Ill eru úrræði Jóhönnu

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 25.8.2009.

Hún er merkileg þessi frétt um áhrif greiðsluaðlögunarinnar á möguleika fólks til eðlilegs lífs.  Hér hefur manneskja neyðst til að fara þessa leið vegna þess að hún gat ekki selt húsið sitt og henni er refsað með því að vera stimpluð vanskilamanneskja.  Já, ill eru úrræði Jóhönnu, ef satt reynist.

Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG hefur ítrekað bent á greiðsluaðlögunina sem skynsamlegt úrræði fyrir þá sem verst eru standir.  Jafnan er bent á að þetta sé til að koma í veg fyrir nauðungasölu og gjaldþrot.  Mér sýnist niðurstaðan vera nákvæmlega sú sama.

Hagsmunasamtök heimilanna höfðu varað við því að greiðsluaðlögunin væri illur kostur af þessari ástæðu.  Hún væri því alls ekki lausn fjöldans, heldur bæri aðeins að nota hana í neyð.  Samtökin vöruðu einnig við því að skilja á milli greiðsluaðlögunar vegna veðlán og samningskrafna (t.d. yfirdráttur, kortaskuldir, o.s.frv.).   Þessi varnaðarorð hafa nú reynst orð í tíma töluð.  Það er bara verst að Alþingi hlustaði ekki betur á samtökin.

Ég held að þessi frétt Morgunblaðsins eigi eftir að fæla marga frá því að feta þessa slóð.  T.d. má lesa út úr fréttinni, að ekki voru öll lán tekin inn í greiðsluaðlögunina, enda hér greinilega bara um greiðsluaðlögun veðlána. Síðan gleypti bankinn launin með húð og hári fyrstu mánaðarmótin eftir að aðlögunin hafði verið samþykkt og ekkert svigrúm gefið til að greiða óveðtryggðar skuldir.  Ég hélt að tilgangur greiðsluaðlögunarinnar hafi verið að stilla greiðslur þannig af, að viðkomandi gæti borgað af lánunum sínum og hefði samt pening til framfærslu.  Þetta dæmi virðist ekki benda til þess.  Ástæðan er fyrst og fremst þetta furðulega fyrirkomulag að greina á milli greiðsluaðlögunar vegna veðlána annars vegar og annarra lána hins vegar.  Galli sem er æpandi augljós og varða var við.

Ég vona, að þegar fólk selur íbúðir, að ég tali nú ekki um á undirverði, þá setji það í kaupsamninga, að verði lán sem fylgja í kaupunum leiðrétt/færð niður, þá njóti seljandi þess.  Í tilfelli þess einstaklings, sem frétt Morgunblaðsins fjallar um, þá gæti þetta skipt sköpum varðandi það að koma undir sig fótunum aftur.  Það er mikið réttlætismál, að sá sem varð fyrir tjóninu njóti leiðréttinganna.  Sama á við, ef fólk er neytt eða sér sig tilneytt að fara út í greiðsluaðlögun, að allar síðari tíma leiðréttingar skili sér til lækkunar á útistandandi kröfum.  Annað er ekki sanngjarnt.  Nauðasamningur, eins og greiðsluaðlögun er, á ekki að rýra rétt viðkomandi til leiðréttinga síðar.  Við gerð samkomulags um greiðsluaðlögun verður að tryggja slíkan rétt skuldarans.  Hafi það ekki verið gert, þá hefur umsjónarmaður greiðsluaðlögunarinnar ekki staðið sig í stykkinu.


Á vanskilaskrá í greiðsluaðlögun