Ólöglegt fjármögnunarokur

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 31.8.2009.

Það jákvæða við þetta fyrir skuldarana er að gengistryggð lán eru ólögleg. Samkvæmt greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur er tekið skýrt fram að EKKI er “heimilt að tengja skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla”. Nú þýðir ekki fyrir lánveitandann að hártoga og segja að lánið sé ekki skuldbinding í íslenskum krónum. Nær án undantekninga, þá var sótt um lánið í íslenskum krónum, lánið var greitt út í íslenskum krónum, höfuðstóllinn er reiknaður út frá íslenskum krónum, gengisviðmiðunin er gerð út frá íslenskum krónum, afborganir eru rukkaðar í íslenskum krónum og greiðslan fer fram í íslenskum krónum. Lántakandi meðhöndlar aldrei erlendan gjaldeyri, það gerir lánveitandinn ekki heldur og enn síður bílasalinn. Og nefnið mér svo einhvern sem hefur tekið lán upp á 12.562,5 USD eða 1.345.978 jen. Slíkar tölur eru greinilega umbreyting á íslenskri upphæð yfir í gengisviðmiðun til að búa til gengistryggingu.

Það er eingöngu heimilt að verðtryggja íslenskar fjárskuldbindingar við vísitölu neysluverð og síðan hlutabréfavísitölur innlendar og erlendar eða sambland þeim báðum. Gengisviðmið er verðtrygging sem tengd er við dagsgengi erlendra gjaldmiðla, þ.e. tengd verði erlendra gjaldmiðla. Það er eingöngu heimilt samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 að nota verðtryggingu sem miðar við VNV og hlutabréfavísitölur. Þessi regla er ófrávíkjanleg samkvæmt 1. og 2. gr. laganna. Af þessari ástæðu er nauðsynlegt fyrir skuldara að láta á réttarstöðu sína. Það þarf að fara með svona mál fyrir dómstóla og fá úr því skorið hvort samningar og að ég tali nú ekki um uppgjör bílalánafyrirtækjanna standast íslensk lög.

Ég geri mér grein fyrir að fólk valdi það oft af fúsum og frjálsum vilja að taka lánin með þessum tengingum. En verið var að bjóða því ólöglega vöru sem fólk þáði í góðri trú ekki vitandi betur. Þegar slíkt gerist, þá gilda alls konar riftunarákvæði og ógildingarákvæði laga, svo sem samningalaga nr. 7/1936 og laga nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingaráðstafanir. Ég gæti örugglega nefnt fleiri. Það sem ég skil ekki er, af hverju hefur fólk, sem lent hefur í furðuuppgjöri bílalánanna, ekki látið reyna á uppgjörið fyrir dómstólum? Nú hlýtur það að fara að gerast.


Allt að 12 milljón króna bílalán