Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 25.8.2009.
Því ber að fagna, að fjármálafyrirtæki eru loksins byrjuð að huga að einhverjum bitastæðum úrræðum fyrir illa setta lántakendur. Lántakendur sem þessi sömu fjármálafyrirtæki eða forverar þeirra komu á kaldan klakann með glæfralegum fjárfestingum og útlánum til eigenda og einkavina. En mér er spurn: Hafa þessi úrræði verið borin undir fulltrúa skuldara? Bæta þessi úrræði þann skaða sem fjármálafyrirtæki og eigendur þeirra ollu lántakendum á síðustu árum?
Ég ætla ekki að efast um vilja fjármálafyrirtækja, þar með nýju bankanna, til að koma með úrræði sem léttir á stöðu lántakenda. En mótun úrræðanna er ekki einkamál lánveitendanna. Það eru tveir aðilar að hverjum einasta lánasamningi. Hagsmunasamtökum heimilanna hafa barist linnulítið fyrir réttindum lántakenda og bent á ýmsar leiðir sem eru færar. Ég hef ekki hugmynd um það hvort fjármálafyrirtækin eru á nokkurn hátt að taka mark á málflutningi samtakanna. Þau svo sem þurfa það ekki, en væri nú ekki skynsamlegt að bera hugmyndirnar undir hagsmunahópa á borð við HH?
Eins og ég hef ítrekað bent á hér á þessari síðu, þá finnst mér vanta að greina vandann og skilgreina markmiðin með úrræðunum. Nýja Kaupþing kynnti úrræði fyrr í þessum mánuði, sem eingöngu eru ætluð þeim sem eru komin fram yfir veðrými á eignum sínum. Hvað með hina, sem eru með mjög svo þyngri greiðslubyrði og hækkun höfuðstóls, þó svo lánin rúmist innan veðrýmist eignarinnar? Þessir aðilar þurfa líka lausnir. Fjármálafyrirtæki geta ekki hunsað þennan hóp vegna þess að hann á nægar eignir. Eða hvað með þá sem eru með þokkalegar tekjur og hafa því greiðslugetuna, en ráðstöfunartekjur eftir afborganir lána hafa kannski dregist saman um 30%? Það er mikilvægt fyrir neysluna í samfélaginu að þessi hópur sé áfram virkur á neytendamarkaði.
Meðan mótun úrræðanna er einkamál fjármálafyrirtækjanna, þá er ekki hægt að treysta því að komið sé til móts við þarfir fjöldans. Einnig er ekki hægt treysta því að hagsmunir lántakenda séu tryggðir að fullu. Við sjáum bara hliðarverkunina af greiðsluaðlöguninni. Kona sem fékk greiðsluaðlögun hjá héraðsdómi var sett á vanskilaskrá. Ég hélt einmitt að greiðsluaðlögun væri samningur um skuldaskil sem koma ætti í veg fyrir að einstaklingurinn lenti á vanskilaskrá. Var þetta það sem löggjafinn ætlaði sér? Var það virkilega ætlun löggjafans að bjóða fólki úrræði sem hefur þessar afleiðingar? Spyr sá sem ekki veit.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa stutt tillögu Gísla Tryggvasonar, talsmanns neytenda, um gerðadóm. Það getur vel verið að tillögur hans þurfi að útfæra upp á nýtt, en það sem mikilvægast í hans tillögum er ekki hvaða úrræði eiga koma út úr gerðadómnum, heldur sú greining og skilgreining sem á að eiga sér stað á einstökum hópum lántakenda. Vanti þetta, þá er ómögulegt að treysta því að þarfir allra hópa lántakenda hafi verið uppfylltar. Dæmið um greiðsluaðlögunina að ofan sannar að það úrræði er bjarnargreiði og við þurfum ekki fleiri slíka greiða.