Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 11.9.2009.
Í sjö mánuði hafa Hagsmunasamtök heimilanna beðið eftir því að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, standi við orð sín frá fyrsta blaðamannafundi sínum um að samráð yrði haft við Hagsmunasamtök heimilanna. Ekkert hefur gerst. Við erum komin í hóp með listum og menningu sem gott er að vísa til í hátíðarræðum, en þegar á reynir býr ekkert að baki.
Dónaskapur stjórnvalda gagnvart fólkinu í landinu er ótrúlegur. Mánuðum saman nefna þau ekki vanda heimilanna á nafn eða gera lítið úr vandanum. Árni Páll "ekkert í mannlegu valdi" Árnason og Gylfi "glittir í löngutöng" Magnússon koma ítrekað fram í fjölmiðlum og sýna þvílíkan greindarskort að mann verkjar í skrokkinn að hlusta á þá. "Hvar er" Jóhanna Sigurðardóttir bauð fólki inn af götunni og taldi sig þar með uppfylla þetta með samráðið. Við hvað eru blessaðir ráðamenn hræddir? Að við höfum rétt fyrir okkur? Að tillögur okkar séu betri en þeirra? Að við fáum heiðurinn af aðgerðum til bjargar heimilunum? Ég veit það ekki, en hitt veit ég að það næst alltaf betri árangur þegar talað er við fólk en ekki (niður) til þess.
Ég, sem stjórnarmaður hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, var í morgun á fundi með sendinefnd lettneskra embættismanna. Við vorum beðin um að hitta þetta unga fólk (líklegast allt á þrítugsaldri) og segja frá reynslu okkar af samskiptum við stjórnvöld og hvernig stjórnvöldum gengi að koma sínum málstað á framfæri. Ég sagði þeim þann nöturlega sannleika, að stjórnvöld á Íslandi hafa ekki ennþá talað við fulltrúa neytenda um stöðu mála í þjóðfélaginu. Ekki orð. Ég benti þeim á að samræður væru mjög mikilvægar, því aðeins eftir samræður væri hægt að skilgreina viðfangsefnið. Ég varaði þau líka við því að skilgreining mætti ekki vera einhliða ákvörðun stjórnvalda eða bankanna. Neytendur (lántakendur) væru líka hluti af myndinni og þeirra sjónarmið væru jafn rétthá, ef ekki rétthærri, en sjónarmið hinna. Það værum jú við sem þyrftum að bera byrðarnar, þegar allt kemur til alls. Ég vona að lettnesk stjórnvöld geti lært að okkar biturri reynslu og að þau þori að tala VIÐ þegna sína. Íslensk þora bara að tala TIL og jafnvel NIÐUR TIL þegna sinna.
Eitt sem við skulum alveg hafa á hreinu. Það verður engin lausn á fjárhagsvanda heimilanna samþykkt, nema hún hafi verið mótuð í samvinnu við heimilin. Við treystum ekki bönkunum og við treystum ekki stjórnvöldum.