Lánakerfið verður ekki byggt upp í óbreyttri mynd

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 30.8.2009.

Einhvers staðar rakst ég á frétt, þar sem sagði að bankana vantaði trausta lántakendur.  Mig langar að snúa þessu við.  Lántakendur vantar trausta lánveitendur.  Það er nefnilega staðreynd, að það voru lánveitendurnir sem brugðust lántakendum í undanfara hruns krónunnar og síðan falls bankanna.

Mér finnst það með ólíkindum, að nokkrum detti í hug að kenna lántakendum um að bankarnir geti ekki lánað út peninga.  Ég verð að viðurkenna að ég treysti ekki bönkunum.  Af hverju ætti ég að gera það?  Þeir unnu skipulega gegn okkur lántakendum í mörg ár.  Það endaði í hruni krónunnar, mikilli verðbólgu, stökkbreytingu á höfuðstólum lána og falli þeirra sjálfra og hagkerfisins.  Það sem meira er, bankarnir hafa ekki sýnt neina auðmýkt gagnvart viðskiptavinum sínum.  Nei, það er gengið fram af þvermóðsku og hörku í staðinn fyrir að liðka fyrir og aðstoða fólk.  Skýrasta dæmi um þetta, er að setja fólk á vanskilaskrá sem er að sækja um greiðsluaðlögun.

Afleiðing af þessu er að greiðsluvilji almennings hefur dvínað.  Margir hafa hætt að greiða af lánum sínum, aðrir fryst þau.  Tryggvi Þór Herbertsson, alþingismaður, segir þetta til marks um að lánasöfn lánastofnana séu ónýt.  Það er nokkuð djúpt í árinni tekið á mínu áliti.  Fólk frysti lánin sín í þeirri von að ástandið myndi batna, en ekki versna. Fólk treysti því að stjórnvöld myndu gera eitthvað fyrir heimilin í landinu, en ekki bara kafa dýpra ofan í vasa þeirra.

Staðreyndir málsins eru að heimilin eiga ekki að borga af lánunum eins og þau standa í dag. Stórhluti lánveitenda vann skipulag (hvort sem það var viljandi eða óviljandi) gegn hagsmunum lántakenda og lántakendur eiga EKKI að líða fyrir það. Best væri að færa stöðu allra lána til þess sem þau voru um áramótin 2007/2008. Sú staða er þekkt. Hún kemur fram í skattframtölum lántakenda. Lánstofnanir verða að viðurkenna að þetta er staðan og semja við sína lánadrottna um að þeir taki þátt í þessu.  ÍLS líka. Síðan á að afnema gengistengingu gengistryggðra lána (enda ólögleg) og setja þak á verðtryggingu.

Við búum í nýju Íslandi og það verður ekki byggt upp með því að nota kerfið sem felldi gamla Ísland. Það er ekki nóg að skipta út fólki, ef kerfið er það sama. Það þarf líka að skipta um kerfi.  Stærsti þátturinn í þeirri kerfisbreytingu er að fella niður verðtryggingu lána eða setja þak á verðbætur.  Verði farin sú leið að setja þak, þá á að miða við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Einnig þarf að setja þak á nafnvexti húsnæðislána líkt og gert er í Danmörku.  Sé áhugi fyrir því að Ísland gangi í ESB, þarf að hefja undirbúning að aðlögun hagkerfisins að þeirri inngöngu.  Stór liður í því, er að laga lánakerfið að nýju umhverfi.  Gleymum því ekki, að þó svo að einstaklingar hafi brugðist í aðdraganda efnahagshrunsins, þá var það ekki síður kerfið sem brást.  Það var jú kerfið sem gaf mönnum fært að gera það sem þeir gerðu.

Eitt í viðbót.  Við verðum að draga úr þeim miklu áhrifum sem Samtök fjármálafyrirtækja hafa haft á setningu laga og reglugerða hér á landi.  Neytendur eiga að hafa jafn sterka rödd, þegar kemur að mótun lagaumhverfisins.  Löggjafinn á að hlusta á neytendasjónarmið og verja þau.  Alþingismenn eru í sinni stöðu í umboði neytenda (kjósendur eru neytendur), ekki fyrirtækja enda hafa þau ekki kosningarétt.