 1000. En hvernig skildu menn þess tíma hugtakið lög? Lög voru alls ekki lagabókstafurinn fyrst og fremst; lögin voru samfélagið sjálft, hin siðræna undirstaða, rétt hegðun gagnvart náunganum, heiðarleiki. Ef lögin voru slitinn, ef samfélagið var brotið upp var ófriður skollinn á. Nú hafa þessi varnaðarorð Þorgeirs Ljósvetningagoða orðið að raunveruleika á okkar tímum, þegar ráðamenn þjóðarinnar hafa “slitið í sundur lögin.”
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna vill með meðsendu fylgiskjali koma á framfæri lykilatriðum um málefni heimilanna inn í umræður um Samfélagssáttmála þann sem nú er í smíðum. Sem frjálsir þegnar hefur almenningur í landinu kosið sér fulltrúa, sér jafna menn og konur, til að fara með hagsmunamál sín í stjórnsýslu og lykilstofnunum samfélagsins. Það er gert í því sjónarmiði að jafna stöðu þegnanna á milli, skapa jöfn skilyrði til atvinnustarfsemi og jafnframt að hlúa að uppbyggingu samfélagslegra þátta.
Undanfarin ár hefur þessi skilningur snúist allur á hvolf og þegnarnir eru farnir að þjóna samfélagsyfirbyggingunni og eru orðnir að þrælum fjármálastofnana. Ef skapa á skilyrði fyrir frjálsa þegna til að búa í þessu landi til framtíðar verður að snúa þessum formerkjum aftur við og hlúa að grunnstoðum samfélagsins, þegnunum sjálfum, heimilunum í landinu.
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna óskar ykkur góðs gengis í þeirri miklu vinnu sem þið eigið fyrir höndum og er boðin og búin til að leggja sitt af mörkum í því samhengi, sé þess óskað.
Fh. stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna
Friðrik Ó. Friðriksson meðstjórnandi
Með bréfinu fylgdi meðfylgjandi skjal:
Skrár tengdar þessari bloggfærslu: