Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 25.10.2008.
Ég hef oft fjallað um vanhæfni og svindl matsfyrirtækjanna í færslum mínum, enda tel ég að ábyrgð þeirra vegna þeirrar kreppu sem er að ganga yfir fjármálakerfi heimsins sé mikil. Til að skýra í stuttu máli í hverju þetta svindl hefur falist, þá hafa matsfyrirtækin, Moody’s, S&P og Fitch, tekið þátt í því með útgefendum verðbréfa að gefa slíkum bréfum einkunnir sem eru langt fyrir ofan raunverulegt verðmæti bréfanna. Þetta byggðist fyrst í kringum undirmálslánin í Bandaríkjunum, en hefur síðan breiðst út til mun fleiri pappíra.
Aðferðin sem beitt var, byggir á því að hjálpa útgefanda verðbréfa (afleiða eða annarra pappíra), sem eru með veði í t.d. húsnæðislánum, að búa til vöndla sem hafa fá hærra mat en hin undirliggjandi veðlán. Þannig eru veðlán kannski með mat upp á BBB, en nýju bréfin hafa alla jafna fengið mun hærri einkunn og algengast var að gefa þeim AAA-einkunn. Þetta var gert með því að búa til verðbréfavafninga, sem settir tryggðir voru með veðum af mismunandi gæðum. Þetta hefur svo sem verið skýrt út oft og mörgum sinnum og því ætla ég ekki að eyða plássi í það hér. En spurningar sem standa eftir eru tvær: Af hverju þurftu menn að fara út í þetta svindl? Og hvers vegna er þetta orðið jafn algengt og raunber vitni síðustu ár?
Svarið við báðum þessum spurningum er það sama: The New Basel Capital Accord Framework öðru nafni Basel II sem gefið var út í janúar 2001 af Basel Committee on Banking Supervision hjá Alþjóða greiðslubankanum (Bank for International Settlements). Auðvitað er Basel II ekki sökudólgurinn, heldur varð ákveðinn sveigjanleiki í reglunum um útreikning á eiginfjárkröfu til þess að menn reyndu að komast í kringum þær.
Basel II reglurnar setja grunninn að því hvernig eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja er reiknað út. Hin almenna regla er að þetta hlutfall má ekki vera lægra en 8% af útlánum, þ.e. fyrir hverjar 1 milljón sem lánuð er út, þá þarf fjármálafyrirtækið að eiga 80.000 í eigin fé. En ef þetta væri bara svona einfalt. Menn áttuðu sig á því að útlán voru misjafnlega áhættusöm. Þannig eru opinberir aðilar, að maður tali nú ekki um ríkissjóðir, taldir mun áreiðanlegri lántakendur en t.d. bílasalar eða smávöruverslun. Því þótti óeðlilegt að lán til smávöruverslunar hefði sama vægi í eiginfjárkröfunni og lán til ríkissjóðs Bandaríkjanna. Menn fundu því upp á því að bæta við vægisstuðli og tengja hann við ekki bara eðli lána, heldur einnig lánshæfismat fyrirtækis, banka eða lands eða mat sem verðbréf fengu hjá matsfyrirtæki, o.s.frv. Reglan er einföld: Há matseinkunn þýðir lágan stuðul og lág matseinkunn þýðir háan stuðul. Áhættuvægi lána eða verðbréfa getur því verið allt frá 0% vegna AAA til AA- metinna lána/verðbréfa með ríkisábyrgð til 150% ef mat fer niður fyrir B- þegar um er að ræða kröfur á banka eða ríkissjóði eða BB- ef kröfur eru á fyrirtæki. Þannig breytist eiginfjárkrafan eftir gæði matseinkunnarinnar.
Það sem mestu máli skiptir þó í þessu líkani er, að áhættuvægi vegna eiginfjárkröfu fyrir BBB metna krafna á fjármálastofnun er 100%, þ.e. enginn afsláttur gefinn, meðan áhættuvægið er 20% ef matið er AAA. Það þýðir bara eitt. Fjármálastofnun getur átt fimm sinnum meira af AAA metnum kröfum en BBB metnum kröfum fyrir sama eigið fé. Matið setti útgefendum verðbréfanna því greinilega takmörk sem þau sættu sig ekki við, þar sem það kom í veg fyrir að fyrirtækin gætu selt alla þá vafninga sem þau vildu gjarnan gefa út.
Leiðin framhjá þessu var að fá matsfyrirtækin í lið með sér og búa til það mesta svindl og skjalafals sem heimurinn hefur líklegast nokkru sinni orðið vitni að eða eigum við kannski að segja orðið fyrir. Flóknir stærðfræðiútreikningar voru notaðir til að grafa sannleikann fyrir hverjum þeim manni sem datt í hug að vefengja áhættuútreikninga. Vildu menn kynna sér útreikningana, þá fengu þeir í hendur nokkur hundruð blaðsíður af rökstuðningi fullar af stærðfræðiformúlum, sem vafalaust stóðust í útópísku fjármálakerfi þar sem aðeins 7 af hverjum 1.000 lánum fara í vanskil. Málið var bara að menn vissu betur. En með þessum flækjum tókst mönnum að ná því markmiði að breyta BBB undirmálslánum í gulltryggða AAA vafninga og þar með koma fimmföldu magni slíkra pappíra í umferð en annars hefði verið. Nú kaupendurnir voru meðal annars fjármálafyrirtæki sem fylgdu reglum Basel II og tóku því fagnandi að geta keypt AAA vafninga inn í eignasöfn sín. Fyrirtæki sem hefðu líklegast hunsað við þessum vafningum, ef þeir hefðu haft BBB mat.
Nú spyr einhver sig: En hvar var fjármálaeftirlitið? Ja, starfsemi fjárfestingabanka og matsfyrirtækja var fyrir utan eftirlit fjármálaeftirlita og því átti þetta svindl sér stað átölulaust. Það var ekki svo að fjármálaeftirlit Bandaríkjanna vissi ekki af þessu. Langt því frá. Það vissi af þessu en líkt og við Íslendingar þekkjum varðandi íslensku bankanna, þá hafði það ekki úrræði til að sporna gegn þessu. Við hlið hins eftirlitsskylda fjármálakerfis óx því eftirlitslaust kerfi sem í dag er margfalt stærra ein hitt.
En hvernig getur það gerst að BBB pappírar geta orðið að AAA veðum? Auðvitað á það ekki að geta gerst. Hvort ástæðuna megi frekar rekja til skorts á eftirliti eða hreinlega skorts á reglum, þá er að minnsta kosti ljóst að skortur á siðgæði var stór ástæða, að ógleymdri gömlu góðu græðginni. Hvað regluhliðina varðar, þá á náttúrulega ekki að vera hægt að breyta BBB pappírum í AAA veð. Þar má svo sem benda á Basel II og segja að menn hafi hreinlega haft of mikla trú á heiðarleika fjármálafyrirtækja þegar reglurnar voru samdar. Og kannski ekki af ástæðulausu. Svona vafningar voru einfaldlega ekki til, þegar reglurnar voru í vinnslu, eða a.m.k. fór mjög lítið fyrir þeim. Þegar vafningarnir fóru að koma fram, þá klikkaði Basel-nefndin með því að bregðast ekki við. Hún átti strax að taka fyrir svona leikfimi með því að kveða úr um að svona afleiðuvafninga mætti aldrei meta hærra í útreikningi á eiginfjárhlutfalli en hin undirliggjandi veð. Því miður var það ekki gert og verður það að teljast alvarleg yfirsjón af hálfu Basel-nefndarinnar.
Það er hart að setja þurfi reglur sem banna allt sem er ekki sérstaklega leyft. Mannlegt eðli er bara því miður þannig, að finni menn glufu, þá troða þeir sé inn um hana og víkka eins og mögulegt er. Hinn eftirlitslausi hluti bandaríska fjármálakerfisins er mesti ógnvaldurinn þegar kemur að þessu og ábyrgð hans er mikill í þeirri fjármálakreppu sem gengur fyrir heiminn. Hvort ráðamenn vestan hafs og forráðamenn þessara fjármálafyrirtækja munu nokkurn tímann viðurkenna, hvað þá axla, ábyrgð sína í þessu máli, finnst mér ákaflega ólíklegt og ennþá ólíklegra að hægt verði að sækja til þeirra bætur vegna þess fjárhagsskaða sem þeir hafa valdið.
Viðbót úr athugasemd:
Ég stenst ekki mátið að bæta við mínum eigin hugleiðingum um þetta, en mér finnst það viðeigandi hér í framhaldi af þessari prýðilegu greiningu þinni. Þú útskýrir nefninlega mjög vandlega og skilmerkilega það sem mig byrjaði að gruna fljótlega eftir að þessi matsfyrirtæki komust í hámæli og hef sannfærst um fyrir þónokkru síðan: að þetta eru hálfgerðar svikamyllur.
Einnig sýnir þú fram á og rökstyður betur en mér hefur hingað til tekist sjálfum, að eftir að allur markaðurinn (nánast) var búinn að hengja sig á mat þeirra, þá sátu þau uppi með mikla ábyrgð og höfðu þannig í reynd vald til að fella (nánast) allan heimsmarkaðinn samtímis! Þrjú fyrirtæki, Moody's, S&P og Fitch höfðu t.d. samtals meira en helmingshlutdeild í heimsmarkaðnum og hegðunarmynstrið í matsákvörðunum þeirra hefur öðru fremur minnt mann á verðsamráð gömlu olíufélaganna hérna heima, slík er fylgnin þarna á milli. (Eða eins og beljur í fjósi, ef ein lækkar þá lækka hinar nánast undantekningalaust alveg jafn mikið.)
Svo þegar sannleikurinn fór að skína í gegn og vandamál að koma í ljós þá byrjaði að breiðast út mikill undirliggjandi titringur á heimsmörkuðunum. Það að sprengjan skyldi svo ekki komast upp á yfirborðið fyrr má e.t.v. skrifast á varkárni fjárfesta á heimsmarkaði sem voru allir orðnir flæktir í spilið hvort sem það var viljandi eður ei. Eftir það var svo í raun aðeins tímaspursmál hvenær dómínóið færi af stað, þetta þagnarsamsæri og kvíðaástand á heimsvísu gat ekki enst að eilífu.
Þegar hrunið hófst fyrir alvöru voru svo matsfyrirtækin í raun búin að mála sig út í horn með öllum fjárfestunum og stóðu frammi fyrir tveimur valkostum, hvorugum góðum: 1) að halda háu mati á skuldabréfum fyrirtækja sem voru jafnvel á leið í greiðslustöðvun og tapa þar með orðsporinu sem er dýrmætasta eign fyrirtækis sem fæst við að meta fjárhagslegt traust, eða 2) að reyna að bjarga eigin orðspori með því að viðurkenna sannleikann og lækka mat á þeim fjármálafyrirtækjum sem stóðu frammi fyrir vandræðum án tillits til áhrifa þess á viðkomandi fyrirtæki.
Eins og við vitum þá var það valkostur 2) sem varð ofan á og eftir lækkanir á lánshæfismati byrjuðu "lánalínur" að lokast, bankar að riða til falls og ýmis fjármálafyrirtæki að stefna í gjaldþrot. Eftir að sú skriða fór af stað varð ekki aftur snúið og síðan þá hefur ástandið undið upp á sig eins og snjóbolti sem fer hraðar en stjórnvöld ná að grípa inn í með sínum "neyðaraðgerðum" sem þau kalla að sturta peningum (almennings) inn í bankakerfið í von um að það muni redda einhverju.
Sem dæmi um hversu fáránlegt umverfið er orðið má nefna ákveðna forvitnilega tegund af áhættutryggingu sem kveður t.d. á um að ef lánshæfismati lántakanda lækki niður fyrir ákveðið mark skuli samningnum sjálfkrafa rift og hann strax greiddur upp að fullu, en heilu herskararnir af verðbréfamiðlurum og lögfræðingum vinna við að innheimta slíka samninga enda er það skylda þeirra fyrir hönd sinna viðskiptavina. Slík innheimta gengur beint á lausafjárstöðu skuldarans, sem óbeint leiðir til frekari lækkunar á lánshæfismati og fleiri samninga sem falla við það í eindaga og svona upphefst vítahringur sem þrengist í eftirfarandi skrefum:
#1 Skuldarinn neyðist skyndilega til að moka út lausafé til að mæta þessum óvæntu kröfum. #2 Ef skuldarinn er banki verður hann að verja sig fyrir þessari hröðu lækkun eiginfjárhlutfalls svo hann fari ekki niður fyrir lögbundið lágmark. Það getur hann gert með innheimtu gjaldfallinna skuldabréfa ef hann býr svo vel að eiga einhver slík, eða með sölu eigna sem er oft eina ráðið. #3 Þeir sem eiga hagsmuni undir bankanum komna verða varir við mikla sölu á eignum bankans og sjá að eitthvað óeðlilegt er á seyði, verða áhyggjufullir og taka út innistæður sínar eða selja sig út úr hlutabréfasjóðum o.þ.h.. Með öðrum orðum þá minnkar eftirspurnin eftir frekari skuldabréfaútgáfu bankans og því er slík endurfjármögnun ekki lengur valkostur, síst af öllu við gaddfreðnar markaðsaðstæður eins og nú ríkja. þegar allt lausafé hefur svo ryksugast burt hefst kapphlaup við tímann þar sem stjórnendur bankans rembast við að selja eignir nógu hratt til að eiga fyrir skuldum áður en veðköllin byrja að berast. #4 Ef bankinn er mikið* eða réttara sagt "illa" skuldsettur getur þetta aðeins endað á tvo vegu: annaðhvort tekst ekki að selja nógu miklar eignir nógu hratt til að standa í skilum á réttum tíma, eða ef það tekst þá verður bankinn áður en yfir lýkur eignalaus og getur ekki staðið í skilum með þær kröfur sem þá standa eftir. #5 Þegar banki stendur ekki í skilum telst hann umsvifalaust gjaldþrota.
*Með "vondri" skuldsetningu á ég við að uppbygging skulda- og eignasafns viðkomandi banka sé með þeim hætti að hún sé til þess fallin að leiða til svona atburðarásar. Án þess að ég hafi neitt haldbært fyrir mér í þeirri tilgátu, þá grunar mig samt fastlega að eitthvað svona hafi verið uppi á teningnum hjá Glitni þegar sá banki leitaði eftir aðstoð Seðlabankans, ekki síst í ljósi þess hversu hröð atburðarásin varð í kjölfarið. Eins og því hefur verið lýst er líkt og allt hafa farið í steik hjá þeim á þessum örfáu dögum(eða svo er sagt) þar til bankinn var þjóðnýttur . Annað hvort það eða þá að Lárus Welding hefur einfaldlega logið blákalt að framkvæmdstjóra ónefnds lífeyrissjóðs þegar hann fullyrti að rekstur bankans væri í góðum málum, aðeins tveimur dögum fyrir helgina örlagaríku.
Eins og fljótlega kom í ljós þá var allt íslenska efnahagslífið meira og minna samtvinnað og búið að hengja sig á allskyns svona skilmála sem skiptu e.t.v. engu máli á meðan allt lék í lyndi. Bæði vegna þess en ekki síst vegna ófyrirsjáanlegrar og ósvífinnar valdbeitingar erlendis frá, hrundi það því eins og spilaborg á undraskömmum tíma.
Ef einhver vill kynna sér meira um bakgrunn þessara mála þá vísa ég í eldri grein sem ég skrifaði um þessi matsfyrirtæki o.fl.
P.S. Ég sé að þetta er orðið ansi langur texti hjá mér, okkur gengur greinilega nokkuð vel að "skrifa okkur frá þessu" ástandi eins og það er stundum kallað. Byrjunin á því að fást við öll áföll er að átta sig á því, meðtaka og skilja hvað það var eiginlega sem kom fyrir. Þá fyrst er hægt að byrja að jafna sig, lengi lifi byltingin!